Jólahús frá 1906 í hjarta Hafnarfjarðar

12308174_10206547354895816_7660961963820362976_o

Það gerist nú ekki jólalegra í hjarta Hafnarfjarðar, við Lækinn, í einu elsta húsi bæjarins.


Kristin trú og umhverfismálin

Eins og fréttirnar frá loftslagsráðstefnunni í París sýna okkur, þá eru umhverfismálin mál málanna í dag.

Okkur berast líka stöðugt fréttir af þeirri ógn sem vofir yfir umhverfi okkar og lífríkinu öllu. Inngrip okkar mannanna í náttúruna verður sífellt meira og afdrifaríkara. Á öldum áður var barátta mannsins við umhverfið jöfn og upp á líf og dauða eins og við oft fengum að reyna hér á landi. En í kjölfar iðnbyltingarinnar hefur dæmið snúist við. Nú er það náttúran sem á undir högg að sækja. Stöðug fjölgun jarðarbúa helst í hendur við sí-aukna sókn í auðlindir jarðarinnar. Það þarf að fæða og klæða og hýsa fleiri og fleiri mannanna börn hverja stund sem líður. Til þess þarf að höggva meiri skóga, brjóta meira land til ræktunar, veiða meira í höfunum, og auka notkun eldsneytis í öllum sínum myndum.

Það er þó ekki þar með sagt að neyslan og skipting auðæfa jarðarinnar sé réttlát og jöfn. Það vitum við líka af fréttum. Við hér á Vesturlöndum eyðum meiru en aðrir íbúar jarðarinnar samanlagt af olíu og öðrum afurðum. Við búum líka yfir meiri tækni en aðrir til að virkja afl jarðar. En því miður virðumst við ekki kunna okkur hóf. Bílum fjölgar, loftmengun eykst og nú vofa yfir loftslagsbreytingar af mannavöldum sem munu umhverfa lífríkinu í öllum sínum myndum. Vísindamenn spá hækkandi hitastigi jarðar, auknum öfgum í veðurfari, þurrki þar sem áður rigndi, kulda þar sem áður var hiti og þannig mætti lengi telja.

Aðgangsharkan gagnvart jörðinni og umhverfi okkar mun smátt og smátt breyta lifnaðarháttum okkur. Talað er um að styrjaldir 21. aldarinnar muni fyrst og fremst verða háðar um orkulindir og vatn sem verður dýrmætara með hverjum deginum sem líður. Og mengun er ekki aðeins eitthvað sem á sér stað í útlöndum eins og gjarnan var viðkvæðið hér á landi áður fyrr.

Misskipting auðæfa heimsins er heldur ekki einskorðuð við útlönd. Hér á landi berast fréttir af ótrúlegum tekjum auðmanna, á meðan aðrir eiga ekki til hnífs og skeiðar.

Það takast á ólík sjónarmið í þessari umræðu. Bent er á nauðsyn atvinnutækifæra í heimi þar sem fólksfjöldi fer vaxandi, heimurinn krefst aukinnar framleiðslu, neyslan eykst dag frá degi og þannig mætti lengi telja. Hinn ríkari hluti heimsins vill fleiri bíla, meiri olíu, meiri munaðarvöru. Uppbygging krefst fórna eins og til dæmis skógarhöggið í Amason sem ógnar lungum jarðarinnar eins og skógarnir eru kallaðir, því þeir framleiða súrefnið sem við öndum að okkur og getum ekki lifað án. En stjórnvöld í Brasilíu segja skógarhöggið nauðsynlegt ef framleiðslan eigi að halda áfram að aukast þar í landi.

Kirkjan og allt kristið fólk er kallað til að láta sig umhverfismál varða, kallað til að bera ábyrgð á þeirri sköpun Guðs sem okkur er falin og vernda hana eftir mætti. Því lífríkið allt er sköpun Guðs, helgað af Guði og dýrmætt í augum hans. Okkur mönnunum er fengið lífríkið að láni á meðan við lifum hér á jörðu, við eigum að skila því af okkur heilu og í blóma fyrir nýjar kynslóðir.

Guð vakir yfir öllu lífi, allri tilverunni og lætur sér það varða hverja stund. Í fyrstu Mósebók er þessu lýst á svo ljóðrænan og skáldlegan hátt með þeim orðum að Guð hafi aðgreint ljósið og myrkrið þegar hann skapaði heiminn í upphafi. Hebreska orðið sem notað er til að túlka þessa sköpunarathöfn Guðs skilar sér reyndar ekki vel í íslenskru þýðingunni. Það þýðir í raun að Guð hafi gengið inn í myrkrið sem stöðugt ógnar heiminum og aðgreint það með krafti sínum frá ljósinu. Allar stundir og að eilífu heldur Guð síðan frummyrkrinu frá sköpuninni, frummyrkrinu og hinni endanlegu eyðingarógn. En ógnin er alltaf fyrir hendi. Myrkrið sækir að sköpuninni og reynir sífellt að þrengja sér framhjá máttugum armlegg Drottins. Ef Drottin drægi vernd sína frá heiminum myndi myrkrið gleypa ljósið og lífið. Það vofir því stöðug ógn yfir heiminum. Allt það sem berst gegn lífinu í sínum margbreytileika og leggst á sveif með myrkrinu og eyðingaröflunum.

Og við mennirnir, okkur er falið hlutverk í þessari miklu kosmisku baráttu ljóss og myrkurs, sköpunar og eyðingar, Guðs og hins illa.

 

Þetta er metafysískur dúalismi sem nær að rótum tilverunnar að mínu mati- fyrir þau sem áhuga hafa á heimspekilegum pælingum.

 

Við erum samverkamenn Guðs í heiminum. Hann hefur kallað okkur til að starfa með sér, til að heyja hina góðu baráttu fyrir ljósinu og lífinu. Ábyrgð okkar er því mikil og alger í raun og veru. Hver einasti maður er ábyrgur. Enginn fær skorast undan þessu hlutverki sínu. Því sönn mennska, það er að axla ábyrgð sína og taka á með sköpunarmætti Guðs. Að axla þannig ábyrgð þýðir ekki að við eigum að hverfa aftur upp í trén. Sem samverkamenn Guðs er okkur vissulega falið að nýta auðlyndir jarðarinnar okkur sjálfum og mannkyni öllu til góða. En okkur ber að gera það undir merkjun ljóssins, með fullri ábyrgð og af virðingu fyrir þeirri sköpun sem Guð helgar og viðheldur hverja stund – vitandi að sköpunin er ekki okkar eign heldur Guðs. Það getum við gert í stóru sem smáu, hvert og eitt. Með því til dæmis að hugsa um neyslu okkar, kunna okkur hóf, flokka sorp, endurvinna dagblöð og fleira í þeim dúr. Það getum við líka gert sem þjóðfélag. Og hin þjóðfélagslega ábyrgð felst ekki síst í því að finna samhljóm milli þess hvernig við nýtum auðlindir jarðarinnar og verndum þær um leið og við skilum þeim til komandi kynslóða.

En það er kannski stærsta áskorun mannkyns á 21. öldinni, þetta að finna samhljóminn milli nýtingar og verndar og virðingar gagnvart náttúrinni.

Annað er sameiginlegt fjöldasjálfsmorð, eins og Fransiskus páfi bendir hér á.

 


mbl.is Segir stöðuna „jaðra við sjálfsvíg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira bullið þetta Gamla testamenti......eða hvað?

100_2353

Ég var að horfa á þáttinn Vikan með Gísla Marteini á Rúv síðastliðinn föstudag, sem ekki er í frásögur færandi. Ágætur þáttur og oft áhugaverður.

Nema hvað, í þessum þætti var gerð hörð hríð að Gamla testamenti Biblíunnar, sem viðmælendur Gísla fundu allt til foráttu. Þar væri ekkert að finna nema morð og stríð og reiðan Guð. Best væri að hafa sem minnst með þetta rit að gera.

Um þetta voru allir á sama máli og hlegið dátt að vitleysunni í þessu forna riti.

Það er reyndar furðu oft sem þannig er talað um Gamla testamentið. Og ekki skrítið, því það var meira að segja lengi vel tíska innan kirkjunnar að lesa helst ekkert úr því í messum – og hafa sem minnst með það að gera.

Sjálfur er ég reyndar mjög hrifinn af GT eða Gamla testamentinu, og langar því til að bera fram örlitla vörn því til handa.

Það er mikilvægt að muna bæði Gamla og Nýja testamentið eru hluti af Biblíu kristinna manna.

Biblían er reyndar sérstök og einstök bók. Í raun er hún ekki ein bók heldur safn bóka, enda þýðir orðið Biblía margar bækur og frá henni er komið útlenda orðið Biblíótek eða bókasafn. Biblían er safn bóka er varð til á löngum tíma og stendur því á gömlum merg. Elstu bækur Biblíunnar, ritaðar á hebresku, geyma sögur og munnmæli frá því um árið 1300 fyrir Krist og var þeim safnað í Gamla testamentið ásamt yngri spádómsritum Ísraelsmanna. Þessi söfnun fór fram um það leyti sem Jesús fæddist

Elstu hlutar Biblíunnar eru því þrjú þúsund ára gamlir eða meir. Yngstu ritin eru frá því fáum áratugum eftir krossfestingu Krists og upprisu. Allar götur síðan hefur Biblían verið ein af stoðum menningarinnar í veröldinni. Hvort sem menn nú trúa því sem í Biblíunni stendur eða ekki. Myndlist og tónlist, skáldskapur og byggingarlist, kvikmyndir og leiklist sækja að nokkru leyti í brunn Heilagrar ritningar. Siðferði og samfélagssnið eiga sama uppruna, að ógleymdum trúarhugmyndum manna og tilverugrundvelli hvarvetna þar sem kristnin hefur skotið rótum í aldanna rás.

Sá sem vill vera læs á fortíð sína og samtíð, umhverfi og rætur, ætti að gera sér far um að lesa Biblíuna og brjóta hana til mergjar eftir því sem hann hefur tök á..

Ekki má heldur gleyma áhrifum allrar Biblíunnar á tungumálið, til dæmis öllum þeim málsháttum og orðtökum sem komin eru til okkar þaðan, þó við höfum gleymt uppruna þeirra.

Gamla testamentið greinir frá sögu og reynslu Ísraelsþjóðarinnar fyrir fæðingu Jesú. Úr hebresku Biblíunni eins og gyðingar kalla þetta rit, er lesið í samkunduhúsum gyðinga. Tengir það okkur saman, kristna og gyðinga, og er sameiginlegur arfur okkar. Þegar við kristnir menn lesum Gamla testamentið, þá lesum við það í ljósi Jesú og leggjum höfuðáherslu á þær bækur þess sem hann lagði áherslu á. Má þar sem dæmi nefna Davíðssálma og spádómsbók Jesaja.

Svona lítur Gamla testamentið út í stuttu máli:

Mósebækurnar eru fimm og kallast Torah. Pentateuk er hið latneska heiti á Mósebókunum en það þýðir Bækurnar fimm, eða Fimmbókarritið á íslensku. Torah þýðir í raun og veru lögin og í Mósebókunum fimm er falið lögmál gyðinga. Stundum er Torah notað sem hugtak fyrir alla Hebresku biblíuna.

Mósebækurnar hafa allar sitt heiti þó svo að lítið sé um það vitað hér á landi. En við könnumst við nöfnin um leið og við heyrum þau, alla vega fyrstu tvö sem eru fræg í poppsögunni.

Fyrsta Mósebók nefnist Genesis á latínu – sem merkir upphafið. Þar er að finna sköpunarsöguna, sögurnar um Paradís og syndafallið, Adam og Evu, Kain og Abel, Nóa og syndaflóðið, Abraham, Söru, Ísak, Hagar, Ísmael og þá Jakob og Jósef og bræður hans. Þar er líka sagt frá borgunum Sódómu og Gómorru.

Önnur Mósebók nefnist Exodus á latínu – sem merkir brottförin. Þar segir frá Móse og ferð Ísraelsmanna yfir Rauða hafið, sáttmálanum og hvernig Móses fékk töflurnar með boðorðunum tíu. Þar er líka sagt frá dansinum kringum Gullkálfinn, Mírjam systur Móse, Manna sem féll frá himnum og mörgu öðru.

Þriðja Mósebók nefnist Leviticus á latínu – sem merkir eiginlega það sem tengist prestunum. Hér er að finna hreinsunarlögin svokölluðu, yfirlit yfir hvað telst hreint og hvað óhreint og aðrar reglur og margvísleg lög sem tengjast helgihaldinu í musterinu í Jerúsalem til forna. Hér er til dæmis forskrift að því hvaða matur er hreinn sem er undirstaðan undir kosher mat gyðinga í dag – sem er sú fæða sem sanntrúaðir mega eta.

Fjórða Mósebók nefnist Numeri á latínu – sem merkir tölur eða fjöldi. Hér segir frá göngu Ísraelsþjóðarinnar í gegnum Sínaíeyðimörkina og ættbálkunum 12.

Fimmta Mósebók nefnis Deuteronomium á latínu – sem merkir einfaldlega fimmta bókin. Þar er einnig að finna boðorðin tíu og önnur lög og reglur. Fimmtu Mósebók lýkur með dauða Móse.

Eftir Mósebækur taka við rit sem einu nafni kallast Sögulegu bækurnar. Þær lýsa sögu, lífi og tilveru hinna fornu Ísraelsmanna, konuga, dómara og spámanna. Ein og ein kona ratar þarna með og fleiri en flesta grunar. Í þessum flokki er að finna Jósúabók, Dómarabókina, Konungabækurnar og Kronikubækurnar svo dæmi sé tekið. Job, Davíðssálmar, Orðskviðirnir, Predikarinn og Ljóðaljóðin teljast til Ljóðrænna bókmennta. Þar er að finna nokkra af mestu fjársjóðum tungunnar, finnst mér alla vega. Meðal Spámannaritanna eru spádómsbækur eins og Jesaja, Jeremía, Amos og Malakí. Spámennirnir hafa áhyggjur af því hvernig lýðurinn víkur af braut trúarinnar - og konungarnir og þeirra ”hyski” með. Þeir, spámennirnir, vara við afleiðingunum, hóta, hræða og hugga. En oft með litlum árangri. Eftir Spámannaritin tekur Gamla testamentið venjulega enda.

En í nýju Biblíuþýðingunni íslensku frá árinu 2007 getur að lesa 11 bækur sem bætast aftan við bækur Gamla testamentisins. Þessar bækur kallast Apókrýfu ritin. Það merkir leyndu, geymdu, duldu ritin.

Í Biblíunni fáum við að heyra um það hvernig Guð hefur talað til manna, sem aftur miðla upplifun sinni til okkar. Og þeir segja okkur líka frá því hvernig Guð hefur gripið inn í söguna. Þannig eru rit Biblíunnar verk manna, skrifuð af mönnum og þess vegna er nauðsynlegt að rannsaka þau sem slík, hvernig þau urðu til og hvers vegna, hvert samhengi þeirra er og svo framvegis. Og það þarf líka að rannsaka heimildagildi þeirra með aðferðum vísindanna eins og gert er á fræðastofnunum víða um heim. Öll rit Biblíunnar lesum við kristnir menn fyrst og fremst í ljósi Jesú Krists. Þess vegna köllum við hebresku Biblíuna Gamla testamentið, því hún segir frá hinum gamla sáttmála Guðs við mennina. Jesús er aftur á móti hinn nýi sáttmáli, hið Nýja Testamennti. Við túlkum lögmál Gamla testamentisins út frá orðum Jesú og við njótum Davíðssálmanna í ljósi hans. Þegar við t.d. lesum sálminn “Drottinn er minn hirðir” sem saminn var löngu fyrir fæðingu Jesú, hugsum við þá ekki alltaf um hirðinn Jesú? Og þannig mætti lengi telja. Því allan boðskap Biblíunnar má draga saman í boðskap Jesú. Í orðum hans lífi hans og dauða, kom Orð Guðs til okkar. Postularnir predikuðu fagnaðarerindið um Jesú og vitnuðu í spádóma Gamla testamentisins til að útskýra um hvað þeir voru að tala. Í þeirra huga snerist öll Biblían um Jesú einan. Og enn í dag túlkum við kristnir menn orð ritningarinnar í ljósi hans. Þess vegna hefur boðskapur hennar haft eins mikil áhrif og raun ber vitni. Umhyggja okkar fyrir þeim sem minna mega sín er rakin til orða Jesú, Gullnu reglunnar og Tvöfalda kærleiksboðorðsins svo tvö dæmi séu nefnd.

Oft á tímum hefur orð GT orðið til þess að velta um koll óréttlátu þjóðfélagskerfi og gefa mönnum kjark til að sækja fram til frelsis og réttlætis. Biblían og GT líka er nefnilega byltingarrit öðru fremur.

Þess vegna hefur hún löngum verið bönnuð þar sem harðstjórn ríkir. Því kúgararnir vilja vinna verk sín í myrkrinu þar sem enginn sér til, en orð Biblíunnar lýsir upp myrkrið og opinberar verk myrkursins. Biblían hefur líka haft úrslitaáhrif á varðveislu tungu okkar og menningar. Íslendingar hafa verið handgengnir henni frá því á miðöldum. Kapítular og erindi úr því mikla ritsafni sem Biblían er voru þýdd á íslensku fyrir einum átta hundruð árum eða meir. Allar götur síðan hefur Orð Guðs átt þátt í að móta tungu landsmanna. Á sextándu öld voru Nýja testamentið og síðan Ritningin öll gefin út á íslensku. Það voru siðbótarmennirnir svokölluðu sem það verk unnu. Eða siðbreytingarmennirnir, allt eftir því hvaða augum maður lítur verkin þeirra. Með þessu móti áttu siðbótarmenn meiri þátt í því en nokkrir aðrir að þróa tungu okkar á síðari öldum. Það sést best á frændum okkar Norðmönnum sem áttu Biblíuna ekki á eigin tungu – og hafa glatað tugumáli sínu.

Biblían er samansett úr 66 bókum. 39 þeirra er að finna í Gamla testamentinu en 27 í hinu nýja. Orðið ”testamenti” þýðir “sáttmáli” eins og ég nefndi hér fyrr, og vísar til sáttmála Guðs við Móse (þegar Móses fékk steintöflurnar með boðorðunum 10) og til lífs, dauða og upprisu Jesú.

Heimur GT er óravíður. Hann spannar þúsundir ára. Í textum GT endurspeglast margskonar menningarheimar og trúarbrögð fornaldarinnar, þar eru nefnd ríki, lönd og þjóðtungur sem flest eru horfin fyrir löngu. Frásagnir GT gerast í Miðausturlöndum fornaldar, í Norður-Afríku, Rómaveldi og heimsveldum Grikklands, Egyptalands og Mesópótamíu. Sögur GTr gerast í Jerúsalem, Aþenu, Róm, Babylon, Damaskus og meðal Faraóa, svo aðeins örfá dæmi séu nefnd.

Þar með læt ég þessu lokið í bili um fjársjóði Gamla testamentisins – og vona að Gísli Marteinn viðmælendur hans lesi :)


Kalífatið og ISIS - Islamic State.

 

 

Eftir hryllilega hryðjuverkaárás á París um liðna helgi hefur farið fram mikil umræða í fjölmiðlum um morðingjana sem að baki standa og hafa lýst ábyrgð á voðaverkunum, það er að segja ISIS. ISIS stendur fyrir Islamic State of Iraq and Syria –íslamskt ríki Íraks, eða einfaldlega hið íslamska ríki.

 

ISIS er í stuttu máli flokkur öfgamanna sem hafa lýst yfir stofnun ríkis á íslömskum grunni eins og nafnið bendir til, og segjast hafa endurreist kalífatið. Sem kalífat gerir ISIS kröfu til yfirvalds í öllum trúarlegum, stjórnmálalegum og hernaðarlegum málefnum allra múslíma í heiminum. Sömuleiðis krefst ISIS í nafni kalífatsins yfirráðaréttar yfir öllum ríkjum og þjóðum sem lúta stjórnskipun íslam.

 

ISIS flokkurinn eru sunní múslímar sem sækja hugmyndafræði sína til Wahabíta, flokks öfgasinnaðra múslíma frá Saudí –Arabíu. Þeir hafa lagt undir sig stór landsvæði í Írak og Sýrlandi og allir þekkja morðæði þeirra af fréttum.

 

En fyrir hvað stendur þetta allt saman? Hvað þýða þessi orð, sunnítar, kalífat og kalíf? Og hvernig skýra þau öfgana að baki og stöðugan straum ungra múslíma frá Vesturlöndum sem eru tilbúnir að fórna lífinu fyrir þessa öfgahreyfingu?

 

Til að skilja það verðum við að skoða söguna. Ríki múslíma var frá upphafi hugsað sem eitt. Stjórnandi þess eða eftirmaður Múhameðs, kallaðist kalíf og veldi hans kalífat. Þó fór svo að frá upphafi gerðu tveir hópar kröfu til kalífatsins og viðurkenndu ekki hvor annan.

 

Eftir andlát Múhammeðs árið 632 breiddist veldi múslíma mjög hratt út. Veldi Sssaníta eða Persa í Mesópótamíu og Íran var komið að fótum fram. Gamla Aust-Rómverska ríkið var einnig að missa tökin, þó því tækist að halda lífi allt fram að lokum miðalda og verja þannig Evrópu árásum úr suðri. Það var ekki fyrr en eftir fall Býsantíum árið 1453, eða Miklagarðs eins og forfeður okkar kölluðu borgina við Bosporussund, að Evrópu í alvöru var ógnað af herjum múslíma. Var þá nafni Konstantínópel breytt í Ístanbúl, sem sagan segir að sé dregið af neyðarópi borgarbúa er þeir sáu Tyrki streyma inn í borgina, en það hljómaði svo “eis ten polin” á grísku. Undir Ottómönum í Tyrklandi sátu hersveitir múslíma síðast um Vínarborg í lok 17. aldar. Enn eru margir múslímar búsettir á Balkanskaganum og væri hægt að fjalla í löngu máli um þá hörmungarsögu sem þar hefur átt sér stað síðan á 16. öld.

 

Smátt og smátt eftir því sem aldir liðu leystist íslamska ríkið upp í smærri einingar. Þau landflæmi sem múslímar lögu undir sig voru einfaldlega of stór til þess að nokkurt eitt ríkisvald gæti stjórnað þeim öllum í einu, fyrir daga nútíma samgangna.

 

Upphaflega átti kalífinn sem sagt að vera eftirmaður Múhammeðs í sameinaðri veröld íslam. Kalif er titill sem þýðir í raun “umboðsmaður” og var kalifinn þannig talinn umboðsmaður Múhammeðs í heiminum. Af því að enginn munur var á hinu andlega og hinu veraldlega valdi, var kalífinn bæði stjórnarleiðtogi og trúarleiðtogi. Það gerðist þó fljótt að sérstök stétt trúarleiðtoga tóku yfir stjórnun trúmálanna, en vesírarar fóru með hið veraldlega vald í nafni kalífans.

 

Fyrstu aldirnar eftir lát Múhammeðs deildu menn um hver ætti að vera eftirmaður hans og hvar höfuðstöðvar hins víðfeðma ríkis ættu að liggja. Varð það meðal annars til þess að múslímar klofnuðu í tvær fylkingar, sunníta, er fylgja megin straumi íslam og eru trúir hefðinni, og shía er telja sig fylgja afkomandum Alís að málum, en Ali var tengdasonar Múhammeðs, giftur dóttur hans Fatímu. Töldu áhangendur Alí að hann hefði átt að verða kalíf eftir Múhammeð, en valdstéttin snerist gegn Ali og hann var myrtur árið 661. Sonur Alis og Fatímu, Hussein, var sömuleiðis myrtur árið 680 ásamt allri fjölskyldu sinni og er morðsins minnst ár hvert í Iran, þar sem shía múslímar eru í meirihluta. Shía þýðir einfaldlega “flokkur”.

 

Sunnítar eru í dag um 90 % múslíma. Telja þeir að enginn veraldlegur leiðtogi hafi getað tekið við af Múhammeð. Hann er innsigli spámannanna.. Stjórnvöld stjórni hverju sinni í umboðsmaði hans. Shía múslímar líta aftur á móti á imaminn eða trúarleiðtogann, sem æðsta valdhafa Guðs á jörðinni.

 

Múhammeð á samkvæmt þeim að hafa stofnað vígsluhefð með því að útnefna iman, eða trúarleiðtoga sem eftirmann sinn og eiga imamarnir að leiða samfélagið en ekki kalífarnir. Tengdasonur spámannsins sem fyrr var nefndur, Ali var fyrsti imaminn. Tóku synir hans síðan við embættinu og synir þeirra eftir þá. Á þessi vígsluhefð að tryggja rétta túlkun Kóransins til hins efsta dags og eru imamarnir taldir gæddir sérstökum andlegum hæfileikum er erfast frá kynslóð til kynslóðar.

 

En imamar eru ekki á hverju strái. Samkvæmt trú shía-múslíma hvarf hinn síðasti imam, eða trúarleiðtogi og dvelur nú á himneskum stað þar til er hann snýr aftur að dæma heiminn í nafni Guðs. Kallast hann hinn 12. imam. Þegar hann snýr aftur verður það undir heitinu Madid. Leiðtogar shía fara með öll völd í umboði hans. Geta þeir bæði í draumi og hugleiðslu verið í sambandi við hann.

 

Um tíma ríktu shía múslímar yfir Egyftalandi en náðu síðar völdum í hinni gömlu Persíu þar sem nú er Íran.

 

Shía múslímar skildu sig sem sagt frá megin línunni eftir daga Múhammeðs þegar deila hófst um hver ætti að taka við af honum sem leiðtogi ummunnar. Þeir fylgdu tengdarsyni Múhammeðs, Alí, að málum , andstætt meirihlutanum súnnítum. Munurinn á þessum tveimur stóru hópum er reyndar ekki aðeins fólginn í því hver eigi að stjórna ríki islams, kalif eða imam, heldur einnig í hlutverki því sem stjórnandinnn gegnir. Telja sunnar kalífan eiga að vernda íslam og hina íslömsku hefð, en shíar að honum sé gefið guðlegt spádómsvald vald til að túlka hefðina og tala í nafni Guðs.

 

Enda er trúarjátningin ólík. Trúarjátning Sunníta hljóðar svo. „Alla er einn Guð og Múhammeð er spámaður hans“. En játning shía múslíma er „Alla er einn Guð og Múhammeð er spámaður hans og Alí er hjálpari Guðs“. Þess vegna ofsækir ISIS shía múslíma enn frekar en kristna.    

      

Á 11. og 12. öld var kalífinn orðinn lítið annað en valdalaust tákn fyrir heimsveldi sem í raun var margklofið í andstæðar fylkingar er börðust um völdin. Stjórnarumdæmi kalífans kallaðist kalifat. Árin 632-661 réð kalífatið í Medínu yfir hinum íslamska heimi, en frá 661-750 fór kalifatið í Damaskus á Sýrlandi með öll völd. En stöðugt börðust æðstu menn hins víðfeðma samfélags um völdin. Árið 750 náðu Abbasitar i Bagdað völdum og fluttu miðstöð ríkisins austur þangað. Þeir báru síðan titil kalífans allt til 1258 . En þeir voru þó orðnir næsta valdalitlir undir það síðasta og höfðu Seljúkar af tyrkneskum ættum í raun öll völd Abbasítana í hendi sér. Sérstakt kalifat hafði líka verið stofnað á Spáni og í Egyptalandi þannig að enginn eining ríkti um hver ætti að vera umboðsmaður Múhammeðs.

 

Íslam byrjaði að breiðast út um Indland á 13.öld. Á 16. öld lögðu múslímar endanlega undir sig allt Norður-Indland og stofnuðu Mógúlaríkið svokallaða. Réðu þeir síðan yfir meginhluta Indlands allt fram á miðja 19.öld. Í fyrstu voru persnesk áhrif ríkjandi í Mógúlaríkinu og leyfðu Mógúlar indverskum hefðum í menningu og listum einnig að lita ríki sitt og stjórnarfar. Sjást þess enn glögg merki í einni frægustu byggingu Indlands Taj Mahal í Agra. Á 18. öld tók veldi múslíma aftur á móti að hnigna á Indlandi, bæði vegna innbyrðis átaka höfðingja, andstöðu Indverja sem voru í miklum meirihluta og árásarstefnu breta er sáu sér leik á borði að deila og drottna. Eftir uppreisn múslíma gegn breskum yfirráðum 1857 hvarf ríki múslíma á Indlandi af spjöldum sögunnar. Bretar gersigruðu þar Mógúlanna og komu nýlenduveldi sínu á um allt Indland.

 

Á 18. og 19. öld fór veldi íslam reyndar víða hnignandi, ekki bara á Indlandi og Evrópuríkin lögðu ríki múslíma undir sig hvert af öðru. Þar hafði tæknikunnátta Vesturveldanna betur. Múslímar höfðu staðið í stað í þróun vopna og tæknikunnáttu. Þeir máttu sín því lítils gegn ofurefli Evrópubúa.

 

Síðasti kalífinn var kalíf Tyrkjaveldis. Hann var settur af í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar þegar Kemal Ataturk stofnaði Tyrkland nútímans.

 

En það er sem sagt þetta kalífat sem ISIS vill endurvekja og sem öfgamenn fylkja sér nú í kringum. Og þar með gera þeir kröfu til heimsyfirráða – hvað sem það kostar.

           

 


mbl.is „Fundum heilt stríðsvopnabúr“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pælingar um framhjáhald

 


Öll berum við ákveðnar væntingar til hjónabands og sambúðar. Við væntum þess t.d. að í hjónabandinu okkar munum við eignast maka sem elskar okkur og sýnir okkur vináttu. Við vonumst eftir tryggð og trúnaði í sambandinu okkar og eftir fullnægjandi kynlífi. En lífið verður sjaldan eins og væntingarnar sem við gerum okkur til þess. Og iðulega er það svo að þó að við komum inn í samband með okkar drauma og vonir, þá þekkjum við ekki til væntinga og drauma maka okkar.

 

Ástarbriminn og spenningurinn sem við fundum fyrir í upphafi sambúðarinnar eða þegar við fyrst urðum ástfanginn minnkar oft með tímanum. Vaninn og grámygla hversdagsins fyllir dagana og næturnar með. Og flestir hafa í nægu að snúast. Börnin, vinnan, áhugamálin og heimilishaldið tekur allan tímann frá okkur og lítill tími er aflögu fyrir ástarsambandið. Þannig líður flestum á vissum tímabilum lífsins. En við getum vanist flestu og reynt að lifa af þessi erfiðu tímabil sem allir ganga í gegnum, meira að segja þó að það þýði að draumar okkar rætist ekki eins og við hefðum þó viljað. Þannig lifa margir lífi sínu, áfallalaust að mestu, við kaffiþamb og sjónvarpsafþreyingu. Kynlífið er slappt þegar best lætur en ekkert þess á milli. Hrynjandi hversdagsins gefur okkur öryggiskennd og tilgang með lífinu og það er okkur og börnunum okkar mikilvægt.

 

En eitthvað vantar…………..

 

Bæði konur og karlar geta meðvitað og ómeðvitað óskað sér innst inni annarrar tilveru en þeirrar sem hér var dregin upp. Hversdagslífið nægir ekki. Þau vilja lifa fjölbreyttara lífi, vilja hafa spennu og eftirvæntingu í tilverunni og spyrja sig efalasut oft yfir uppvaskinu, í röðinni í bankanum eða þegar börnin halda fyrir þeim vöku með gráti: „Var þetta allt og sumt sem lífið hafði upp á að bjóða?“


Lífsgildi mælast ekki aðeins í peningum heldur einnig í hamingju sambúðar. Hamingjuleitin er drifkraftur lífsins. Áhrif frá fjölmiðlum og auglýsingum ýta undir óánægjuna og trúnna á að til sé eilíf hamingja og eilífur ástarbrimi. Margir gefast upp á því að finna það sem þeir eru að leita að í því sambandi sem þeir eru í. Þeir upplifa þar aðeins bæði tilbreytingarleysi, einmanaleika og skort á skilningi leita því uppi annan félaga. Og þar með er framhjáhaldið staðreynd. Þráin eftir hlýju og spennu hrekur mann burt frá þeim sem ætti að vera manni næstur. Þannig hefur samfélag við vinnufélaga af gagnstæðu kyni orðið mörgum hjónaböndum ógnun, sérstaklega þar sem haldin eru makalaus vinnustaðapartý og veislur. Vinnufélaginn er alltaf hress og spennandi og gerir ekki þær kröfur sem heimilið gerir. Framhjáhald verður síðan að veruleika án þess að viðkomandi endilega hafi ætlað sér það.

Eða hvað?

Það eru aftur til þeir sem í samtölum við hjónaráðgjafa segja að þeir hafi fyrst uppgötvað hvað það var sem þeir söknuðu í sambúð sinni þegar þeir héldu framhjá. Þess vegna eru þeir í raun hissa á eigin framkomu. Um leið kenna þau maka sínum um hvernig komið er , alla vega að hluta til og segja : „Ég hef ekki fengið það út úr sambandi mínu við maka minn sem ég vildi. Þess vegna tók ég þetta hliðarspor.“

Eiginlega,- ég lenti bara í þessu.

 

Hjónaband og sambúð getur orðið svo hversdagslegt fyrirbæri að makarnir fara að líta á hvort annað eins og hluta af innréttingunni. Allir hafa þörf fyrir að vera einhvers virði, að vera einhvers metnir, að eftir þeim sé tekið. Að hitta einhvern annan en makanna sem hefur áhuga fyrir manni og hefur e.t.v. sömu áhugamál, getur verið spennandi og kitlandi. Þá getur maður líka talað um vandamálin heimafyrir án skuldbindinga, orðað það sem maður leggur ekki í að segja við maka sinn. Ef úr verður ástarsamband við þennan þriðja aðila, þá er makinn bara orðinn að enn stærra vandamáli, því þá bætist pukur og samviskubit við vandamálin sem voru fyrir í sambúðinni. Og þá er stutt í skilnaðinn og upplausn gömlu fjölskyldunnar.

 

Sú trú að makinn eigi að uppfylla alla drauma og vonir manns eyðileggur mörg sambönd. Margir segja aldrei frá væntingum sínum í sambúðinni en loka sig bara inni í skel þegar þessar óorðuðu væntingar uppfyllast ekki. Og þar með er parið læst í tilveru sem er ófullnægjandi fyrir báða aðila. Hvorugur þorir að orða hugsanir sínar af ótta við upplausn og deilur. Í staðinn leita menn út fyrir sambúðina í þeirri vissu að þar sé grasið grænna. Og það á við bæði í rúminu og á öðrum sviðum.

 

Þau eru ekki svo fá samböndin sem lenda í erfiðleikum vegna framhjáhalds þegar komið er fram á „miðjan aldur“. Þá er eins og vakni einhver þörf hjá sumum fyrir að fá staðfestingu á því að maður sé nú enn ungur og gjaldgengur. Þetta hefur verið kallað „grái fiðringurinn“ í gríni. Margir eiga erfitt með að sætta sig við að hrukkunum fjölgar, hárunum á höfðinu fækkar eða þau grána og bílhringir taka að hlaðast upp á vissum stöðum líkamans. Þetta á við um bæði konur og karla. Æskudýrkun samtímans ýtir undir þessa sjálfsmyndarkreppu hins miðaladra. Allir eiga að vera ungir, fallegir og eftirsóknarverðir. Auglýsingar skapa þá mynd af raunveruleikanum að verðleiki einstaklingsins miðist við útlit.

Ef síðan yngri karl eða kona gefur hinum miðaldra undir fótinn styrkist sá hinn sami í þeirri trú að „maður sé nú enn gjaldgengur“, einhvers virði. Það eru ófáir sem vilja sanna sjálfan sig með því að taka hliðarspor í hjónabandinu. En oftast kemur fljótlega í ljós að það er erfitt að lifa í einhverri ímynd sem ekki er maður sjálfur. Margir hafa þannig glatað blæði maka sínum og sjálfum sér þegar glansmyndin og nýjabrumið fer af sambandinu við ástkonu eða ástmann. Þá rennur upp það ljós að aldur segir ekki allt og útliðið ekki heldur og að makinn fyrrverandi var það sem í raun og veru gaf lífinu gildi. Því enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

 

Ýmsir upplifa hjónaband og sambúð sem bindingu er þeir telja að útiloki sig frá bjartari hliðum tilverunnar. Þessir hinir sömu óttast að verða háðir maka sínum og þar með auðsæranlegir og ósjálfstæðir. Að gefa sig þannig ástinni á vald veldur kvíða gagnvart afleiðingunum. Kannski hafa þeir áður farið illa út úr ástarsambandi. Svo eru líka þeir einstaklingar sem vilja ráða sér sjálfir í einu og öllu og hafa ekki áhuga á að gefa af sér í sambandinu. Þeir vilja aðeins njóta, fá eitthvað fyrir sinn snúð en vilja ekkert leggja að mörkum á móti. Samt hafa þeir ekki styrk til þess að taka frumkvæðið og slíta sambúðinni eða hjónabandinu. Hvað sem veldur, þá nota þeir þriðja aðila til þess að svíkja heit sín og brjótast þannig út úr sambandi sem þeir vilja ekki lengur vera þátttakendur í. Framhjáhaldið verður þá einskonar tæki, aðferð til að losa sig við maka sinn, fjölskyldu og skuldbindingar. Það versta sem þessir aðilar vita er sú staða sem kemur upp, þegar makinn þrátt fyrir allt vill „reyna áfram“.

 

Það er reyndar varla hægt að vera í ástarsambandi og búa saman sem par án þess að verða háður maka sínum á einhvern hátt. Og það er reyndar alls ekki neikvætt, heldur getur það þvert á móti verið af hinu góða. Að elska er að gefa sig öðrum á vald. Þar með verður maður líka auðsæranlegur. Að elska er að treysta öðrum fyrir tilfinningum sínum. Það er ekki hægt að elska með skilyrðum.

 

En málin eru sjaldan eins einföld og sú mynd sem hér hefur verið dreginn upp af þeim sem ekki vill binda sig. Margir sem hafa haldið fram hjá maka sínum, bera þá reynslu með sér í gegnum tilveruna sem þunga byrði. Vonbrigðin með sjálfan sig og samviskubit gagnvart makanum verður að sári sem seint grær. Og framhjáhaldið verður sjaldan til þess að einfalda hlutina heldur þvert á móti magnar það upp þann vanda sem fyrir var. Og nú er auk þess kominn nýr aðili, jafnvel ný fjölskylda til sögunnar, þ.e. sá sem haldið var framhjá með og öll hans mál.

 

Trúnaður er grundvallaratriði í hverri sambúð og hverju hjónaband eins og í öðrum samskiptum í lífinu. Ef við gerum okkur grein fyrir því, þá getur það gefið okkur tækifæri til að upplifa ríkt og heitt ástarsamband með þeim sem við höfum kosið að tilheyra og lifa lífinu með. Þannig getur ástin styrkst og staðist erfiðleikana sem enginn sleppur við.

 

Og þá getum við auðveldlega staðist allar freistingar þegar þriðji aðili kitlar hégómagirndina. Þá fáum við líka kraft til þess að láta okkar eigin ákvarðanir ráða vali okkar í lífinu, líka ef við erum að því komin að missa stjórnina. Því þá veljum við að halda fast í það sem við eigum. Og við gerum það fyrir okkur sjálf, fyrir maka okkar og fyrir fjölskyldu okkar. 


Helmings verðmunur milli landa

Merkileg þessi umræða um óþjóðholla Íslendinga sem versla í útlöndum. Samt er oft allt að helmings verðmunur milli Íslands og "útlanda". 

Nokkur dæmi: Ég bý í Sverige. Hér kostar Playstation 4 um 45 -50.000 kr en 80.000 heima. Hér eru barnaföt yfirleitt helmingi ódýrari en heima. Hlustunartæki sem notað er til að fylgjast með börnum í vöggu kostar 15.000 kr heima en 8.000 kr í Sverige. Sama á við um sjónvörp og önnur tæki. Svo ekki sé talað um mat. Eða bankalán! Hér í Svíþjóð væru íslensk bankalán talin okurlán og bönnuð með lögum. 

Og svona má lengi telja. Því miður. 

Samt er víst allt mun ódýrara í USA en hér í landi sósíalismans.

Það sorglega er að bara hinir vel stæðu geta skroppið erlendis að kaupa ódýrt - meðan hinir fátæku verða að kaupa heima og borga uppsett verð. 

 


mbl.is „Fólk verslar í auknum mæli í útlöndum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skráning hafin á næsta hjónanámskeið

 

Þá er starfsemi hjónanámskeiðanna að renna í gang á ný eftir sumarið. Ég stefni að því að hjónanámskeiðin verða haldin einu sinni í mánuði í vetur. Námskeiðin fara fram á mismunandi stöðum og reyni ég að dreifa þeim nokkuð um landið til að auðvelda fólki að taka þátt. Eins hef ég verið beðinn að halda námskeiðið bæði fyrir söfnuði Þjóðkirkjunnar víða um land, skóla, félagasamtök og starfsmannafélög. Til gamans má geta þess að ég hef haldið námskeiðið á yfir tuttugu stöðum á landinu í gegnum árin, oftast á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og á Ísafirði.

 

Fyrsta námskeið þessa vetrar verður haldið í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju mánudaginn 14, október og er skráning þegar hafin. Skráning fer fram á thorhallur33@gmail.com

 

Maðurinn er samur við sig og sjálft inntak námskeiðanna hefur þess vegna lítið breyst í gegnum árin - að hjálpa þátttakenndum að greiða úr flækjum lífsins og finna leiðir til að styrkja ástina og efla sambandið. Ég legg enn meiri áherslu nú en fyrr á að fólk vinni sjálft í sínum málum - ég hef svo litla trú á að einhver geti gefið andlega pillu og þar með leyst allt. Umgjörðin hefur aftur á móti breyst algerlega, enda aðrir tímar með öðrum ytri vandamálum. Og aðferðafræðin hefur breyst.

 

En þar sem námskeiðið byggir svo mjög á því hvernig pörin nálgast það, geta pör tekið þátt aftur og aftur, því nálgunin er alltaf svo persónuleg. Námskeiðin eru heldur alls ekki bara fyrir pör sem eiga í vanda. Mörg pör koma einmitt til að styrkja það sem gott er fyrir.

Og það er að sjálfsögðu hægt að gera aftur og aftur.

 

Efnið á námskeiðunum hef ég notað næði í bókum sem ég hef skifað og í öðrum námskeiðum sem ég hef þróað fyrir hópa og einstaklinga. Einstaklingar þurfa nefnilega líka á sjálfstyrkingu að halda ekki satt? Árið 2006 gaf ég út bókin Hjónaband og sambúð, sem í raun byggir beint á námskeiðunum og er hugsuð sem sjálfshjálparbók fyrir pör. Aðra slíka gaf ég út 2001, Hamingjuleitin, en hún byggir á sögum sem ég hef heyrt og dæmum úr samfélaginu, - án þess auðvitað að hægt sé að rekja hverjir tengjast í raunveruleikunum. Sögurnar verða þar að dæmisögum fyrir lesendur sem geta leiðbeint þeim í þeirra lífi.

 

Annars hef ég nú að mestu fengist við að skrifa sagnfræðirit og rit um trúarbragðasögu- og þau hafa fundið sér farveg í allt öðrum námskeiðum á mínum vegum. En það er nú önnur saga. Nú er ég að skrifa handrið að bók sem ég kalla "Tíu leiðir til betra lífs" - vonandi verð ég búinn með hana einhventíman á næsta ári. Hún er fyrir einstaklinga sem vilja styrkja sig í lífinuog tengsl sín við aðra.

 

Ég hef haldið öll þessi námskeið, hjóna og einstaklinga og hópatengd, í Svíþjóð, bæði þar sem ég starfa í dag og í Gautaborg og Stokkhólmi. Umgjörðin þar er auðvitað allt önnur og þjóðfélagið líka - en innihaldið er það sama, vandamál sambúðar og ástar sem pör standa frammi fyrir þau sömu og hér á landi. Hjörtunum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu eins og Tómas Guðmundsson orkti.

 

Það má segja að hjónanámskeiðið sé þess eðlis að þar sé verið að fást við mál og benda á lausnir sem fólk ætti að geta sagt sér sjálft. Og það er alveg rétt! Þetta eru engar töfralausnir sem engum hefur dottið í hug fyrr. Við þekkjum öll svörin sem boðið er upp á, allar leiðirnar sem eru nefndar. En vandinn er að við höfum gleymt þeim, týnt þeim í annríki hversdagsins. Þetta er eins og fjársjóður sem býr innra með okkur. Við höfum bara grafið hann of djúpt og týnt kortinu - vitum ekki hvar við eigum að leita til að finna fjársjóðskistuna. Hjónanámskeiðið, og einstaklingsnámskeiðin sömuleiðis, eru eins og fjársjóðskort, verkfæri til að finna fjársjóðinn sem býr innra með okkur, grafa hann upp og láta gullið glitra í sólinni.

 


Kristin trú og kynhneigð


Um leið og ég óska öllum til hamingju með daginn er gaman að rifja upp hvað Jesús hefur að segja um samkynhneigð.

Það er nefnilega margt merkilegt sem kemur í ljós þegar menn lesa orð Jesú Krists. Sérstaklega það að oft hafa menn reynt að setja honum orð sín í munn.

Til dæmis minnist Jesús Kristur aldrei á samkynhneigð eða samkynhneigða. Hann talar reyndar aldrei um kynhneigð manna til eða frá. Honum var slétt sama hvort menn væru samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir.

Í augum Jesú erum við fyrst og fremst Guðs börn, hvort sem við erum hvít eða svört, karlar eða konur, rauðhærð eða dökkhærð, samkynhneigð eða gagnkynhneigð. Það undirstrikar hann oft og iðulega með orðum sínum og gerðum.

Við megum ekki gleyma því að samkynhneigð var mjög ríkjandi í austur hluta Rómaveldis á tímum Jesú. Jesú bjó í Galíleu og Júdeu sem voru rómversk skattlönd þar sem gyðingar voru í meirihluta íbúa. Allt í kringum Júdeu á dögum Jesú voru margfalt fjölmennari ríki en land gyðinga. Þar voru til dæmis hinar svokölluðu „Tíu borgir“ þar sem Grikkir réðu ríkjum frá fornu fari. Grikkir höfðu reyndar ráðið yfir Júdeu að mestu frá tímum Alexanders mikla. Hjá Grikkjum og í þeirra menningarheimi var samkynhneigð ekkert tiltökumál.

Jesús stytti sér oft leið í gegnum borgirnar tíu á ferðum sínum, en aldrei minnist hann samt á þetta atriði.

Hann hefur þó efalaust þekkt vel fordæmingarorð Gamla testamentisins í garð samkynhneigðra. Um þau voru helstu andstæðingar Jesú aftur á móti ekki jafn þögulir og fordæmdu þeir Grikkina m.a. vegna frjálslyndis þeirra gagnvart samkynhneigðum. Jesús tók aldrei þátt í slíkum árásum.

Árásir á samkynhneigða í dag víða um veröldina eru oft dulbúnar í kristilegan búning, með tilvitnunum í Biblíutexta, bæði úr Gamla testamentinu og hinu Nýja. Þannig hefur það verið um langar aldir og er enn eins og dæmin sanna. Þeir sem slíkt stunda gleyma því aftur á mót að við kristnir menn eigum að lesa lögmál hins gamla sáttmála og bréf Nýja testamentisins í ljósi orða og kenningar Jesú. Í ræðum sínumi segir Jesús m.a. „dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmdir“, „þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“ og „allt sem þér því viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra“.

Þetta er hinn raunverulegi boðskapur lögmáls Gamla testamentisins bætir hann við. Allt hitt eru fordómar manna.

Jesús lét lífið vegna kærleika síns til okkar manna. Ofbeldismenn krossfestu hann vegna þess að þeir óttuðust boðskap hans.

Hvað ákvarðar gjörðir þínar og skoðanir?

Kærleikurinn styrkir þig og eflir og einnig þá sem þú kemur fram við af kærleika. Óttinn minnkar þig og náunga þinn.

Þú verður að læra að þekkja í sundur kærleikann og óttann og velja annað hvort sem fyrirmynd þína. Og hér er þumalputtaregla sem þú getur notað: Boðskapur Jesú er alltaf byggður á kærleika, fjallar alltaf um kærleika. Hómófóbía snýst alltaf um ótta. Þess vegna ekki hægt að vera bæði kristinn og hómófób. En það er ekkert mál að vera bæði kristinn og samkynhneigður.

Mundu:

Guð er kærleikur.

Þú ert elskaður eins og þú ert.

Óttastu ekki!


mbl.is Oft ósammála, en sammála í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

v/s Að leigja í Svíþjóð og á Norðurlöndunum

Það má segja að það hvernig búið er að fólki á húsnæðismarkaði segi allt sem segja þarf um það samfélag sem við lifum við. Hér í Svíþjóð þar sem ég hef búið undanfarin þrjú ár eru leiguíbúðir raunverulegur og góður valkostur fyrir alla. Húsnæðisfélög bjóða allar stærðir af íbúðum fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Auðvitað þarf oft að vera á biðlista eftir húsnæði þar sem húsnæðisskortur er í Svíþjóð, en hægt er að skrá sig við 18 ára aldur. Sem allir gera.

Þegar fjölskylduaðstæður breytast er auðvelt að breyta um íbúðastærð. Í boði eru litlar og stórar íbúðir, raðhús og einbýlishús. Og auðvitað íbúðir fyrir eftirlaunaþega. Á sanngjarnri leigu. 

Að sjálfsögðu geta leigjendur treyst því að leigan er æfilangt. Enginn missir leiguíbúð svo fremi hann greiði leiguna og gangi vel um.

Ekki er hægt að hækka leiguna nema semja um það við leigjendasamtök sem semja fyrir alla leigjendur. Auðvitað er frjálst að vera í slíkum samtökum. Leigan er því yfirleitt sanngjörn.

Lög tryggja að leigusalar þurfa að halda við íbúðum og þjónusta.

Ég leigi og bý t.d. í íbúð þar sem fylgir þvottavél og þurrkari. Hér um daginn bilaði þvottavélin og daginn eftir var komin ný. Þetta er aðeins lítið dæmi. 

Þannig er reyndar staða leigumála um öll Norðurlönd.

Og þykir sjálfsögð.

Nema á Íslandi.


mbl.is Slegist um íbúðir til leigu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hersing túrista að skíta

Á landinu bláa má líta

leiftrandi jöklana hvíta

himininn háa

heiðlóu smáa

og hersingu túrista að skíta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þórhallur Heimisson

Höfundur

Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson

Höfundur er sóknarprestur í Breiðholtskirkju og hefur stundað hjóna og fjölskylduráðgjöf um árabil. Hann hefur einnig stundað framhaldsnám í trúarbragðafræði 

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ISIS
  • image
  • image
  • Breiðholtskirkja vetur
  • 12308174 10206547354895816 7660961963820362976 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband