Þessi spurning barst mér fyrir nokkru:
Sæll.
Mér líður svo hræðilega illa. Það eru svo miklir erfiðleikar í hjónabandinu. Það virðist ekkert verahægt að gera. Við búum á stað þar sem er sama og engin þjónusta, þar að auki höfum við ekki efni á að fara til ráðgjafa.
Ég tek lyf, Anafranil. Maðurinn minn er svo harður og illur og reiður og uppgefinn. Samt getur hann haldið áfram, ég hins vegar hef íhugað að stytta líf mitt.
Ég á þrjú lítil börn og tvö fullorðin og einnig barnabörn. Ég er ekki heimsk, en ég er svo hrædd og þreytt og ein ég get ekki talað um þetta við neinn bara skrifað núna því þú sem lest þetta veist ekki hver ég er.
Það getur enginn talað við manninn minn, hann er bara þreyttur á mér og finnst ég aumingi. Ég drekk ekki, hef ekki drukkið í 20 ár og hætti að reykja fyrir 1/2 ári. Hann reykir ekki og getur drukkið í miklu hófi.
Ég hlýt að vera skelfilega eyðslusöm, því reikningarnir eru svo háir. Ég skil þetta samt ekki. Það er svo dýrt að versla í matinn og ég reyni svo sannarlega en tekst ekki. Yrði ekki bara betra fyrir hann að vera án mín. Ef eitthvað svo afdráttarlaust gerist hjálpar fólk. Við vorum bæði í öðru hjónabandi áður og ég get ekki gengið í gegn um annan skilnað.
Og svona reyndi ég að svara:
Heil og sæl og takk fyrir bréfið.
Ég sé á bréfinu þínu að það er margt sem hvílir á þér og ykkur, manninum þínum og fjölskyldunni.
Þú segir að þér líði illa, að erfiðleikar séu í hjónabandinu og að fjármálin séu í hnút. Nú þekki ég auðvitað ekki ykkar aðstæður en finn að þú kennir sjálfri þér um margt af því sem að er. Samt er maðurinn þinn harður og illur og reiður og uppgefinn eins og þú segir sjálf. Þú telur þig heldur ekki sjá neina leið út úr vandanum, hefur engan til að tala við og ert búinn að vera að velta því fyrir þér hvort lífið sé þess virði að lifa því.
Þess vegna vil ég byrja á því að segja þér að leiðin út er til.
Það er bara þannig að þegar maður er fastur í myrkum hugsunum, þá á maður svo erfitt með að sjá ljósið út úr myrkrinu, sérstaklega ef maður hefur engan til að tala við eins og þú segir sjálf.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.