27.1.2015 | 19:39
9 leiðir að bættu kynlífi
Bætiefni geta verið góð og gild en gera lítið ein og sér fyrir ást og kynlíf.
Hér fylgja nokkrar leiðir sem hægt er að fara til að auka ánægjuna og vellíðan í kynlífinu. Engin þeirra er algild en þú / þið sem lesið þetta getið ef til vill fundið eitthvað hér sem styrkir ykkar samband, ást og kynlíf.
1.Ræktaðu ástarsamband þitt við maka þinn á öllum sviðum, þannig að vinátta ykkar geti vaxið og gagnkvæm umhyggja ykkar aukist.
Í traustum samböndum er kynlífið ofið inn í öll samskiptin sem eiga sér stað. Ef sambandið er gott og vinátta og skilningur ríkir, eru líkurnar miklar á því að kynlífið sé fullnægjandi fyrir báða aðila. Ef sambandið er slæmt, fullt af togstreitu og spennu, þá verður kynlífið það líka. Kynlífið byrjar ekki í kynfærunum, heldur í höfðinu.
2.Einbeittu þér að því að auka og dýpka innileikann í sambandi ykkar og þá mun innileikinn í kynlífinu líka aukast.
Þetta er tilbrigði við það sem nefnt var hér að ofan.
3.Gerðu hreint fyrir þínum dyrum reglulega. Talið um tilfinningar ykkar, gerið upp óleyst deilumál, spennu, særandi hugsanir og orð.
Þetta á sérstaklega við ef þið hafið sært hvort annað og kynlífið er farið að líða af þeim sökum. Að þegja þunnu hljóði yfir tilfinningum sínum og bæla niður reiði og spennu er einn helsti orsakavaldurinn fyrir erfiðleikum í kynlífi. Í stað þess að tala um hlutina er kynlífinu beitt í refsingarskyni. Það verður að leysa úr vandamálum líka þeim sem tengjast mismunandi þörfum í kynlífinu.
4. Gerðu allt sem í þínu valdi stendur til þess að samband ykkar byggist á réttlæti og jöfnuði og að tækifæri ykkar til vaxtar séu hin sömu.
Ef þú gerir þetta mun nálægð ykkar í kynlífinu aukast sem á öðrum sviðum. Ekkert samband er eins fullnægjandi og samband tveggja jafningja. Jafningjar berjast ekki um völdin í sambandinu, þeir fara ekki í stríðsleik né reyna að koma hinum aðilanum á kné.
5. Leyfðu barninu í þér að leika sér sem oftast.
Ein besta leiðin fyrir par sem upplifir spennu og erfiðleika í kynlífinu er að hlæja saman. Hláturinn losar um öll bönd og húmorinn mýkir samskiptin. Tökum ekki hvort annað of hátíðlega. Kynlíf er besti leikur sem hægt er að hugsa sér. Leikum okkur í kynlífinu. Í heilbrigðu kynlífi leyfum við barninu innra með okkur að fá frí frá annríki hversdagsins og spennutreyjunni sem fullorðinsgríman setur á okkur.
6. Nýttu þér aðferðir kynlífsmeðferðar og kynlífsfræðinnar ef vandamálin í kynlífinu eru orðin djúpstæð.
Oft endurspeglar dvínandi áhugi á kynlífi dýpri sálfræðileg vandamál í sambandinu eða hjá einstaklingunum. Vandinn getur átt sér djúpar rætur. Hann getur líka stafað af bældu uppeldi, brengluðum skoðunum, kvíða eða öðru því sem hemur gleði kynlífsins. Hjá meðferðaraðilum tekst mörgum að losna undan þessari byrði.
7. Leyfðu líkama þínum að njóta sín í kynlífinu.
Ekki vera hrædd við að prófa eitthvað nýtt í kynlífinu, svo fremi þið séuð bæði sátt við það og með á nótunum. Kannið líkama ykkar og hvað það er sem veitir ykkur báðum mestan unað.
8. Uppgötvaðu rómantíkina í sambandinu þínu, einmitt eins og það er núna.
Góðu fréttirnar frá rannsóknum kynlífsfræðinga að undanförnu eru að það er aldrei of seint að njóta kynlífsins. Use it and you won´t lose it eða notaðu það og þú missir það ekki, er gott ráð sem bandarískir kynlífsfræðingar gefa. Þetta á reyndar við um allt sem að líkamanum og andanum snýr, líka ástina og rómantíkina. Margir halda að kynlíf og rómantík sé bara eitthvað fyrir unga fólkið.
Þetta er mikill misskilningur. Þroski og gagnkvæm ást, umhyggja og nánd eykur vellíðan kynlífsins eftir því sem árin færast yfir og parið kynnist betur. Það er sérstök rómantík fólgin í því að líta saman yfir farinn veg og uppgötva allt það sem maður hefur átt í meðlæti og mótlæti.
9. Hugsaðu betur um líkama þinn og kynlífið mun án efa fara batnandi.
Að halda líkamanum hraustum með æfingum, hollri hreyfingu og góðu mataræði er ein af forsendunum fyrir því að kynlífið sé gott. Þetta á sérstaklega við þegar komið er á 50. aldurinn og þar yfir. Reykingar og óhófleg áfengisneysla að ekki sé talað um önnur eiturlyf draga úr kynlöngun og kynhvöt og geta gert líkamann óhæfan til þess að stunda kynlíf.
Ráð til að auka kynhvöt og löngun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Þórhallur Heimisson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.