Íslam - tíundi hluti: Kenningin

Súlurnar fimm.    

1. Það er frumskylda múslíma að biðja fimm sinnum á dag í átt til hins helga Kaba steins í Mekka. Fyrst vildi Múhameð að fylgendur hans sneru sér til Jerúsalem í bæn, en breytti því til að undirstrika sjálfstæði átrúnaðarins gagnvart kristnum og gyðingum.

 

2. Sérhver múslím á að fasta í hinum helga mánuði Ramadan frá sólarupprás til sólseturs.

 

3. Og hann á að reyna að komast til Mekku í pílagrímsferð alla vega einu sinni á æfinni.

 

Fyrst bauð Múhameð reyndar fylgendum sínum að fasta að hætti gyðinga, en hætti því eftir að slóg í brýnu milli þeirra og hans, þegar gyðingar hæddu hann með því að hann þekkti ekki kenningu þeirra nægilega vel.

        

4. Múslím á að gefa sig heils hugar að trúnni og hafa yfir trúarjátninguna opinberlega í votta viðurvist en hún hljóðar svo :"Enginn Guð er til nema Guð og Múhameð er spámaður hans".

 

5. Allir áttu að gefa ölmusu, "zakat", og með ölmusunni átti þjóðfélagið að ala önn fyrir fátækum.

 

Þessar fimm skyldur eru kallaðar "súlur íslam", þ.e. fastan, pílgrímsferðin, játningin, ölmusan og bænin. Má segja að þær séu í stuttu máli kjarni átrúnaðarins.

         Sumir vilja reyndar bæta við sjöttu "súlunni", hinu heilaga stríði eða jihad. Samkvæmt því skifta múslímar heiminum í tvær fylkingar, heim íslam "Dar al-Islam", og heim stríðsins "Dar al-Harb". Samkvæmt Kóraninum ber öllum múslímum skylda til að berjast gegn fjölgyðistrúnni í hverri mynd, og einnig fyrir því að hinir kristnu og gyðingar sýni undirgefni með því að borga skatt. En þeim er stunda fjölgyðistrú á að útrýma. Skýrir það hatrömm trúarbragðastríð í Asíu allt til þessa dags þar sem eingyðistrú íslam mætir fjölgyðistrú hindúa. Sérstaklega er Kóraninn á móti þeim er engu trúa, guðleysingjum hverskonar, hvort sem það nú á dögum  eru efahyggjumenn, kommúnistar eða búddistar, en búddistar trúa  ekki á neinn guð og því "engu" segir eingyðistrúarmaðurinn. Þess vegna voru Sovétríkin ekki bara afla myrkursins í augum Regans forseta á sínum tíma, heldur ekki síður múslíma sem álitu kommúnistastjórnina í Moskvu sæti Djöfulsins.

        

     Guð.

Hinn sanni Guð er  einn, alvaldur, alnálægur og ræður öllu. Enginn og ekkert er honum jafnt. Öll fjölgyðistrú og allt trúleysi er því andstyggilegt athæfi í augum múslíma. Guð stjórnar jörðinni í gegnum skapaða menn, fulltrúa sína, og jörðin var sköpuð mönnunum til góðs. Guð ákveður örlög sérhvers manns. Að lokum mun dómsdagur renna þegar veröldin dæmist af Guði. Þá munu undur og tákn sjást, Jesús mun snúa aftur eins og sá spámaður sem hann er og eldurinn mun smala fólki að sæti hins hinsta dómara. Guð er hið endanlega, handan alls sem er. Guð er að eðli til annað en veröldin og verður aldrei hluti hennar. Því telja múslímar kenningu kristinna manna um holdtekningu Guðs í Jesú sem lesa má  um í jólaguðspjallinu, villutrú. Ekki er hægt að skilgreina eðli Guðs því eðli hans er ekki til í veröldinni. Nöfn Guðs eru mörg og birtast í Kóraninum. Samkvæmt hefðinni eru þau 99 talsins og fela þau ein í sér skýringu á hinu óskýranlega eðli hans

 

     Spámaðurinn.

Kóraninn gengur út frá því að næst á eftir kenningunni um eðli Guðs komi kenningin um spámanninn. Guð hefur gert hæfileikann til spámennsku að kjarna hins mannlega eðlis. Hann hefur sent 144.000 spámenn til allra þjóða heimsins og allir hafa fengið að heyra um Kóraninn. Er það reyndar sami fjöldi og .i.vottar Jehóva ;kenna að muni frelsast á dómsdegi, en það er önnur saga. Guð útvelur spámenn sína og þeir eru af ýmsum toga. Sumir flytja litlar fréttir fyrir lítið fólk í daglegum aðstæðum, aðrir eru boðberar hins mikla sannleika trúarinnar. Þeirra fremstur er spámaðurinn Múhameð. Opinberun spámannsins er skilin sem boðskapur er hann fær beint frá himnum fyrir tilstilli engla. Þar koma menn hvergi nærri. Múhameð er hinn hinsti spámaður Guðs því boðskapur hans og vilji birtist endanlegur í Kóraninum. Enginn spámaður mun birtast eftir hann.

 

     Englar.

Í Kóraninum er mikið talað um engla. Englar hafa þar margþættu hlutverki að gegna. þeir eru sendiboðar Guðs og flytja mönnum opinberun hans. Þeir koma líka til jarðarinnar og taka  við sálum mannanna á dauðastundu. Mikill fjöldi engla er til í hinni himnesku hirð. Englarnir eru fulltrúar hins góða. Hið illa í heiminum kristallast í Djöflinum, .i.Al-Iblis;, sem var eitt sinn engill, en gerði uppreisn gegn Guði og var varpað til jarðar eins og reyndar segir frá í spádómsbók Jesaja í Gamla Testamentinu. Auk englanna eru til .i.jinn; sem eru andleg máttarvöld í heiminum en eru skör lægra settur en englar. Englar eru himneskir þjónar Allah.

        

 

     Maðurinn og hlutverk hans.

Maðurinn, karl og kona, standa andspænis Guði sem þjónar hans í heiminum. Guð skapaði fyrsta manninn, Adam, úr leir og blés honum lífsandann. Guð sagði síðan manninum nafn allra hluta. Maðurinn er þannig ekki skapaður í Guðs mynd eins og kristin trú kennir, og maðurinn er ekki samverkamaður Guðs sem í Biblíunni. Í sköpunarsögu Biblíunnar lætur Guð aftur á móti manninn gefa öllum dýrum nafn. Þetta, hver það er sem gefur öllu í tilverunni nafn, er mikilvægara en virðist svona við fyrstu sýn. Sá sem gaf nafn í hinum semitíska heimi (araba og gyðinga) hafði vald yfir því er hann nefndi. Samkvæmt Kóraninum er það Guð sem nefnir og hefur valdið yfir öllu í heiminum. Samkvæmt Biblíunni er það maðurninn sem nefnir hlutina og fær þannig vald yfir hinni sköpuðu veröld. Kóraninn undirstrikar þennan mun með því að segja að maðurinn sé í réttu sambandi við Guð sinn þegar hann verkar sem þræll Guðs í heiminum “.i.abd -Allah;”. Að vera sannur maður er að vera sannur þræll Guðs.  Kóraninn og íslömsk hefð kenna að karl og kona eigi að uppfylla hvort annað í samfélaginu sem þrælar Guðs í heiminum. Þeim er þannig ætlað hvort sitt hlutverk og þau eiga ekki að vera í samkeppni um sömu þjóðfélagsstöðu og ábyrgð. Hlutverk konunnar er að varðveita og annast fjölskylduna og heimilið, ala upp börnin og búa þeim góðan stað heima. Karlmaðurinn á aftur á móti að vinna og uppfylla efnahagslegar þarfir fjölskyldunnar. Hann á að “skaffa” svo notuð sé góð íslensk líking. Það þýðir ekki að konan eigi ekki líka að vinna fyrir heimilinu, en þó undir stjórn karlmannsins.  Kynlífið er heilagt þó að hjónavígsla sem slík sé ekki heilög athöfn heldur sáttmáli tveggja fjölskyldna. Fjölkvæni er leyfilegt undir vissum kringumstæðum ef allir aðilar eru sammála og ef komið er fram af fullum lagalegum rétti gagnvart öllum konunum sem hlut eiga að máli. Þar er fordæmi spámannsins mikils virði en hann átti margar konur. Allt kynlíf sem ekki fellur að hinu hefðbundna hlutverki fjölskyldunnar og karls og konu, er bannað. Því fylgja strangar refsingar að brjóta þau bönn. Hórdómur eða framhjáhald,  samkynhneigð og allt lauslæti er dauðasök. Þó þarf vætti fjögurra karlmanna að brotinu til að brot teljist sannað. Vætti kvenna er ógilt. Áherslan á mismunandi hlutverk kynjanna er undirstrikuð með aðgreiningu þeirra á opinberum vettvangi og með því að konur bera blæju. Þó blæjan sé ekki nefnd í Kóraninum, þá er hennar getið í sunnunni, eða bók hefðanna. Íslam krefst þess að konur séu hógværlega klæddar og að þær hylji “skartgripi” sína  öðrum en eiginmanni sínum. Skartgripir kvenna eru líkami þeirra og hár.

        

     Lög og reglur.

 Samfélagið er það sem öllu skiptir og lög þess. Sá sem brýtur á einhvern hátt gegn samfélagi ummunnar, hinu íslamska samfélagi í heiminum, er í vondum málum. Refsing allah vofir yfir honum og refsiákvæði hins æfaforna lögmáls er segir “auga fyrir auga og tönn fyrir tönn”. Múhameð vildi sameina alla araba undir vald hins eina lögmáls. Lögmálið er algilt og allir eru jafnir fyrir því eins og það birtist í Kóraninum. Auðvitað hafa valdamenn í aldanna rás reynt að koma sér undan þessari hörðu jafngildisreglu. En yfir þeim hefur þá vofað dómur allah á hinum efsta degi. Og hvort sem menn nú fylgja lögmálum hans eður ei, þá eru allir í hendi hans, því allah hinn alvaldi hefur úthlutað öllum sín örlög og undan þeim kemst enginn. Allar hugmyndir um aðskilnað ríkis og átrúnaðar eru því fjarstæða í hugum múslíma. Það er bara til eitt samfélag og það lýtur lögmáli Allah.

Moskan, helgistaður múslíma, er kjarni alls samfélagsins, bæði hins andlega og veraldlega. Orðið “Moska” þýðir staðurinn þar sem menn leggjast flatir. Þar safnast menn til bæna og þar fengu menn á fyrri tíð úthlutað dagskipunum frá hinu veraldlega valdi, sem jafnframt hafði umsjón með hinu andlega. Fræg er sagan af einum af kalífunum í Bagdað sem í lok föstudagsbænarinnar leit yfir söfnuðinn og sagði “hér standa nokkrir hausar upp úr hópnum sem bráðum munu fjúka og blóðið mun streyma um skegg ykkar og háls”. Og það varð raunin, því úti beið aftökusveit eftir andskotum kalifans sem höfðu tekið þátt í bænahaldinu með honum

          Íslam þýðir undirgefni undir Allah og lögmál hans eins og ég sagði frá í síðasta þætti. En sjálft orðið "íslam" felur í raun í sér mun dýpri merkingu en kemur fram í þýðingunni "undirgefni. Sú dýpri merking skýrir vel hvað felst í hugmyndinni um hið algilda lögmál Allah í heiminum. Arabíska ritmálið byggir á samhljóðum eins og hebreskan. Öll orð sem gerð eru úr sömu samhljóðunum eru skyld eða samstofna og fela í sér tengda merkingu.  Samhljóðarnir í "íslam" eru S, L og M, hinir sömu og í hugtakinu Salem, sem aftur merkir friður, eining og kyrrð. Salem er sá friður sem mun ríkja þegar Allah hefur tekið völdin í heiminum og dæmt andstæðinga sína á degi dómsins. "Friður sé með þér" er heilsan Araba er þeir hittast, ósk um að samhljómur megi ríkja hjá þeim er þeir mæta á lífsins leið. Íslam merkir þannig einnig "samhljómur og friður". Það leiðir því af sjálfu sér að eins og Guð er einn og ræður öllu, þannig er íslam hugtak sem nær til alls samfélags manna. Og hið sama gildir um þann sem er múslím. Orðið múslím hefur sama stofn og íslam og salem. Múslím er  sá sem lifir í samhljóman við tilveruna eins og Allah hefur sagt fyrir um að hún eigi að vera.        

Þannig eiga allir að sýna hver öðrum vinsemd, sérstaklega eiginmenn eiginkonum sínum. Ill meðferð á konum sundrar fjölskyldunni og þar með samhljómi samfélagsins. Öll neysla fíkniefna er bönnuð, því fíkniefni brjóta niður eininguna og friðinn. Karlmenn mega eiga allt að fjórum konum og konur eru verndaðar samkvæmt lögunum þó öðru vilji gegna í raun. Valdsmenn hafa iðulega tekið sér margfalt fleiri konur og hneppt þær í þrældóm, en það er ekki samkvæmt boðum kóransins. Spámaðurinn Múhameð var sjálfur álitinn fyrirmynd í siðferðismálum og stjórnskipan. En eftir því sem tímar liðu og stjórnarrekstur hverskonar varð flóknari í hinu víðfeðma íslamska veldi, urðu menn að leita frekari leiða til þess að túlka lög Kóransins.

Þannig urðu til fjórar greinar, eða "rætur", þess lagasafns sem í dag er undirstaðan undir þjóðfélgsskipan íslamskra ríkja.

Fyrsta rótin er að sjálfsögðu Kóraninn .

Önnur rótin er hefðin, eða “al-sunnah” ,það hvernig menn hafa túlkað Kóraninn áður. Sérstaklega er mikilvæg túlkun fyrstu fjögurra kalífana sem tóku við af Múhameð. Þeir höfðu allir umgengist hann og heyrt hann mæla og því er tekið meira mark á þeim en öðrum. Að sjálfsögðu skiptir túlkun Múhameðs á lögmálinu miklu máli, og hitt ekki síður hvernig spámaðurinn lifði lífi sínu og sýndi öðrum fordæmi. Allt er þetta hluti sunnunnar, hefðarinnar.

Þriðja rótin er samanburðurinn, þar sem menn reyna að dæma ný ágreiningsmál sem upp koma með því að bera þau saman við dæmi Kóransins og sunnunnar.

Í fjórða lagi er svo samdóma álit ummunar eða íslamska samfélagsins sem sker út  um hvað eru hin réttu lög. Þannig spanna ræturnar fjórar öll svið þjóðlífsins, fjölskyldurétt, einkarétt, refsirétt, hjúskaparrétt, og opinbera stjórnsýslu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þórhallur Heimisson

Höfundur

Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson

Höfundur er sóknarprestur í Breiðholtskirkju og hefur stundað hjóna og fjölskylduráðgjöf um árabil. Hann hefur einnig stundað framhaldsnám í trúarbragðafræði 

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ISIS
  • image
  • image
  • Breiðholtskirkja vetur
  • 12308174 10206547354895816 7660961963820362976 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 8777

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband