Íslam - áttundi hluti; Kóraninn

Kóraninn.

         Múhameð var að því er heimildir múslímar segja, mikilhæfur pólitískur og hernaðarlegur leiðtogi, snjall og óhræddur að taka afdrifaríkar ákvarðanir. Auk þessa var hann elskulegur fjölskyldumaður og naut þess að spjalla við konur sínar og börn. Í augum múslíma er hann hin hreina fyrirmynd, og þó þeir telji það synd að tilbiðja hann sem Guð, fylgja þeir boðum hans nánar og oft betur en margir kristnir menn fylgja Jesú Kristi, sem þeir þó kalla Guðs son.

         Múhameð virðist hafa orðið fyrir djúpri trúarlegri reynslu eins og kom fram hér í fyrri pistlum. Sú reynsla entist honum æfina út og varð hvatinn að boðskap hans og starfi. Áður hafði hann reyndar í auknum mæli snúið sér að trúarlegum vangaveltum og burt frá hinu veraldlega. Hann velti mikið fyrir sér dómsdegi sem hann taldi að stæði fyrir dyrum, þegar Guð myndi dæma alla menn. Í framhaldi af því komst hann að þeirri niðurstöðu að aðeins einn Guð væri til og hann, Múhameð, væri sendur sem spámaður þessa Guðs til þess að boða mönnum sannleikann og frelsa þá frá glötun dómsins. Var hann undir áhrifum frá söfnuðum gyðinga bæði í Mekku og Medínu, en einnig kristnum söfnuðum er í sí-auknum mæli höfðu leitað suður á Arabíuskagann. Þar voru á ferðinni kristnir sértrúarsöfnuðir á flótta undan ægivaldi býsantísku- orþodoxu- ríkiskirkjunnar í aust rómverska ríkinu, en frá henni var sagt á í síðasta þætti.

         En það voru vitranirnar sem í raun urðu til þess að móta hugmyndir Múhameðs. Fyrsta vitrunin var sú áhrifamesta. Hann var að íhuga  úti í eyðimörkina er hann sá mikla veru birtast sér á himninum, veru er hann í fyrstu hélt að væri Guð. Síðar uppgötvaði hann að þar væri útsendari Guðs á ferð, erkiengillinn Gabríl, en ekki Guð sjálfur. Engillinn lét hann lesa af bók, þó að Múhameð væri í raun ólæs. Samkvæmt kafla 96 í Kóraninum, sem er talinn greina frá fyrstu vitrun Múhameðs, sagði engillinn: "Lestu í nafni Drottins þíns, sem skapaði". Síðar, eftir að  engilinn hætti að birtast honum , fann spámaðurinn á sér hvaða hugsanir eða orð Guð talaði til hans. Tengdust þá vitranirnar gjarnan hagnýtum málum samfélagsins sem þurfti að finna lausn á. Öllum þessum orðum er hann bæði sá, heyrði og skynjaði, söfnuðu fylgendur Múhameðs saman í Kóraninum, sem er  bókmenntalegt listaverk, ritað á klassískri arabísku. Má segja að Kóraninn hafi orðið undirstaðan að rit og bókmáli araba. Hann geymir trúarreynslu spámannsins samkvæmt kenningu íslam. Hvað sem annars má um Kóraninn segja er hann frábrugðin Biblíunni að því leiti að honum er safnað saman á meðan Múhameð lifði og hann er því heilsteyptur og veldur ekki sömu ritskýringarlegu vandamálunum og Nýja Testamentið og hebreska Biblían sem urðu til á löngum tíma og voru gerðar af ótölulegum fjölda höfunda. Þó átti eftir að raða ritsafninu saman í heilsteypt verk er spámaðurinn lést. Erfitt var að raða orðum hans og sýnum saman í rétta tímaröð og því varð það úr að raða þeim í kaflaröð eftir lengd. Þess vegna eru lengstu kaflarnir fremst í Kóraninum og síðan styttast þeir er aftar dregur. Sjálft orðið "kóran" þýðir upplestur og vildi Múhameð  með því undirstrika að hann læsi bókina beint úr hendi Gabríels engils. Hluti Kóransins er reyndar kominn úr kristnum og gyðinglegum ritum þó textarnir séu oft mikið breyttir, og eitthvað er líka sótt til hins gamla átrúnaðar Arabíuskagans. Dómsdagsræður spámannsins sem koma aftur og aftur fyrir í textanum bera kristnum áhrifum vitni, sérstaklega er þar margt líkt því sem lesa má í Opinberunarbók Jóhannesar. En í raun var þekking spámannsins á kristinni trú næsta yfirborðsleg. Hann þekkti betur til kenninga og hefða gyðinga. Þó virðist hann  hafa fengið ýmsar rangar upplýsingar um innihald trúar kristinna manna og gyðinga, enda kunni hann hvorki grísku, hebresku né arameísku, þau tungumál sem bækur gyðinga og kristinna voru ritaðar á. Margt af því er Múhameð segir um kristinn og gyðinglegan átrúnað, er því rangt eða misskilningur vilja ýmsir kristnir menn og gyðingar halda fram.

Því eru múslímar að sjálfsögðu ekki sammála.

         Fyrir múslímum hefur Kóraninn í raun svipaða stöðu og Jesús hjá hinum kristnu þó mörgum kunni að þykja það undarlegt að bera þannig saman mann og bók.  Kóraninn er samkvæmt íslam, opinberun Guðs á jörðinni, hann er guðdómlegur, guðdómleg hugsun og lögmál Guðs sem birtist mönnum í rituðu orði. Það gefur því að skilja að hann er óskeikull og allt sem hann segir er guðdómlegt. Hann er þannig hafinn yfir alla gagnrýni og alla bókmenntalega greiningu eins og þá er tíðkast á Biblíunni. Þó eru að sjálfsögðu til margar túlkunarhefðir eins og við munum komast betur að síðar. Múhameð birti þetta guðdómlega orð Guðs, sá síðasti í óslitinni röð spámanna allt frá Abraham, Móse og Jesú segja múslímar. Vissulega hafði Guð talað til mannkyns í gegnum ofangreinda spámenn, en aðeins á takmarkaðan hátt. En Múhameð sagðist vera hinsti spámaðurinn og að Kóraninn væri hin fullkomna opinberun hins fullkomna vilja Guðs. Ekkert myndi heldur framar bætast við. Engir fleiri spámenn myndu koma í heiminn. Múhameð var því innsigli spámannanna, ".i.khatm al-anbiya;". Þannig vildi Múhameð sýna að boðskapur hans ætti sér í raun fornar rætur og stæði á grunni spámannlegrar hefðar eingyðistrúarinnar.

Alla vega kemur í ljós, ef Kóraninn er borinn saman við Biblíuna, að þar eru ýmsar sömu sögur sagðar á mjög ólíkan máta. T.d. saga  Nóa, Abrahams og ættferðanna, Móse, Davíðs og Salómons, Maríu móður Jesúr og Jesú og þannig mætti lengi telja. En Múhameð svaraði gagnrýninni á þann hátt að hans kenning væri fullkomnun alls þess er á undan hafði komið. Það væri ekki hann sem hefði misskilið hlutina. Biblía gyðinga og kristinna væri því í raun byggð á misskilningi en ekki Kóraninn.

En hvað sem því líður þá  virða múslímar mjög kristna menn og gyðinga, þó þeir um leið haldi því fram að hinir sömu hafi snúið út úr kenningu Guðs. Kristnir menn og gyðingar eru "fólk bókarinnar".

Á móti hafa kristnir og gyðingar bent á að þeirra bækur sem Biblían geymir séu mun eldri Kóraninum, og því upprunalegri heimild sem Kóraninn sé unninn úr.

Og þannig hafa menn deilt um langan aldur.

Enn hinn almenni múslím hefur nú ekki miklar áhyggjur af þessum guðfræðilegu hártogunum. Hann veit sem er að Kóraninn hefur algert vald yfir múslímum og því er öll gagnrýni á hann runninn undan rifjum hins illa. Hann er ekki einu sinni sannur nema á frummálinu, arabísku. Hægt er að nota þýðingar til að öðlast grunnskilning á trúnni, en frummálið eitt er rétt, því þannig og aðeins þannig opinberaðist Kóraninn Múhameð.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þórhallur Heimisson

Höfundur

Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson

Höfundur er sóknarprestur í Breiðholtskirkju og hefur stundað hjóna og fjölskylduráðgjöf um árabil. Hann hefur einnig stundað framhaldsnám í trúarbragðafræði 

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ISIS
  • image
  • image
  • Breiðholtskirkja vetur
  • 12308174 10206547354895816 7660961963820362976 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 8842

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband