Færsluflokkur: Bloggar
19.10.2014 | 18:12
Íslam - níundi hluti: Hefðin.
Eins og áður hefur komið fram þá er Kóraninn grundvöllur hins íslamska samfélags. En Kóraninn er ekki eina mælisnúran sem múslímar notar til að stýra þjóðfélaginu og einkalífinu, lögum, reglum og siðum. Spámaðurinn sjálfur, orð hans og verk eru öllum trúuðum múslímum fyrirmynd. Snemma var safnað saman í mikil ritverk, upplýsingum um líf og venjur spámannsins Múhammeðs. Eru þessi fordæmi til orðs og æðis sem hann samfélaginu, gaf kölluð al-Sunnah eða hefðin. Hvernig hann klæddist, hvað hann borðaði, hvað hann giftist mörgum konum, hvernig hann kom fram við nágranna sína og fjölskyldu, hvað hann gerði við andstæðinga sína, hvernig hann baðst fyrir, lagalegar og pólitískar athafnir hans og meira að segja hvernig hann fór með dýr og plöntur, allt er þetta hlutu af hefðinni ,sunnah, sem kemur næst á eftir Kóraninum að mikilvægi. Mikilvægasti og aðgengilegasti hluti hefðarinnar er síðan skráður í Hadith, sem er safn orða spámannsins. Það safn nær til allra hluta lífsins og skilgreinir alla tilveruna í smáatriðum. Kjarni Hadith eru hinar svokölluðu sex réttu bækur er safnað var á níundu öld.
Múslímar skiptast í tvær stórar fylkingar í dag, Súnní og Shía múslíma og munum við heyra nánar af þeim síðar . Shía múslímar hafa sinn eigin Hadith lagabálk, Bækurnar fjórar. Þar er greint á milli orða spámannsins og orða imamanna, eða prestanna, sem eru í hávegum hafðir hjá shía-múslíma.
Á meðal þúsunda spekiorða og laga sem Hadith bækurnar geyma og sögð eru uppruninn hjá spámanninum, er að finna svokölluð heilög orð. Þar talar Guð beint í gegnum spámanninn Múhameð, án þess að þau orð séu skráð í Kóraninum. Þau eru nokkurskonar viðbót Allah við kóraninn. Segja má með nútíma orðfæri að Múhameð sé í þeim aðstæðum einskonar miðill sem Allah talar í gegnum.
En hver skyldi þá vera kjarninn í kenningu kóransins, hinna heilögu orða, hefðarinnar og Múhameðs?
Frá því verður sagt í næsta pistli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2014 | 21:13
Íslam - áttundi hluti; Kóraninn
Kóraninn.
Múhameð var að því er heimildir múslímar segja, mikilhæfur pólitískur og hernaðarlegur leiðtogi, snjall og óhræddur að taka afdrifaríkar ákvarðanir. Auk þessa var hann elskulegur fjölskyldumaður og naut þess að spjalla við konur sínar og börn. Í augum múslíma er hann hin hreina fyrirmynd, og þó þeir telji það synd að tilbiðja hann sem Guð, fylgja þeir boðum hans nánar og oft betur en margir kristnir menn fylgja Jesú Kristi, sem þeir þó kalla Guðs son.
Múhameð virðist hafa orðið fyrir djúpri trúarlegri reynslu eins og kom fram hér í fyrri pistlum. Sú reynsla entist honum æfina út og varð hvatinn að boðskap hans og starfi. Áður hafði hann reyndar í auknum mæli snúið sér að trúarlegum vangaveltum og burt frá hinu veraldlega. Hann velti mikið fyrir sér dómsdegi sem hann taldi að stæði fyrir dyrum, þegar Guð myndi dæma alla menn. Í framhaldi af því komst hann að þeirri niðurstöðu að aðeins einn Guð væri til og hann, Múhameð, væri sendur sem spámaður þessa Guðs til þess að boða mönnum sannleikann og frelsa þá frá glötun dómsins. Var hann undir áhrifum frá söfnuðum gyðinga bæði í Mekku og Medínu, en einnig kristnum söfnuðum er í sí-auknum mæli höfðu leitað suður á Arabíuskagann. Þar voru á ferðinni kristnir sértrúarsöfnuðir á flótta undan ægivaldi býsantísku- orþodoxu- ríkiskirkjunnar í aust rómverska ríkinu, en frá henni var sagt á í síðasta þætti.
En það voru vitranirnar sem í raun urðu til þess að móta hugmyndir Múhameðs. Fyrsta vitrunin var sú áhrifamesta. Hann var að íhuga úti í eyðimörkina er hann sá mikla veru birtast sér á himninum, veru er hann í fyrstu hélt að væri Guð. Síðar uppgötvaði hann að þar væri útsendari Guðs á ferð, erkiengillinn Gabríl, en ekki Guð sjálfur. Engillinn lét hann lesa af bók, þó að Múhameð væri í raun ólæs. Samkvæmt kafla 96 í Kóraninum, sem er talinn greina frá fyrstu vitrun Múhameðs, sagði engillinn: "Lestu í nafni Drottins þíns, sem skapaði". Síðar, eftir að engilinn hætti að birtast honum , fann spámaðurinn á sér hvaða hugsanir eða orð Guð talaði til hans. Tengdust þá vitranirnar gjarnan hagnýtum málum samfélagsins sem þurfti að finna lausn á. Öllum þessum orðum er hann bæði sá, heyrði og skynjaði, söfnuðu fylgendur Múhameðs saman í Kóraninum, sem er bókmenntalegt listaverk, ritað á klassískri arabísku. Má segja að Kóraninn hafi orðið undirstaðan að rit og bókmáli araba. Hann geymir trúarreynslu spámannsins samkvæmt kenningu íslam. Hvað sem annars má um Kóraninn segja er hann frábrugðin Biblíunni að því leiti að honum er safnað saman á meðan Múhameð lifði og hann er því heilsteyptur og veldur ekki sömu ritskýringarlegu vandamálunum og Nýja Testamentið og hebreska Biblían sem urðu til á löngum tíma og voru gerðar af ótölulegum fjölda höfunda. Þó átti eftir að raða ritsafninu saman í heilsteypt verk er spámaðurinn lést. Erfitt var að raða orðum hans og sýnum saman í rétta tímaröð og því varð það úr að raða þeim í kaflaröð eftir lengd. Þess vegna eru lengstu kaflarnir fremst í Kóraninum og síðan styttast þeir er aftar dregur. Sjálft orðið "kóran" þýðir upplestur og vildi Múhameð með því undirstrika að hann læsi bókina beint úr hendi Gabríels engils. Hluti Kóransins er reyndar kominn úr kristnum og gyðinglegum ritum þó textarnir séu oft mikið breyttir, og eitthvað er líka sótt til hins gamla átrúnaðar Arabíuskagans. Dómsdagsræður spámannsins sem koma aftur og aftur fyrir í textanum bera kristnum áhrifum vitni, sérstaklega er þar margt líkt því sem lesa má í Opinberunarbók Jóhannesar. En í raun var þekking spámannsins á kristinni trú næsta yfirborðsleg. Hann þekkti betur til kenninga og hefða gyðinga. Þó virðist hann hafa fengið ýmsar rangar upplýsingar um innihald trúar kristinna manna og gyðinga, enda kunni hann hvorki grísku, hebresku né arameísku, þau tungumál sem bækur gyðinga og kristinna voru ritaðar á. Margt af því er Múhameð segir um kristinn og gyðinglegan átrúnað, er því rangt eða misskilningur vilja ýmsir kristnir menn og gyðingar halda fram.
Því eru múslímar að sjálfsögðu ekki sammála.
Fyrir múslímum hefur Kóraninn í raun svipaða stöðu og Jesús hjá hinum kristnu þó mörgum kunni að þykja það undarlegt að bera þannig saman mann og bók. Kóraninn er samkvæmt íslam, opinberun Guðs á jörðinni, hann er guðdómlegur, guðdómleg hugsun og lögmál Guðs sem birtist mönnum í rituðu orði. Það gefur því að skilja að hann er óskeikull og allt sem hann segir er guðdómlegt. Hann er þannig hafinn yfir alla gagnrýni og alla bókmenntalega greiningu eins og þá er tíðkast á Biblíunni. Þó eru að sjálfsögðu til margar túlkunarhefðir eins og við munum komast betur að síðar. Múhameð birti þetta guðdómlega orð Guðs, sá síðasti í óslitinni röð spámanna allt frá Abraham, Móse og Jesú segja múslímar. Vissulega hafði Guð talað til mannkyns í gegnum ofangreinda spámenn, en aðeins á takmarkaðan hátt. En Múhameð sagðist vera hinsti spámaðurinn og að Kóraninn væri hin fullkomna opinberun hins fullkomna vilja Guðs. Ekkert myndi heldur framar bætast við. Engir fleiri spámenn myndu koma í heiminn. Múhameð var því innsigli spámannanna, " khatm al-anbiya ". Þannig vildi Múhameð sýna að boðskapur hans ætti sér í raun fornar rætur og stæði á grunni spámannlegrar hefðar eingyðistrúarinnar.
Alla vega kemur í ljós, ef Kóraninn er borinn saman við Biblíuna, að þar eru ýmsar sömu sögur sagðar á mjög ólíkan máta. T.d. saga Nóa, Abrahams og ættferðanna, Móse, Davíðs og Salómons, Maríu móður Jesúr og Jesú og þannig mætti lengi telja. En Múhameð svaraði gagnrýninni á þann hátt að hans kenning væri fullkomnun alls þess er á undan hafði komið. Það væri ekki hann sem hefði misskilið hlutina. Biblía gyðinga og kristinna væri því í raun byggð á misskilningi en ekki Kóraninn.
En hvað sem því líður þá virða múslímar mjög kristna menn og gyðinga, þó þeir um leið haldi því fram að hinir sömu hafi snúið út úr kenningu Guðs. Kristnir menn og gyðingar eru "fólk bókarinnar".
Á móti hafa kristnir og gyðingar bent á að þeirra bækur sem Biblían geymir séu mun eldri Kóraninum, og því upprunalegri heimild sem Kóraninn sé unninn úr.
Og þannig hafa menn deilt um langan aldur.
Enn hinn almenni múslím hefur nú ekki miklar áhyggjur af þessum guðfræðilegu hártogunum. Hann veit sem er að Kóraninn hefur algert vald yfir múslímum og því er öll gagnrýni á hann runninn undan rifjum hins illa. Hann er ekki einu sinni sannur nema á frummálinu, arabísku. Hægt er að nota þýðingar til að öðlast grunnskilning á trúnni, en frummálið eitt er rétt, því þannig og aðeins þannig opinberaðist Kóraninn Múhameð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2014 | 14:00
Íslam - sjöundi hluti
Árið 622 var Múhameð boðið til borgarinnar Medinu, til að koma á friði þar á bæ, en þar hafði um tíma ríkt upplausnarástand og vonuðust heimamenn til að kenning Múhameðs gæti lægt öldurnar. Var ástandið þá orðið þannig í Mekku að hann varð að flýja borgina um miðja nótt. Þykja múslímum þetta svo mikil tímamót að þeir miða upphaf tímatals síns við þennan atburð. Þess vegna er í dag árið 1378 samkvæmt tímatali múslíma.
Borgin hét reyndar upphaflega Yathrib, en fékk síðar nafnið 624 sigraði hann borgarbúa, þó það tæki hann nokkur ár að ná sjálfri borginni á sitt vald. Medina , sem merkir BORGIN EINA, því þar kom Múhameð á fót fyrsta múslímska samfélagin sem gat um frjálst höfuð strokið og átti eftir að verða fyrirmynd annarra. Frá Medínu hóf hann vopnaða baráttu gegn íbúum Mekku og árið
Einnig barðist hann gegn ættbálkum gyðinga sem studdu andstæðinga hans í Mekku leynt og ljóst. Í þeirri baráttu var ekki beitt neinum vettlingatökum. Enda var það Múhameð mikið persónulegt áfall að gyðingar skyldu ekki vilja viðurkenna hann sem spámann. Þess í stað hæddust þeir að fákunnáttu hans í fræðum gyðinga og gerðu lítið úr boðskapnum.
Stuttu eftir fall Mekku sigraði Múhameð samanlagðan her uppreisnargjarnra gyðinga frá Medínu og heiðinna ættbálka sem höfðu gert við þá bandalag og var þar með búinn að sameina skagann allan undir eina stjórn. Til að koma í veg fyrir frekari uppreisnir og bæla niður andstöðu lét hann eftir sigurinn taka af lífi alla karlmenn af ættbálki gyðinga í Medínu, alls 700 menn, og selja konurnar og börnin í þrældóm.
Múhameð var búinn að leggja á ráðin um að gera innrás í Sýrland er hann féll frá árið 632.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2014 | 20:12
Íslam - sjötti hluti
Ég byrjaði þessa pistlaröð á því að rekja fyrstu árin af æfi Múhammeðs http://napoleon.blog.is/blog/napoleon/entry/1465595/
og nú verður fram haldið.
Fyrstu vitranir sem hann fékk kringum árið 610 og hér var sagt frá í fyrsta pistlinum, voru Múhameð á margan hátt erfiðar og lýsti hann því síðar svo, að það hefði verið eins og sálin væri rifinn burt úr líkamanum þegar Gabríel birtist honum og honum þótti sem hann væri að kafna. Því það var nefnilega Gabríel erkiengill sjálfur sem hafði vitrast honum. Við munum hér eftir notast við arabíska útgáfu á nafni engilsins, en það er "Gabril". Í fyrstu vissi Múhameð ekki almennilega hvað hann ætti að gera við þessa trúarreynslu sína og fór leynt með hana, sagði aðeins konu sinni og nánustu fjölskyldu frá henni. Kom þar margt til. Bæði var það, að í þessum boðskap sem Gabril flutti honum, var ráðist harkalega á hverskonar fjölgyðistrú og þar með á undirstöðu þeirra trúarbragða er höfðu gert Mekku volduga og ríka. Í Mekku var að finna steininn heilaga, Kaba, helgasta stað araba og sóttu menn hann heim ár hvert . Eins og fyrr var sagt ríkti fjölgyðistrú á Arabíuskaganum fyrir daga Múhameðs. En steinninn í Mekka var einskonar sameiningartákn allra þeirra goða og vætta sem menn lögðu trú á. Mekkubúar höfðu síðan góðar tekjur af helgistaðnum ekki síst vegna þess að bannað var að bera vopn nálægt honum og þannig sköpuðust góðar aðstæður fyrir verslun. Allar leiðir araba láu því til Mekku og þangað streymdu úlfaldalestir hlaðnar varningi og pílagrímar með fullar hendur fjár, að nokkru leyti eins og túristar dagsins í dag. En öll gagnrýni á fjölgyðistrúna var sem sagt álitin gagnrýni á Kaba . Múhameð leit reyndar þannig á að hann væri ekki að rjúfa tengslin við forna menningu araba með kenningu sinni, eða réttara sagt, kenningunni sem Gabril gaf honum. Þess vegna hélt Múhameð sjálfur áfram að heimsækja helgistaðinn við Kaba, ganga sjö sinnum kringum steininn svarta í miðju helgiskríninu, kyssa hann og framkvæma þær helgiathafnir aðrar sem Kaba tilheyrðu , meðal annars að færa fórn á síðasta degi heimsóknarinnar til Kaba. Og þar með sló hann vopnin úr höndum andstæðinga sinna sem héldu því fram að hann væri að rjúfa tengslin við fornar dygðir.
En það var ekki síður annað sem fékk Múhameð til að óttast viðbrögðin við boðskapnum. Boðskapur hans var nefnilega mikil árás á siðleysi kaupmannastéttarinnar í Mekku. Múhameð kenndi nefnilega að það væri rangt að raka að sér fé og safna auði á kostnað fátækra. Okurvextir af lánastarfsemi og annað það er í dag myndi flokkast undir kapítalisma, væri af hinu illa. Nær væri fyrir hina ríku að deila út auðæfum sínum og skapa samfélag þar sem hinum veikburða og viðkvæmu væri sýnd virðing. Þessi boðskapur féll svo sannarlega ekki í kramið hjá valdastéttinni í Mekku og gekk Múhameð illa að safna þar lærisveinum. Um tíma leit meira að segja út fyrir að litla samfélaginu sem myndaðist í kringum hann, yrði útrýmt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2014 | 20:07
Íslam - fimmti hluti
Ein af forsendunum þess að skilja íslam er að átta sig á arabíska hugtakinu ummah. Ummah er heitið á samfélagi allra múslíma í veröldinni. Samkvæmt kenningu múslíma er hin íslamska ummah, eða hið íslamska samfélag, ein eining, bundin af trú á orð Kóransins. Þetta var byltingarkennd hugmynd í ættbálkasamfélagi Arabíuskagans á tímum Múhameðs, því hún fól það í sér að ættirnar yrðu að slíðra sverðin og standa saman. Hugmyndirnar um ummuhna eru líka drifkrafturinn á bak við hinn svokallaða pan-arabisma, eða tilraunir múslíma á 20. öld til að sameinast í eitt ríki.
Á Vesturlöndum setja menn gjarnan samasemmerki á milli íslam og arabaheimsins. En í dag telja arabar aðeins einn fimmta af öllum múslímum í heiminum. Samt er mikilvægi araba óumdeilt meðal múslíma og kemur þar margt til. Íslam varð til á Arabíuskaganum og er rótfest í arabískri menningu og tungu. er hið helga tungumál Kóransins og síðast en ekki síst geyma arabísk lönd helga staði sem allir múslímar þurfa að sækja heim í pílagrímsferðum. Er þar auðvitað átt við borgirnar Mekku og Medínu sem báðar eru í Saudi-Arabíu. Arabískan
Í dag búa rúmlega 300.000.000 múslímskra araba á svæði sem nær frá Máritaníu til Írak. Þeir eru ekki allir arabískir að kynþætti en tungumál þeirra er arabíska og hún sameinar þá. Meirihluti araba eru múslímar þó að víða í hinum arabíska heimi sé að finna kristna minnihluta, t.d. koptísku kirkjuna í Egyptalandi, Armena í Tyrklandi, og Sýrlensku kirkjuna. Ofsóknir gegn kristnum að undanförnu hefur þó orðið til að fækkað hefur í þeirra hópi og enginn veit í raun hversu margir eru eftir í gömlu kirkjunum á þessu svæði. Flestir arabar teljast til sunnímúslíma.
Næst elsta og áhrifamesta íslamska menningarsvæðið er hið persneska. Til þess teljast Íranir en einnig þjóðir þeim náskyldar er tala svipað tungumál. Þar má nefna Kúrda, Afgani, Tajikista, Uzbekista og Pakistana. Hinn persneska menningarheild telur rúmlega 200.000.000 múslíma. Þó að Persaveldi hafi upphaflega verið innlimað í heim múslíma með hervaldi þá fór svo að framlag Persa í listum og fræðum átti eftir að verða ómetanlegt fyrir íslamska menningu. Á hinu persneska menningarsvæði eru shía múslímar í meirihluta. Nánar verður sagt frá sunní og shía í næstu pistlum.
Náskyldir persnesku þjóðunum og af indóevrópska stofninum eru múslímar á hinu indverska meginlandi. Þeir eru langstærsti menningarhópur múslíma í heiminum eða um 450.000.000 og búa í Pakistan, Bangladesh og á sjálfu Indlandi
Tyrknesku þjóðirnar eru þriðjar í röðinni hvað stærð en áhrif þeirra eru mikil í heimi múslíma. Eru tyrknesku þjóðirnar dreifðar allt frá Balkanskaga í vestri til Síberíu í austri. Tyrkir hafa haft mikilvægu hlutverki að gegna í sögu íslams á undanförnum öldum. Tyrkjaveldi var síðasta stórveldi múslíma og Tyrkjum tókst næstum því að brjóta sér leið inn að hjarta Evrópu á sínum tíma. Þeir komu á fót ottómanska heimsveldinu sem stóð í einar sjö aldir eða allt fram yfir fyrri heimsstyrjöldina, þó það hafi verið á brauðfótum síðustu einu og hálfa öldina. Tyrki er ekki aðeins að finna á hinu gamla áhrifasvæði Ottómananna eða í Tyrklandi eins og við þekkjum það í dag. Margar af ný-sjálfstæðum þjóðum Kákasus og Mið-Asíu landanna eru tyrkneskar að uppruna. Einnig búa margir Tyrkir í Rússlandi. U.þ.b. 200.000.000 manna teljast til hinnar tyrknesku menningarheildar.
Íslamskur átrúnaður barst snemma til Afríku handan Sahara eyðimerkurinnar og afríkanskir múslímar hafa lagt sitt lóð á vogarskálar þeirrar þróunar sem að baki íslam býr. Samkvæmt sögunni var sá þjónn Múhameðs sem kallaði spámanninn til bæna, blökkumaður, þannig að blökkumenn hafa frá upphafi tengst sögu múslíma. Í dag játa um 200.000.000. íbúa Afríku íslam.
Íslam barst frekar seint til Malasiu en í dag er Indónesía lang fjölmennasta einstaka íslamska landið í heiminum. Í Indónesíu búa um 250.000.000 múslíma. Indónesísk-íslömsk menning spannar Indónesíu, Malasíu, Brunei, Suður-Filipseyjar og nokkur landsvæði á Taílandi og í Kampútseu. Hörð átök hafa löngum verið milli kristinna manna og múslíma bæði í Indónesía og Afríku.
Minna þekkt er saga múslíma í Kína , en samfélag þeirra þar telur einhverstaðar á milli 30-100 milljónir manna. Þetta er gamalt samfélag sem varð til á 7. öld og í Kína hefur þróast kínversk-íslömsk menningararfleifð með sín eigin sérkenni. Múslímar hafa átt í útistöðum við kommúnistaflokkinn að undanförnu og sér því miður ekki fyrir endann á þeirri þróun.
Ekki má gleyma þeim múslímum sem búa í Evrópu og Ameríku. Þeir eru að vísu fámennir en hafa mikil áhrif á umræðuna hér á Vesturlöndum. Flestir eru innflytjendur sem hafa komið til landa Evrópu og Ameríku eftir síðari heimsstyrjöldina í leit að betri lífsgæðum og á flótta frá fátækt og vesöld. Þar hafa þeir stofnað samfélög, byggt moskur og lifa lífi sínu sem múslímar. Því miður eru horfur á að vaxandi spenna og átök einkenni samskipti þeirra við heimamenn eins og fréttir hafa sýnt, með vaxandi þjóðerniskennd og ítökum þjóðernissinna.
Allar þær tölur sem hér eru nefndar þarf auðvitað að taka með fyrirvara, enda þróunin ör og átök víða á þeim svæðum sem um ræðir - mannfjöldatölur breytast því skjótt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2014 | 12:11
Íslam - fjórði hluti
Í stuttu máli sagt má segja að í dag sé íslam hinn ríkjandi átrunaður í öllum Miðausturlöndum, þ.e. í arabaheiminum, í Norður -Afríku og í löndum Sahara eyðimerkurinnar. Þar er þó Ísrael undantekning og munum við fjalla um ástandið þar síðar. Íslömsk menningaráhrif teygja sig yfir Vestur-Afríku, hluta Austur-Afríku eða allt þangað sem nú er Kenya , Iran og A fganistan , Mið-Asíu-löndin , Norður og Norð-Austur Indland, Malasíu og Indókína . Á Indlandi stóð ríki múslíma hvað hæst á valdatíma Mogulanna á 16. og 17. öld og þaðan er komin súfi stefnan sem er einskonar sambland af íslamskri eingyðistrú og hindúasið. Á suður landamærum Evrópu hertóku hersveitir múslíma Konstantínópel árið 1453 eins og fyrr segir og síðar allan Balkanskagann . Var þá nafni Konstantínópel breytt í Ístanbúl , sem sagan segir að sé dregið af neyðarópi borgarbúa er þeir sáu Tyrki streyma inn í borgina, en það hljómaði svo eis ten polin á grísku. Undir Ottómönum í Tyrklandi sátu hersveitir múslíma síðast um Vínarborg í lok 17. aldar. Enn eru margir múslímar búsettir á Balkanskaganum og væri hægt að fjalla í löngu máli um þá hörmungarsögu sem þar hefur átt sér stað síðan á 16. öld.
Sömuleiðis eru fylgendur íslam stór og áberandi minnihlutahópur í Taílandi , Filipseyjum , Kína , Madagaskar , og Tansaníu. Það má segja að hin íslömsku lönd myndi einskonar hálfmána frá Indónesíu í austri að Madagaskar á Afríkuströndinni í vestri enda eru þessi lönd oft kölluð lönd hálfmánans, en hálfmáninn er tákn íslam..
Eins og sést á þessari upptalningu liggja flest lönd múslíma utan sjálfs arabaheimsins þó að áhrif arabamenningarinnar séu auðvitað sterk, enda trúarrit íslam, Kóraninn, ritaður á arabísku. Fjölmennustu lönd hins múslímska menningarheims liggja í Suð-Austur-Asíu, þ.e. Indónesía, Pakistan og Bangaladesh.
Íslam náði ekki aðeins skjótri útbreiðslu þegar í upphafi vegna dugnaðar araba í hernaði og upplausnarinnar sem ríkti í Evrópu og Persíu. Sjálfur átrúnaðurinn hafði líka margt fram að færa og boðskapurinn þjappaði Aröbum saman enda einfaldur og öllum skiljanlegur. Múslímar lutu þannig einum leiðtoga, Múhameð, höfðu eitt trúarrit sem allt byggði á, Kóraninn, og buðu fram skipulag og öryggi þegar upplausn ríkti í Evrópu vegna þjóðflutninga. En þó útbreiðsla hins múslímska þjóðskipulags hafi verið skjót, tók það auðvitað lengri tíma að fá hinar sigruðu þjóðir til þess að taka trúna. Meira að segja í þeim löndum við botn Miðjarðarhafsins er teljast kjarnasvæði íslam, er stór hluti þegnanna enn í dag kristinn og í löndunum sunnan Sahara berast kristnir þjóðflokkar og íslamskir á banaspjótum. Í öðrum löndum eru þeir sem játa íslam aðeins stór minnihluti, til dæmis á Balkanskaganum eins og átökin milli múslíma og kristinna þar hafa sýnt á undanförnum árum. Um þessar mundir sækir íslam hvað hraðast fram í Afríku og einnig meðal þjóðfélagshópa af afrískum uppruna í Bandaríkjum Norður-Ameríku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2014 | 14:52
Íslam - þriðji hluti.
Íslam þýðir í raun og veru "undirgefni" við hinn eina sanna Guð. Við Íslendingar köllum oft íslam "múhameðstrú", og viljum þá kenna íslam við spámanninn Múhameð er byrjaði að boða trú um og upp úr 620 e.kr. En það er alrangt að gera slíkt. Íslam er helgað undirgefninni við Guð, og er ekki trú á Múhameð spámann.
Vöggu Íslam er að finna á í norður og vestur. Fyrir daga Múhammeðs hafði ríkt á Arabíuskaganum fjölgyðistrú og ættbálkasamfélag. Ekkert var ættbálkunum ver við en miðstýring og ríkisvald og vildi hver stjórna sér. Það var auðvitað þannig að ættfeður hvers ættbálks fóru með völdin og á margan hátt lifir ættfeðrahugmyndin enn góðu lífi hjá múslímum. Þó að allir ættbálkarnir hafi viðurkennt helgi steinsins í Mekku sem við munum heyra nánar um síðar, þá ríkti þannig í raun og veru stjórnleysi í arabaheiminum þegar Múhameð hóf trúboð sitt. Það var ekki nóg með að hver ættbálkur sæi um sig, heldur trúðu ættirnar hver á sín goðmögn og áttu í endalausum erjum við nágrannaættbálkana. Arabíuskaga og þaðan breiddist trúin og hið íslamska þjóðfélag út
Hersveitir múslíma breyttu öllu þessu.
Eftir að hafa sameinað Arabíuskagann undir stjórn Múhammeðs, lögðu múslímar undir sig Palestínu , Sýrland og Persíu og teygðu sig þaðan inn í Mið og Suður-Asíu. Í vesturátt sigruðu íslamskar hersveitir Egyptaland , Líbíu , Túnis , Alsír , Marokkó , Spán og Portúgal . Pólitískt vald íslam breiddist ótrúlega hratt út, því trúboðið fór fram í krafti hervalds og þau lönd sem lutu valdi herja íslam urðu að taka upp stjórnkerfi múslíma. Reyndar blönduðust arabar fyrst í stað lítið heimamönnum í hinum hernumdu löndum, heldur byggðu þeir nýjar borgir þar sem setuliðið bjó, en heimamenn borguðu skatta og skyldur. Það þýddi þó ekki að hernumdar þjóðir gætu haldið áfram lífi sínu sem fyrr. Að vera undirgefinn Guði átti ekki bara við á helgum dögum, heldur varð allt þjóðfélagskerfið að lúta lögmáli trúarinnar.
Á grunni íslam og í krafti herja araba varð á örskömmum tíma til miðstýrt heimsveldi sem náði allt frá landamærum Frakklands í vestri að Samarkandi Mið-Asíu í austri. Framrásin varð fyrst stöðvuð Evrópumegin í orustunni við Poitiers í Frakklandi árið 732 þar sem Frankar fóru með sigur af hólmi. En arabar héldu spænsku hálfeynni í rúmlega 700 ár.
Það eru margar ástæður fyrir því hversu hratt gömlu heimsveldin sem urðu á vegi múslíma hrundu til grunna. Íslömsku sigurvegararnir komu oftast vel fram við hinar sigruðu þjóðir, og margir litu í raun á þá sem frelsara undan grimmri harðstjórn og kúgun. Til dæmis komu múslímar mun betur fram við koptísku þjóðkirkjurnar í Egyptalandi og Sýrlandi, heldur en nokkur tíma Aust-Rómverska eða Býsnatíska ríkið hafði gert. Höfuðborg þess var Konstantínópel eða Mikligarður, og Konstantínópel réð yfir öllum löndunum við botn Miðjarðarhafsins þegar Múhameð hóf sigurgöngu sína. Í Konstantínópel viðurkenndu menn bara eina kirkju, hina grísk kaþólsku og létu aðrar sæta kúgun og órétti. En arabar leifðu þjóðkirkjunum aftur á móti að starfa óáreittum. Hið sama átti við um gyðinganýlendurnar sem áttu í vændum betri tíð eftir að yfirráðum kristinna manna lauk. Auk þessa hafði Býsantíska ríkinu, eða Aust-Rómverska ríkinu, blætt út þegar hér var komið sögu í átökum við Persa í austri og rómversk kaþólska í vestri. Þjóðflutningar höfðu einnig lamað mótstöðu Evrópumanna og í arabaheiminum var íslam sameiningartákn sem menn gátu fylkt sér undir. Evrópa var aftur á móti klofin í austur og vestur kirkjuna. En í Litlu -Asíu þar sem nú er Tyrkland, tókst múslímum ekki að brjóta á bak aftur hersveitir Býsantíska keisarans.
Þar hallaði þó undan fæti eftir því sem aldir liðu og smátt og smátt tókst múslímum að klípa utan af gamla keisaraveldinu. Og þó að Mikligarður hafi varist árásir múslíma allt til ársins 1453, þá þurftu heimamenn þar ekki síður að standa í stappi við kristna meðbræður sína sem oft fóru með báli og brandi gegn Býsantíska ríkinu. Þannig bitnuðu krossferðirnar ekki aðeins á Aröbum í Ísrael, heldur líka á Bysantíum. Og í lokaorustunni um borgina miklu áruð 1453, voru það aðeins fámennar sveitir ítalskra dáta sem veittu leifum rómverska ríkisins einhvern stuðning. En eins og segir í ljóði Steins Steinarr, þá vinnur ekki neinn sitt dauðastríð.
Gott er að skipta sögu íslam í þrjú tímabil í grófum dráttum til að gera sér grein fyrir framvindu mála.
Fyrsta tímabilið getum við kallað frumsöguna, og nær það frá 622 og allt til ársins 732 þegar fyrsta stóra borgarastyrjöldin klauf ríkið niður .
Annað tímabilið nær frá árinu 732 til 1258 þegar Abbasitar ríktu yfir mestum hluta hins mikla veldis íslam, enn höfuðborg þeirra var í Mesópótamíu, Millifljótalandinu, þar sem núna eru löndin Írak og Íran. Þetta tímabil er oft kallað "klassíski" tíminn, þegar íslömsk menning var á hápunkti dýrðar sinnar.
Eftir 1258 og þar til er herveldi Vesturheims fóru að leggja undir sig lönd múslíma á 18. og 19. öldinni, getum við kallað "síð -miðaldir". Það er tímabil Ottómana í Tyrklandi og múslímska ríkisins á Indlandi.
Aldirnar tvær, hina 19. og 20. hafa síðan einkennst af stöðugum átökum við efnahagslegt og hernaðarlegt vald hins vestræna, kristna heims. Megin hluta þess tíma hefur hið fyrrum stolta veldi múslíma verið margklofið og hersetið af erlendum þjóðum. Sú auðmýking í ljósi hins áður svo glæsta ferils, skýrir kannski að nokkru þá beiskju sem í dag ríkir í garð Vesturveldanna meðal margra íslamskra þjóða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.10.2014 | 15:37
Íslam - annar hluti
Ég sagði aðeins frá Múhameð í fyrsta pistlinum sem ég ætla að vera með hér á blogginu um íslam og kristni.
En áður en lengra er haldið ætla ég að hoppa aðeins fram í tímann og segja smá reynslusögu.
Fyrstu persónulegu kynni mín af íslam voru árið 1989 þegar ég var á ferð í Tyrklandi ásamt góðum félögum mínum úr Háskólanum. Auðvitað hafði maður lært um þennan átrúnað í skólanum, en það var allt á bókina. Markmið ferðarinnar var reyndar ekki að kynnast íslam, heldur að skoða minjar um forna gríska og rómverska menningu Tyrklands, en slíkar minjar blasa þar við á hverju götuhorni. Einnig ætluðum við að fara að fjallinu Ararat þar sem sagan segir að örkin hans Nóa hafi strandað eftir syndaflóðið. Ararat liggur reyndar í Armeníu og þegar til kom var búið að loka landamærunum vegna borgarastríðsins sem þá geisaði í Kákasuslöndunum þannig að ekki sáum við örkina í það skiptið. Þetta var erfitt ferðalag um eyðimerkur og hásléttur þessa hrjóstruga og þurra lands sem um leið er svo heillandi og dulúðugt og fullt af yndislegu og vinalegu fólki, þvert á það sem margir Íslendingar halda. Hér á landi sjá menn bara fyrir sér Tyrkjaránið þegar minnst er á Tyrkland og gleyma því að þeir ræningjar sem þá sóttu landið heim voru frá Alsír en ekki Tyrklandi . Svona getur gamall misskilningur loðað lengi við og mótað hugmyndir heillar þjóðar .
Þó að markmið ferðarinar hjá okkur guðfræðinemunum hafi upphaflega verið að komast í kynni við menningararf hins forna ríkis sem við Íslendingar kölluðum Miklagarð, en hét Býsantíska ríkið og var arftaki Rómaveldis, þá fór nú fljótlega þannig að lifandi menning Tyrkja og Tyrklands eins og hún mætir gesti í dag, tók yfirhöndina. Og þar réði viðmót heimamanna í okkar garð einna mestu. Hvarvetna var okkur tekið með kostum og kynjum, sérstaklega uppi á hásléttunni þar sem útlendingar eru sjaldséðir. Þar var boðið upp á te, tyrkneskt kaffi, vatnsmelónur og smákökur og fór hið besta á með okkur og fjallabúum þó hvorugur skildi neitt í máli hins. Tyrkland var á sínum tíma eitt voldugasta ríki íslams og hins íslamska átrúnaðar. Nú er hið gamla ríki Ottómanana eins og það hét, löngu horfið, en eftir standa glæsilegar byggingar og mikill menningararfur.
Bílstjórinn okkar í þessari ferð var nokkuð skondinn náungi. Hann var sanntrúaður múslím en um leið mjög nútímalegur Tyrki sem fékk sér í staupinu á barnum á hótelunum á kvöldin og skemmti okkur með frábærum sögum af sér og sínum. Hann viðurkenndi vissulega að það væri bannað að neita áfengis sem múslím, en tjáði okkur það að hann væri nú í þeirri aðstöðu sem rútubílstjóri að fara til Mekku einu sinni á ári með pílagríma. Þegar þangað væri komið sagðist hann fórna úlfalda fyrir syndir sínar, og þar með væri allt í sómanum milli sín og Allah, en Allah heitir Guð múslíma. Enda hafði Bílstjórinn talnabandið alltaf við höndina, bæði í bílnum og á barnum og aldrei mistókst honum aksturinn. Rútan var að vísu æfagömul, skökk og skæld, en á hana hafði bílstjórinn okkar ágæti málað bænaorð úr Kóraninum í margskonar litum, þannig að hann var viss um það að ekkert gæti okkur grandað. Alla vega komumst við öll heil á húfi heim á ný þó sumir hafi reyndar verið með magaverk í nokkurn tíma á eftir. En það er önnur saga.
Í þessum pistlumer það ætlunin að reyna að kafa aðeins niður í þennan margbreytilega átrúnað sem við guðfræðinemarnir rákumst á þarna á ferð um Tyrkland, átrúnað sem í raun er svo allt öðruvísi en við Íslendingar gjarnan gerum okkur í hugarlund. Síðan þessi ferð var farin hef ég farið margoft til Tyrklands, lesið og rannsakað íslömsk fræði og sögu og eignast marga góða múslímska vini víða um lönd. Er reyndar nýkomin úr ferð um Svartahaf þar sem ég kom við í Ístanbúl og austanverðu Tyrkland hjá bænum Trabzon.
Íslam er alltaf í fréttunum í tengslum við skuggalega ofbeldismenn og ofsatrúarmenn. En eins og við ferðalangarnir komust að raun um í Tyrklandi hér forðum daga, þá er íslam svo miklu meira og flóknara en það eitt sem birtist í fréttunum hér á Vesturlöndum. Að segja að allir múslímar séu eins er líkt því að segja að allar kristnar kirkjudeildir séu eins. Og það er ekki víst að kristnir menn væru tilbúnir að skrifa upp á það!
Við skulum þess vegna byrja á því að reyna að átta okkur á því hvar íslam er að finna og í hvaða myndum. Síðar munum við kafa betur ofan í sjálfa kenningu múslíma og birtingarform hennar.
Bloggar | Breytt 11.10.2014 kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2014 | 13:56
Íslam - fyrsti hluti
Múhameð fæddist í borginni Mekku, sem liggur nokkurn veginn á miðjum Arabíuskaganum, árið 570 e.Kr. að því er talið er. Aðeins stuttu eftir fæðingu Múhameðs lést faðir hans og móðir hans lést er hann var 6 ára. Það var því að lokum frændi hans Abu Talib sem tók hann í fóstur, ól hann upp og gerði hann að kaupmanni. Eftir að Múhameð óx úr grasi hóf hann störf hjá ríkri konu sem stundaði kaupmennsku en hún hét Hadiga og var frá borginni Mekku eins og reyndar Múhameð sjálfur. Brátt fékk hún ofurást á hinum unga Múhameð og bauð honum hönd sína. Múhameð þáði boðið og varð hjónaband þeirra hamingjusamt samkvæmt heimildum þótt Múhameð hafi aðeins verið 25 ára en Hadiga 40 ára er þau gengu í það heilaga. Þau eignuðust saman tvo syni og fjórar dætur. Það var síðan í föstumánuðinum eða Ramadan árið 610 samkvæmt almanaki kristinna manna, að Múhameð fyrst fékk þær vitranir sem áttu eftir að breyta lífi hans og gangi sögunnar. Á þessum tíma ársins hafði Múhameð það fyrir sið að draga sig út úr skarkala heimsins og leita hvíldar og íhugunar í helli fyrir utan Mekku. Þar stundaði hann bænir og föstu og gaf fátækum ölmusu. Hann hafði lengi haft áhyggjur af þeirri kreppu sem honum fannst arabískt samfélag vera komið í. Síðustu árin áður en hann fékk sína fyrstu vitrun hafði ættbálkur hans, Quaraysh - ættbálkurinn, komist vel í álnir og grætt mikið fé á verslun. Mekka var orðin að verslunarmiðstöð en þangað barst varningur og auðæfi hvaðanæva að. Ein af ástæðunum fyrir því var helgistaður sem arabar sóttu til af öllum Arabíuskaganum. Helgistaðurinn var ævaforn steinn sem féll af himnum ofan í grárri forneskju og mikil helgi hvíldi á. Allar leiðir lágu því til Mekku.
Á Arabíuskaganum og í Mekku var upplausnarástand í trúmálum um þessar mundir. Aröbum þótti gyðingdómur persneskra gyðinga og kristni kirkjunnar í Býsans mun glæsilegri og frambærilegri átrúnaður en þeirra eigin heiðindómur. Sumir trúðu því að æðsti Guð á meðal hinna fjölmörgu guða, er arabar þá tilbáðu, væri sá hinn sami og gyðingar og kristnir tilbæðu. Hét hann Allah, en Allah á arabísku þýðir Guð. Þeir skildu ekki af hverju hinn æðsti Guð hefði ekki sent þeim spámann eða ritningu eins og hann hafði gert bæði fyrir gyðinga og kristna. Gyðingar og kristnir menn, sem komu í einhverjum erindum til araba eða bjuggu á Arabíuskaganum, gerðu líka óspart grín að aröbum með þeim orðum að Guð hefði ekki haft áhuga á að senda þeim neina sáluhjálp því að þeir væru svo ómerkilegir. Ekki varð það til að efla sjálfstraust araba að út um allan Arabíuskagann lágu ættbálkarnir í gegndarlausum styrjöldum og smáskærum hver við annan þar sem blóðhefndin hélt morðum og mannvígum gangandi. Mörgum hugsandi arabanum þótti þess vegna sem arabar væru glötuð þjóð, útskúfuð frá hinum siðmenntaða heimi og yfirgefin af Guði sjálfum.
Allt þetta breyttist aðfaranótt hins 17. Ramadanmánaðar árið 610 e.Kr. þegar Múhameð vaknaði skyndilega, lamaður af óendanlega máttugri nærveru æðri máttar.
Bloggar | Breytt 11.10.2014 kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2014 | 20:22
Getur nær-dauða reynsla varpað ljósi á líf eftir dauðann?
Getur nær-dauða reynsla varpað ljósi á líf eftir dauðann?
Það eru til fjölmargar reynslusögur sem lúta að þessu. Sumir segja svo frá að þeir hafi farið á einhvern hátt út úr líkamanum og séð sjálfa sig að ofan, horft niður úr loftinu á skurðarborðið, þar sem læknar börðust við að endurlífga dáinn líkamann. Þeir hinir sömu lýsa þessu ferðalagi meðvitundarinnar utan líkamans sem hægfara svifi, eins og hitastreymi sem ber þá upp og lætur þá svífa utan og ofan þess sem er að gerast í kringum þá. En svo eru önnur sem vitna um allt öðruvísi ferðalag. Þau segja svo frá að þau hafi ferðast á miklum hraða gegnum einhverskonar göng, oft í átt að sterkum ljóskjarna, stundum í átt að fjölskyldu og vinum sem hafa látist fyrir löngu.
Sum þeirra sem upplifa sig svífandi yfir líkama sínum á skurðarborði geta stundum lýst í smáatriðum því hvað var um að vera í skurðstofunni. Hin, sem efast um að þessi reynsla hafi átt sér stað í raun og veru, benda gjarnan á að þarna hafi undirmeðvitund sjúklingsins líklegast verið að verki. Sjúklingurinn sé bara að endurspila gamlar minningar úr kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum eða fyrri reynslu sína af spítalavist. Það sé vísindalega sannað að meðvitundin geti ekki verið fyrir hendi utan líkamans. Þess vegna hljóti þessi reynsla að eiga sér eðlilega skýringu. Maðurinn sé aðeins tölva. Meðvitundi sé eins og tölvuforrit. Þegar rafmagn fer af tölvunni slokknar á forritinu.
Um allan heim eru samt til frásagnir karla og kvenna sem búa að þessari reynslu. Frásagnir þeirra hafa margar verið skráðar og rannsakaðar og gefnar út. Slíkar rannsóknir voru sérstaklega viðamiklar á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, þó nokkuð hafi dregið úr þeim síðan. Þá var líka mikill almennur áhugi á þessum málefnum, en fjarað hefur undan honum hin síðari árin. Svo nefnd sé ein þekkt rannsókn, þá gaf sálfræðingurinn Raymond Moody út rannsóknir sínar árið 1975 í bók sem hann nefndi Life after life, eða Lífið eftir lífið, en hún varð metsölubók og var meðal annars þýdd á íslensku. Þar ræddi Moody við fjölda sjúklinga og skráði sögu þeirra og reynslu.Allir höfðu sjúklingarnir upplifað eftirfarandi að sögn Moody:
Hér á Íslandi var lögð nokkur stund á rannsóknir í þessum fræðum á liðinni öld. Þar fór fremstur í flokki dr.Erlendur Haraldsson, fyrrum prófessor við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Hann ritaði bókina At the Hour of Death ásamt Karlis Osis, en hún kom út kom árið 1977. Hún var gefin út hér á landi 1979 undir heitinu Sýnir á dánarbeði. Karlis Osis var forstöðumaður rannsóknardeildar American Society for Psychical Research.
Þeir Erlendur og Osis nálguðust þessar frásagnir á annan hátt en Moody. Moddy sagði sögu þeirra sem höfðu dáið en síðan verið endurlífgaðir. Erlendur og Osis fjölluðu um sýnir fólks rétt fyrir andlátið. Erlendur hélt þessum rannsóknum áfram og gaf meðal annars út árið 1978 bókina Þessa heims og annars könnun á dulrænni reynslu Íslendinga, trúarviðhorfum og þjóðtrú, og Látnir í heimi lifenda, niðurstöður rannsóknar um reynslu Íslendinga af látnu fólki, árið 2005.
Ekki má gleyma að nefna rannsóknir hjartalæknisins Michael Sabom sem hann gaf út árið 1982 í bók sinni Recollections of death: A medical Investigation. Hann hafði lesið bók Moodys og fannst hún ekki nægilega vísindalega fram sett. Það merkilegasta við bók Saboms er að mínum dómi viðbætir aftan við megintexta. Í viðbætinn skráði hann frásagnir tuttugu og átta sjúklinga sem höfðu látist og snúið aftur og lýstu upplifun sinni af annarri vídd, tilvist handan þessa skynheims okkar. Um þá vídd og gerð hennar voru þeir ótrúlega sammála.
Tvennt einkenndi allar frásagnir þeirra. Annað mætti kalla veðurfarslýsing. Hitt var lýsing á sveit eða sveitalegu umhverfi. Annar helmingur þessara 28 sjúklinga taldi sig hafa séð umhverfi sem var ekkert nema himinn. Himininn í þessari handanveröld líktist hinum jarðneska himni. Hann var blár, sólin skein en líka sást í stöku ský. Jafnvel þoka var á sveima einhverstaðar í nánd. Tveir sjúklingar sem höfðu sérstakan áhuga á veðurlýsingum töluðu um bláan himinn með stöku skýi í nánd.Hinn helmingur þeirra sem lýstu reynslu sinni af þessari handanveröld sögðu frá görðum, grænu túni eða engjum þar sem sást í einhverskonar hlið. Þessar himnesku lendur voru að mestu leiti óbyggðar. Það sást ekki í nein hús, dýr eða persónur. Aðeins endalaus tún og engi og garðlendi. Nokkrir sögðust þó hafa skynjað búfénað á beit, og einhverjir höfðu tekið eftir fólki af öllum þjóðernum við einhverja iðju.
Hvað þýðir þetta?
Það er hægt að túlka þessar sýnir með ýmsu móti. Sjúklingarnir gætu verið að upplifa eitthvað alveg einstakt, eitthvað sem þeim þyrkir stórkostlegt, en er þeim um leið algerlega framandi. Þeir túlka þessa reynslu sína samkvæmt eigin hugmyndum um himnaríki eða lífið eftir dauðann. Þannig túlka sjúklingarnir líka reynsluna af því að snúa aftur til heimsins út frá fyrri reynslu sinni og skoðunum. Þeir tala um að þeim sé á einhvern hátt kippt niður í gegnum göngin sem áður voru nefnd.Vörubílstjóri lýsti þessum göngum til dæmis eins og pípulögn eða röraræsi á vegi. Þess vegna má draga þá ályktun að þessi tilvist sé ekki svona eins og hér að ofan sé lýst. Þetta sé aðeins mannleg túlkun á því sem orð ná ekki yfir.
En svo gæti líka verið að að hinn látni, sjúklingurinn sem dó og var vakinn aftur til lífsins, hafi raunverulega séð inn í tilvistina sem býður eftir dauðann. Hann væri þá að lýsa raunverulegri reynslu. Og þessi tilvist væri þá raunverulega eins og hann lýsir henni - himinn, sól, ský, engi, tún, fegurð, dýr, fólk í fjarska, hlið. Þessa reynslu er auðvitað ekki hægt að sanna. Því þessa tilvist er ekki hægt að rannsaka vísindalega. Hún er algerlega utan okkar reynslusviðs ef hún er til myndi einhver bæta við.Ef við gefum okkur að reynsla þessara sjúklinga sé sönn og frásagnir þeirra sömuleiðis, þá er þessi tilvist sem þeir segja frá utan okkar heims, á öðru sviði.
Þetta er tilvistarsvið sem við getum ekki nálgast fyrr en við deyjum.
Og það er eitthvað algerlega annað en okkar heimur.Ef til vill er það einmitt sú staðreynd, að meðvitund þeirra sem ganga í gegnum nær-dauða-reynslu, losnar undan undan áreitum þessa heims okkar eitt augnarblik, sem veldur því að þeir geta litið handan núverandi tilvistar og inn í þá næstu. Stillt sig inn á bylgjulengd sem vanalega er utan okkar færis að stilla okkur inn á. Truflanir lífsins eru svo miklar. Þetta er ef til vill sama bylgjulengd og dulspekingar alla trúarbragða reyna að stilla sig inn á. Þetta er bylgjulengd kristinna mystikera, múslímskra súfista og jógameistara búddista og hindúa. En meira að segja þeirra skynjun verður aldrei eins skýr og hinna sem deyja og snúa aftur til lífsins í þessum heimi.
Ekki hafa allir jákvæðu sögu að segja af þessari reynslu af tilvistinni handan dauðans. Það verður að nefnast eins og satt er. Í einni rannsókn þar sem 700 einstaklingar sögðu frá reynslu sinni af handanvíddinni, lýstu 105 henni henni sem óþægilegri. Það voru þó engir púkar eða brennandi eldar sem biðu handan ganganna óþægindin virtust fremur stafa af því hvernig sjúklingarnir sjálfir litu á það sem var að gerast hvernig þeir mátu það sem þeir sáu. Þeir sáu sömu aðstæður og hinir sem höfðu jákvæða upplifun. En þessar aðstæður virkuðu ógnandi á þá af einhverjum ástæðum.Að lokum má ekki gleyma því að nær-dauða-reynsla er aðeins innlit í aðra tilvist einskonar sýnishorn af dauðanum. Við getum ekki með vissu vitað hvert framhaldið er sýnin endar þegar viðkomandi snýr aftur til jarðlífsins. Það er eins og ef við myndum millilenda á flugvellinum í París á leiðinni til Ítaliu. Þá gætum við ekki komið heim úr ferðalaginu og sagst hafa ferðast um Frakkland. En við gætum alla vega staðfest það fyrir vinum okkar að Frakkland væri til í raunveruleikanum þó svo að við hefðum aðeins séð það út um gluggann á flugvélinni stutta stund.
Og svo er það spurningin: Er þetta raunverulegur dauði sem hér hefur verið lýst ef hægt er að endurlífga hinn látna? Er hann þá látinn? Hvað er dauði - eins og einn vinur minn, læknir og áhugamaður um dulsálarfræði spurði mig að? Eru þessar myndir og lýsingar sem hér hafa verið gerðar að umfjöllunarefni, ef til vill aðeins síðasta skynjun veru sem síðan slokknar algerlega á, eins og efasemdarmenn halda án efa fram? Tölvunnar sem kulnar? Svarið fáum við ef til vill aldrei í þessum heimi.
Ég læt Erlend Haraldsson og Karlis Osis hafa lokaorðið, sem er fengið úr bók þeirra Sýnir á dánarbeði:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Þórhallur Heimisson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar