Bankinn í neðsta Víti

 

Ég hef um margra ára skeið haldið úti námskeiðum um trúarbragðasögu og klassísk forn fræði. Á liðnu vori var meðal annars saman kominn góður hópur fólks sem ég leiddi í gegnum Divina Comedia, Hinn guðdómlega gamanleik, eftir Dante.

Eins og flestir ef til vill vita fjallar Hinn guðdómlegi gamanleikur Dantes um ferð hans í gegnum helvíti, hreinsunareldinn og himnaríki og til Guðs. Eins og gefur að skilja ber margt fyrir augu og sumar lýsingarnar all svaðalegar. Ferð Dante í Hinum guðdómlega gamanleik hefst á skírdagskvöld árið 1300 og lýkur miðvikudag eftir páska. Hann ferðast gegnum 9 hringa vítis, 9 hringa hreinsunareldsins og loks 9 himna himnaríkis. Leiðsögumennirnir eru tveir, hið forna rómverska skáld Virgill leiðir hann gegnum helvíti og hreinsunareldinn, en kona að nafni Beatrice, tákn hinnar fullkomnu konu, er fararstjóri í himnaríki.

Hvað um það.

Á námskeiðinu fylgdi ég slóð Dantes og hófst ferðin, eins og för hans, í forgörðum Vítis. Ég lýsti aðstæðum í frásögninni, sem verða æ hrikalegri er neðar dregur. Þegar komið var í neðsta Víti í frásögninni, á hinn versta stað, spurði ég eins og góður kennari nemendur mína: „Og hvað haldið þið nú að sé að finna á botni Helvítis“? Þá rétti eldri maður upp hönd og svaraði rólega: „Það hlýtur að vera banki”. Allur salurinn hló, en enginn mótmælti, og í raun fannst mönnum þetta vera næsta sjálfsagt.

Í kjölfarið hófst mikið spjall um bankana. Margir vitnuðu um meðferð bankana á venjulegu fólki á undanförnum árum. Ýmsir kunnu sögur af því hvernig bankarnir höfðu snúið við þeim bakinu í erfiðum aðstæðum í kjölfar hrunsins, svikið þá og platað, haft af þeim eða ástvinum þeirra aleiguna og ekki sýnt neina miskunn eða skilning en látið hagsmuni bankans ganga fyrir öllu.

Á þessu hefði ekki orðið nein breyting þó nú væri uppsveifla í landinu. Vitnuðu menn sem sagt um hvernig bankarnir höfðu brugðist fólk sem treysti þeim fyrir aleigu sinni.

Hvernig þeir hefðu breytt lífi margra fjölskyldna í víti. Og héldu áfram að ofsækja sömu fjölskyldurnar nú 10 árum eftir hrunið - sem þeir kölluðu yfir þjóðina og þær sömu fjölskyldur og þeir hafa eyðilagt.

En sömuleiðis voru menn á einu máli um dugleysi stjórnvalda sem gerðu ekkert til að rétta hag þeirra sem bankarnir hafa knésett.

Það væri því vel við hæfi að hafa banka þarna á botninum enda yfirskrift Vítis: „Gjörið yður engar vonir“.

En hvern er að finna þarna á botni Vítis samkvæmt honum Dante?

Þar er Lúsífer sjálfur, djöfullinn, sem situr hálfur í frosti með mestu svikara sögunnar sinn í hvoru munnvikinu, Júdas öðrumegin er sveik Jesú, og Brútus hinumegin, er stakk stjúpföður sinn Júlíus Sesar niður, þegar Júlíus leitaði skjóls hjá honum undan morðingjum sínum.

Annað heiti á Lúsífer er Mammon. Sem einnig er samheiti fyrir peningavaldið sem eyrir engum.

Öll nöfnin þýða það sama, sá eða það afl sem sundrar með illindum og svikum. 

Um Mammon segir Jesús í Matteusarguðspjalli, í Fjallræðunni:

"Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvor hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn.

Þér getið ekki þjónað Guði og Mammon".

Enda rak hann bankamennina úr musterinu

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þórhallur Heimisson

Höfundur

Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson

Höfundur er sóknarprestur í Breiðholtskirkju og hefur stundað hjóna og fjölskylduráðgjöf um árabil. Hann hefur einnig stundað framhaldsnám í trúarbragðafræði 

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ISIS
  • image
  • image
  • Breiðholtskirkja vetur
  • 12308174 10206547354895816 7660961963820362976 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband