70 ár frá frelsun Auschwitz 27. janúar 2015

 

image

 


Þann 27. janúar á þessu ári eru 70 ár liðin síðan sovéskar hersveitir frelsuðu eftirlifandi fanga úr útrýmingarbúðum Þjóðverja í Auschwitz.

Nafnið Auschwitz er þýsk þýðing á pólska nafninu Oswiechim, en Oswiechim er bær sem liggur um það bil í 70 kílómetra fjarlægð frá Kraká, hinni fornu höfuðborg Póllands. Þegar Þjóðverjar hernámu vestur hluta Póllands árið 1939, breyttu þeir öllum staðarnöfnum úr pólsku yfir í þýsku og þannig er nafnið komið til.

Á engum stað í heiminum hafa jafn margir verið myrtir eins og í Auschwitz.

Eftir að hafa hernumið Pólland reistu Þjóðverjar útrýmingarbúðirnar í Auschwitz til að geyma þar pólska pólitíska fanga, en síðar voru fluttir þangað Gyðingar, Rúmenar, samkynhneigðir og aðrir sem Þjóðverjar töldu óæðri.

Auschwitz er í raun kerfi útrýmingarbúða sem Þjóðverjar ráku allt frá hernámi Póllands 1939 eins og fyrr segir og fram til 27. janúar 1945. Hið þýska heiti búðanna er Konzentrationslager Auschwitz og í raun er um kerfi búða að ræða. Þar var að finna upprunalegu búðirnar, sjálft Auschwitz, Auschwitz II –Birkenau, Auschwitz III – Monowitz og 45 aðrar minni búðir.

Byrjað var að myrða fanga í Auschwitz í september 1941 og Auschwitz II –Birkenau varð síðan miðstöð “Lokalausnar Gyðingavandans” eins og Þjóðverjar kölluðu fjöldamorðin á Gyðingum sem þeir skipulögðu og framkvæmdu af þýskri nákvæmni. Frá árinu 1942 byrjuðu lestir að rúlla til Auschwitz frá öllum hersetnum löndum Þjóðverja í Evrópu, þar sem fangar voru myrtir á kerfisbundinn og iðnvæddan máta með Zyklon B gasi. Talið er að Þjóðverjar undir stjórn Nasista hafi myrt um 1.1. milljón fanga í Auschwitz. 90% þeirra voru Gyðingar þannig að einn af hverjum 6 gyðingum sem Þjóðverjar myrtu lét lífið þar. Sem aftur segir okkur að Þjóðverjum tókst að myrða rúmlega 6 milljónir Gyðinga.

Aðrir sem létu lífið í Auschwitz voru meðal annars um 150.000 Pólverjar, 23.000 Rómanir, 15.000 sovéskir stríðsfangar, 400 Votta Jehóva, fjölmargir samkynhneigðir, fatlaðir, geðsjúkir og auk þess tugir þúsunda af margskonar þjóðerni sem voru fluttir þangað. Margir þeirra sem ekki voru myrtir í gasklefunum dóu úr hungri, þrælkun, sjúkdómum, sem fórnarlömb læknisfræðilegra tilrauna – eða voru drepnir til gamans af þýskum fangavörðum. Lýsingar fanga sem lifðu af endurspegla sadisma Þjóðverja. Fangar voru skotnir, hengdir upp á krókum þar til þeir dóu, troðið í loftlaus rými þar til þeir köfnuðu eða einfaldlega látnir svelta eða frjósa í hel. Hugmyndaflugi fangavarðanna voru engin takmörk sett. Og líkbrennslan gekk dag og nótt.

Útrýmingarherferðin gegn Gyðingum og öðrum sem Þjóðverjar töldu ekki þess virði að fá að lifa, hófst árið 1933 þegar Adolf Hitler var kosinn, tökum eftir því, kosinn til valda í Þýskalandi. Henni lauk árið 1945 með sigri Bandamanna. Til að ná þessu markmiði sínu reistu Þjóðverjar, landar Lúters og Brahms og Bachs og annarra menningarvita, útrýmingarbúðir víða um Evrópu og beittu öllu tækniviti og þekkingu eins mesta iðnveldis heims, til að morðin mættu ganga sem hraðast.

Lífið í útrýmingarbúðunum var hryllingur. Föngunum var þrælað út og þeir sveltir. Pyntingar voru daglegt brauð. Læknar og vísindamenn stunduðu tilraunir á föngunum. Og þýskir fangaverðir murkuðu lífið úr fólki sér til gamans. Þjóðverjar reistu sex stórar útrýmingarbúðir, Chelmno, Belzec, Sobibor, Treblinka, Auschwitz sem hér er minnst og Majdanek. Þangað var fólk sem sagt flutt í gripavögnum frá öllum hornum Evrópu. Þegar komið var í búðirnar var fólki skipað í tvær raðir. Börn og konur í annarri og karlar í hinni. Læknar skoðuðu síðan fólkið og ákváðu hverjir áttu að deyja strax og hverjir áttu að fá að þræla til dauða. Þeim sem áttu að deyja var skipað að afklæðast og fara í sturtu. En sturtuklefarnir voru gasklefar þar sem fólkið var úðað með gasi og myrt.

Þjóðverjum og bandamönnum þeirra tókst að myrða um 11.000.000 í útrýmingarbúðunum fram að ósigri Nasista 1945.

1.100.000 þeirra voru börn.

Þegar “best lét” náðu Þjóðverjar að myrða 10.000 fanga á dag og brenna, bara í Auschwitz –Birkenau búðunum.

Um 7000 manns “störfuðu” í Auschwitz, flestir í SS sveitunum, Schutzstaffel. Lengi vel neituðu Bandamenn að trúa frásögum af útrýmingarbúðunum – þær voru einfaldlega of hræðilegar til að geta verið sannar. Enda var engin áhersla lögð á að stöðva fluttninga fólks í búðirnar með því að sprengja upp lestarteina eða einfaldlega búðirnar sjálfar. Eða kannski var áhuginn ekki fyrir hendi? Hver veit, um það er enn deilt. Og því héldu morðin áfram allt þar til er Sovétmenn ruddu burt morðsveitum Þjóðverja. Rétt áður en búðirnar féllu í hendur þeirra þann 27. Janúar 1945 voru flestir eftirlifandi fangar reknir í dauðagöngu.

Nú þegar 70 ár eru liðin frá frelsun síðustu fanganna í Auschwits minnumst við fórnarlambanna.

Um leið er rétt að velta fyrir sér hvernig menntuð og iðnvædd menningarþjóð eins og Þjóðverjar gátu framkvæmt öll þessi voðaverk og beitt til þess allri sinni þekkingu? Hvernig gátu læknarnir tekið þátt í morðum og pyntingum? Hvernig gátu venjulegir menn murkað lífið úr konum og börnum sér til gamans?

Síðast en ekki síst er vert að velta fyrir sér á tímum vaxandi kynþátthaturs og Gyðingahaturs í Evrópu, hryðjuverka og átaka menningarheima, hvernig við getum komið í veg fyrir að nokkuð þessu líkt gerist aftur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þórhallur Heimisson

Höfundur

Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson

Höfundur er sóknarprestur í Breiðholtskirkju og hefur stundað hjóna og fjölskylduráðgjöf um árabil. Hann hefur einnig stundað framhaldsnám í trúarbragðafræði 

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ISIS
  • image
  • image
  • Breiðholtskirkja vetur
  • 12308174 10206547354895816 7660961963820362976 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband