20.1.2016 | 09:56
Kalifatið og ISIS - Islamic state of Iraq and Syria
ISIS hefur verið mikið í fréttum undanliðið ár. En hvaða fyrirbæri er þetta?
ISIS er stytting á enska heitinu Islamic state of Iraq and Syria og er í stuttu máli flokkur öfgamanna sem hafa lýst yfir stofnun ríkis á íslömskum grunni í Írak og Sýrlandi eins og nafnið bendir til,og segjast hafa endurreist kalífatið forna.
Sem kalífat gerir ISIS kröfu til yfirvalds í öllum trúarlegum, stjórnmálalegum og hernaðarlegum málefnum allra múslíma í heiminum. Sömuleiðis krefst ISIS í nafni kalífatsins yfirráðaréttar yfir öllum ríkjum og þjóðum sem lúta stjórnskipun íslam.
ISIS flokkurinn eru sunní múslímar sem sækja hugmyndafræði sína til Wahabíta, flokks öfgasinnaðra múslíma frá SaudíArabíu. Þeir hafa lagt undir sig stór landsvæði í Írak og Sýrlandi og allir þekkja morðæði þeirra af fréttum.
En fyrir hvað stendur þetta allt saman? Hvað þýða þessi orð, sunnítar, kalífat og kalíf? Og hvernig skýra þau öfgana að baki og stöðugan straum ungra múslíma frá Vesturlöndum sem eru tilbúnir að fórna lífinu fyrir þessa öfgahreyfingu?
Til að skilja það verðum við að skoða söguna. Ríki múslíma var frá upphafi hugsað sem eitt. Stjórnandi þess eða eftirmaður Múhameðs,kallaðist kalíf og veldi hans kalífat. Þó fór svo að frá upphafi gerðu tveir hópar kröfu til kalífatsins og viðurkenndu ekki hvor annan, sunnítar og shítar.
Eftir andlát Múhammeðs árið 632 breiddist veldi múslíma mjög hratt út. Veldi Sassaníta eða Persa í Mesópótamíu og Íran var komið að fótum fram. Gamla Aust-Rómverska ríkið var einnig að missa tökin, þó því tækist að halda lífi allt fram að lokum miðalda og verja þannig Evrópuárásum úr suðri. Það var ekki fyrr en eftir fall Býsantíum árið 1453, eða Miklagarðs eins og forfeður okkar kölluðu borgina við Bosporussund, að Evrópu í alvöru var ógnað af herjum múslíma. Var þá nafni Konstantínópel breytt í Ístanbúl, sem sagan segir að sé dregið af neyðarópi borgarbúa er þeir sáu Tyrki streyma inn í borgina, en það hljómaði svo eis ten polin á grísku. Undir Ottómönum í Tyrklandi sátu hersveitir múslíma síðast um Vínarborg ílok 17. aldar. Enn eru margir múslímar búsettir á Balkanskaganum og væri hægt að fjalla í löngu máli um þá hörmungarsögu sem þar hefur átt sér stað síðan á 16. öld.
Smátt og smátt eftir því sem aldir liðu leystist íslamska ríkið upp í smærri einingar. Þau landflæmi sem múslímar lögu undir sig voru einfaldlega of stór til þess að nokkurt eitt ríkisvald gæti stjórnað þeim öllum í einu, fyrir daga nútíma samgangna.
Upphaflega átti kalífinn sem sagt að vera eftirmaður Múhammeðs í sameinaðri veröld íslam.
Kalif er titill sem þýðir í raun umboðsmaður og var kalifinn þannig talinn umboðsmaður Múhammeðs í heiminum. Af því að enginn munur var áhinu andlega og hinu veraldlega valdi, var kalífinn bæði stjórnarleiðtogi og trúarleiðtogi. Það gerðist þó fljótt að sérstök stétt trúarleiðtoga tóku yfir stjórnun trúmálanna, en vesírarar fóru með hið veraldlega vald í nafni kalífans.
Fyrstu aldirnar eftir lát Múhammeðs deildu menn um hver ætti að vera eftirmaður hans og hvar höfuðstöðvarhins víðfeðma ríkis ættu að liggja. Varð það meðal annars til þess að múslímar klofnuðu í tvær fylkingar, sunníta, er fylgja megin straumi íslam og eru trúirhefðinni, og shía er telja sig fylgja afkomandum Alís að málum, en Ali var tengdasonar Múhammeðs, giftur dóttur hans Fatímu. Töldu áhangendur Alí að hann hefði átt að verða kalíf eftir Múhammeð, en valdstéttin snerist gegn Ali og hann var myrtur árið 661. Sonur Alis og Fatímu, Hussein, var sömuleiðis myrtur árið 680 ásamt allri fjölskyldu sinni og er morðsins minnst ár hvert í Iran,þar sem shía múslímar eru í meirihluta. Shía þýðir einfaldlega flokkur.
Sunnítar eru í dag um 90 % múslíma. Telja þeir að enginn veraldlegur leiðtogi hafi getað tekið við af Múhammeð. Hann er innsigli spámannanna. Stjórnvöld stjórni hverju sinni í umboðsmaði hans. Shíamúslímar líta aftur á móti á imaminn eða trúarleiðtogann, sem æðsta valdhafa Guðs á jörðinni.
Múhammeð á samkvæmt þeim að hafa stofnað vígsluhefð með því að útnefna iman, eða trúarleiðtoga sem eftirmann sinn og eiga imamarnir að leiða samfélagið en ekki kalífarnir. Tepngdasonur spámannsinssem fyrr var nefndur, Ali var fyrsti imaminn. Tóku synir hans síðan við embættinu og synir þeirra eftir þá. Á þessi vígsluhefð að tryggja rétta túlkun Kóransins, trúarbókar múslíma, til hins efsta dags og eru imamarnir taldir gæddir sérstökum andlegum hæfileikum er erfast frá kynslóð til kynslóðar.
En imamar eru ekki á hverju strái. Samkvæmt trú shía-múslíma hvarf hinn síðasti imam, eða trúarleiðtogi og dvelur nú á himneskum stað þar til er hann snýr aftur að dæma heiminn í nafni Guðs. Kallast hann hinn 12. imam. Þegar hann snýr aftur verður það undir heitinu Madid. Leiðtogar shía fara með öll völd í umboði hans. Geta þeir bæði í draumi og hugleiðslu verið í sambandi við hann.
Um tíma ríktu shía múslímar yfir Egyftalandi en náðu síðar völdum í hinni gömlu Persíu þar sem nú er Íran.
Shía múslímar skildu sig sem sagt frámegin línunni eftir daga Múhammeðs þegar deila hófst um hver ætti að taka við af honum sem leiðtogi ummunnar, samfélags múslíma. Þeir fylgdu tengdarsyni Múhammeðs, Alí, að málum , andstætt meirihlutanum súnnítum. Munurinn á þessum tveimur stóru hópum er reyndar ekki aðeins fólginn í því hver eigi að stjórna ríki islams, kalif eða imam, heldur einnig í hlutverki því sem stjórnandinnn gegnir.
Telja sunnar kalífan eiga að vernda íslam og hinaíslömsku hefð, en shíar að honum sé gefið guðlegt spádómsvald vald til að túlka hefðina og tala í nafni Guðs.
Enda er trúarjátningin ólík. Trúarjátning Sunníta hljóðar svo. Alla er einn Guð og Múhammeð er spámaður hans. En játning shía múslíma er Alla er einn Guð og Múhammeð er spámaður hans og Alí er hjálpari Guðs.
Á 11. og 12. öld var kalífinn orðinn lítið annað en valdalaust tákn fyrir heimsveldi sem í raun var margklofið í andstæðarfylkingar er börðust um völdin. Stjórnarumdæmi kalífans kallaðist kalifat.
Árin 632-661 réð kalífatið í Medínu yfir hinum íslamska heimi, en frá 661-750 fór kalifatið í Damaskus á Sýrlandi með öll völd. En stöðugt börðust æðstu menn hins víðfeðma samfélags um völdin. Árið 750 náðu Abbasitar i Bagdað völdum og fluttu miðstöð ríkisins austur þangað. Þeir báru síðan titil kalífans allt til 1258. En þeir voru þó orðnir næsta valdalitlir undir það síðasta og höfðu Seljúkar af tyrkneskum ættum í raun öll völd Abbasítana í hendi sér. Sérstakt kalifat hafði líka verið stofnað á Spáni og í Egyptalandi þannig að enginn eining ríkti um hver ætti að vera umboðsmaður Múhammeðs.
Íslam byrjaði að breiðast út um Indland á 13.öld. Á 16. öld lögðu múslímar endanlega undir sig allt Norður-Indland og stofnuðu Mógúlaríkið svokallaða. Réðu þeir síðan yfir meginhluta Indlands allt fram á miðja 19.öld. Í fyrstu voru persnesk áhrif ríkjandi í Mógúlaríkinu og leyfðu Mógúlar indverskum hefðum í menningu og listum einnig að lita ríki sitt og stjórnarfar. Sjást þess enn glögg merki í einni frægustu byggingu Indlands Taj Mahal í Agra. Á 18. öld tók veldi múslíma aftur á móti að hnigna á Indlandi, bæði vegna innbyrðis átaka höfðingja, andstöðu Indverja sem voru í miklum meirihluta og árásarstefnu Breta er sáu sér leik á borði að deila og drottna. Eftir uppreisn múslíma gegn breskum yfirráðum 1857 hvarf ríki múslíma á Indlandi af spjöldum sögunnar. Bretar gersigruðu þar Mógúlanna og komu nýlenduveldi sínu á um allt Indland.
Á 18. og 19. öld fór veldi íslam reyndar víða hnignandi, ekki bara á Indlandi og Evrópuríkin lögðu ríki múslíma undir sig hvert af öðru. Þar hafði tæknikunnátta Vesturveldanna betur. Múslímar höfðu staðið í stað í þróun vopna og tæknikunnáttu. Þeir máttu sín því lítils gegn ofurefli Evrópubúa.
Síðasti kalífinn var kalíf Tyrkjaveldis. Hann var settur af í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar þegar Kemal Ataturk stofnaði Tyrkland nútímans.
En það er sem sagt þetta kalífat sem ISIS vill endurvekja og sem öfgamenn fylkja sér nú í kringum. Og þar með gera þeir kröfu til heimsyfirráða hvað sem það kostar.
Um bloggið
Þórhallur Heimisson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.