Þegar gullið skellur í skrínu

Minnir á vísu aflátssalanna gömlu:

"Þegar gullið skellur í skrínu

skreppur sálin úr eldsins pínu"


mbl.is Fyrirbænir fyrir þúsundir seldar á Hópkaupum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árangur - með jákvæðni

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um neikvæðni í íslensku samfélagi og samskiptaaðferðir sem tala allt niður í svartsýni. Andinn er eftir því á landinu og mörgum sem líður illa .

Á komandi hausti mun ég bjóða fyrirtækjum, stofnunum og starfshópum upp á nýtt námskeið sem hefur það að markmiði að efla og styrkja starfsandann og auka árangur á vinnustað samhliða því að hver starfsmaður nær betri árangri í starfi og einkalífi. En árangur og vellíðan í einkalífi skilar sér í árangri og vellíðan á vinnustað.

Kallast námskeiðið ÁRANGUR - MEÐ JÁKVÆÐNI.

Jákvæðni, góður starfsandi og alúð í garð þeirra sem starfað er með og fyrir er sett í forgrunninn. Árangur er þannig mældur í vellíðan starfsmanna sem á endanum eykur árangur fyrirtækisins eða stofnunarinnar.

Sem aftur hefur jákvæð áhrif út í samfélagið.

 

Námskeiðið skiptist í eftirfarandi þætti:

1. Í fyrsta þætti er skoðað hvað í því felst að ná árangri.

Hvað erum við að tala um þegar við tölum um árangur? Rætt verður við um hvaða skilning starfsmenn leggja í þetta fyrirbæri- árangur. Skoðuð verður leið útrásarvíkinganna og hugmyndafræði liðinna ára – og hún borin saman við þá hugmynd að hægt sé að ná árangri í lífinu, og rekstri fyrirtækja og samfélags, með allt öðrum gildum – með góðu og með jákvæðni.

2. En hvað er þá hið góða og hvað er að vera jákvæður?

Um það fjallar annar þáttur námskeiðsins. Af hverju gerum við helst hið góða? Hvernig verður eiginlega siðferðislegt mat okkar til í hinu hversdagslega? Af hverju hjálpum við t.d. manni sem hnígur niður úti á götu, hringjum í 112, en skiljum hann ekki bara eftir? Og þegar við eigum loksins frí eftir erfiða viku og ætlum að sofa út á laugardagsmorgni og nágranni okkar vekur okkur kl.07.30 með nýju háværu sláttuvélinni sinni..........hvers vegna skjótum við hann ekki?

Ég mun kynna verkfæri sem við getum notað í hinu daglega siðferðisamstri til að auka jákvæðnina og hina góðu siðferðisvitiund: siðavenjur og samfélagsleg viðmið, skynsemi okkar, samvisku, samkenndina, og samferðafólk okkar sem getur hjálpað okkur og leiðbeint.

3. Er samasemmerki milli þess að vera veikburða, ístöðulítill og vanmátta og þess að vera góður og jákvæður?

Um það verður rætt í þriðja þætti. Hvenær sýnum við falska jákvæðni? Og af hverju? Er það bara hinir heimsku sem eru góðir? Eða verðum við misnotuð ef við vinnum út frá hinu góða? Sem leiðir yfir í vangveltur um góðmennsku og það að gera hið góða, góðmennsku og kjark, og það að vera góður við sjálfan sig.

4. Og þá er komið að aðferðafræðinni.

Fjórði þáttur fjallar um gjafmildi. Borgar það sig að vera gjafmildur? Að gefa af sér? Og þá hvernig? Gefum hrós, gefum stuðning, gefum af okkur í samskiptum, sambúð, samvinnu, gagnrýni. Hvert leiðir það?

5. Fimmti þáttur fjallar um að sjá aðra, taka eftir þeim og setja þá í forgang.

Að vera nærri í raun, hlusta og láta sig aðra varða. Borgar það sig fyrir okkur? Hvernig? Og hvert leiðir það.

6. Sjötti þáttur námskeiðsins fjallar um deilur og hvernig við leysum þær.

7. Sjöundi þáttur fjallar um ábyrgð.

Getum við sýnt ábyrga hegðun sem kemur okkur til góða með því að koma öðrum til góða? Hvernig hjálpar það okkur? Að bera ábyrgð. Að taka ábyrgð andstætt því að kenna öðrum um. “I didn´t do it” siðfræðin andstætt ábyrgð. Hvað gerir það fyrir fyrirtækin? Og hvernig getum við tekið ábyrgð?

8. Áttundi og síðasti þáttur námskeiðsins bendir á hvernig hægt sé að breyta lífi sínu, breyta um stefnu og jafnvel breyta fyrirtækjarekstri og samfélaginu í þá átt sem hér er bent á. Til þess að ná árangri – með jákvæðni.

Bent verður á nokkur “tæki” til þessa og hvernig við sjálf getum lagt okkar að mörkum – og hver “gróðinn” verður á endanum.

 


Hjónaráðgjöf og fræðslumiðstöð í Reykjavík og á Akureyri - skráning hafin.

Eins og ég hef áður sagt frá hér og víðar, mun ég opna Hjónaráðgjöf og fræðslumiðstöð í Reykjavík og á Akureyri í byrjun september á komandi hausti.

Þar sem tíminn líður hratt og margir hafa þegar sent mér fyrirspurnir, geta áhugasöm pör nú pantað tíma í viðtöl með því að senda mér línu á thorhallur33@gmail.com.

Fræðslumiðstöðin opnar fyrstu vikuna í september. Nánar verður sagt frá hjónanámskeiðum haustsins og fyrirtækjanámskeiðum þegar nær dregur.

 


Hjónaráðgjöf og fræðslumiðstöð í Reykjavík og á Akureyri

Allir vilja verða hamingjusamir. Hamingjan er reyndar fyrirbæri sem erfitt er að skilgreina, því hver og einn hefur sína skoðun á því hvað hamingja sé. Þó er hægt að vera nokkuð viss um það, að allir sem ganga í hjónaband gera það í þeirri trú og von að hamingjan sé þeirra. Hver og einn bindur miklar vonir við hjónabandið. Og þegar allt gengur upp þá rætast margir af draumunum sem tengdust ástinni er leiddi makana í hjónaband. Því auðvitað er það ástin sem ræður ferðinni þegar par ákveður að gifta sig.

Af því að það er ástin sem ræður ferðinni, verða vonbrigðin mikil ef svo fer að draumarnir um hamingjuna rætast ekki í hjónabandinu. Stundum er það reyndar þannig að væntingarnar og draumarnir sem makarnir koma með inn í hjónabandið eru mismunandi og þess vegna koma upp árekstrar strax frá fyrstu stundu. Einhverjir halda ef til vill að makinn einn og sér framkalli hamingjuna og þegar í ljós kemur að hjónaband er eitthvað sem báðir aðilar þurfa að vinna að til þess að það blessist, þá eru margir sem gugna og gefast upp. Ég gleymi aldrei náunganum sem ég ræddi eitt sinn við um þessi mál. Hann vildi skilja við konuna sína af því að konunni datt aldrei neitt skemmtilegt í hug og honum fannst sambandið hundleiðinlegt. Sjálfum datt honum náttúrulega aldrei neitt í hug, ekki einu sinni að hann gæti nú e.t.v. líka gert eitthvað til að lífga upp á tilveruna. Hjónaband er samvinna, samvinnufyrirtæki gætum við kallað það, þar sem báðir aðilar verða að leggja sitt að mörkum ef dæmið á að ganga upp. Það geta síðan verið ýmsar ástæður fyrir því að dæmið gangi ekki upp. Mörg hjónabönd lenda í gildru vanans, hjón fjarlægjast hvort annað, nota hvort annað sem ruslafötur fyrir þreytu og vonbrigði, deila um allt milli himins og jarðar eða byggja þagnarmúra í kringum hvort annað og heyja orustur í hjónarúminu með kynlífið að vopni.

En er þá ekkert til ráða ef erfiðleikarnir taka að hrannast upp í hjónabandinu?

Nú er það auðvitað svo að öll hjónabönd lenda einhverntíman í erfiðleikum. En ef sambandið er traust geta erfiðleikarnir orðið til þess að styrkja sambandið og gera það betra en áður var. Hjónin verða þannig reynslunni ríkari. Mörgum tekst að vinna úr tímabundnum erfiðleikum og deilum án utanaðkomandi aðstoðar. En allt of mörg pör sem þyrftu á aðstoða að halda, leita sér ekki hjálpar fyrr en í óefni er komið. Mörgum finnst það einhver aumingjaskapur að þurfa á ráðgjöf að halda. Þetta þykir mér alltaf skrítið viðhorf, því ef fólk t.d. veikist alvarlega eða lendir í slysi er talið sjálfsagt að leita sér læknis og taka þau meðul sem læknirinn mælir fyrir um.

Ef aftur á móti hjónabandið „veikist alvarlega” þá er eins og mörgum þyki það einhver skömm að leita sér lækningar. Staðreyndin er aftur á móti sú að oft er nauðsynlegt að fá aðstoð utanaðkomandi aðila til að ræða málin. Hjón geta verið svo föst í eigin deilum að þau sjá ekki útgönguleið og lausn sem þriðji aðili getur bent á.

 

Ef hjónabandi ykkar er í kreppu, þá skulið þið vera ófeimin að leita ykkur aðstoðar fyrr en seinna. Það er enginn aumingjaskapur, heldur þvert á móti sýnir það kjark að vilja berjast fyrir fjölskyldu sinni, hjónabandi og hamingju. Þetta er nefnilega ykkar hjónaband, ykkar hamingja og enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Sjálfur hef ég átt mörg samtöl við hjón og sambúðarfólk í gegnum árin.

Á komandi hausti mun ég kynna nýja hjóna og fjölskylduráðgjöf sem ég ætla að hleypa af stokkunum bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Endilega sendið mér línu ef þið hafið áhuga á að vita meira.

Pósturinn er thorhallur33@gmail.com


Framhjàhald

image

 

(Tekið skal fram að nöfnin í þessum pistli eru tilbúin, en byggt er á raunverulegum reynslusögum)

 

Maríu er mikið niðri fyrir. Hún fær sér sæti í sóffanum í viðtalsherberginu og byrjar að gráta. Maðurinn hennar er niðurlútur, flóttalegur, segir ekkert en horfir vandræðalega út um gluggann. Svo sest hann við hlið konu sinnar. Eftir að hafa grátið í nokkurn tíma, nær María tökum á grátnum og segir með ekka: „Traust og trúnaður er mikilvægasti hluti hjónabandsins hefði ég haldið. Við Eyvi, Eyjólfur maðurinn minn, hétum hvort öðru því að vera trú þegar við giftum okkur, eða það minnir mig alla vegana! Ég hélt alltaf að við værum sammála um hvað trúnaður þýddi. Að enginn ætti að fá að komast upp á milli okkar! Að kynlífið, nálægð og heiðarleiki ætti að tengja okkur saman. Að við værum bara fyrir hvort annað. Ég get ómögulega skilið á milli andlegs og líkamlegs trúnaðar. það eru bara tvær hliðar á sama máli. Þess vegna finnst mér það svo sárt að hann skuli hafa svikið mig, haldið framhjá mér“.

 

Brostinn trúnaður

Flestir eru án efa sammála Maríu. Traust og trúnaður eru grundvallaratriði í hverju sambandi. Samt vitum við að bæði karlar og konur brjóta þennan trúnað. Kannanir sýna að ákveðinn hluti karla og kvenna hafa átt í ástarsamböndum samhliða sambúð eða hjónabandi. Fæstir í sambúð eru kannski hissa á þessu. Það kostar bæði vilja og staðfestu að vera trúr. Og þó að bæði vilji og staðfesta séu fyrir hendi, þá dragast bæði karlar og konur að öðrum en maka sínum, gefa öðrum auga, daðra, „svona í mesta sakleysi“. Það væri kannski allt í lagi að viðurkenna þessa staðreynd, það eitt og sér myndi fyrirbyggja framhjáhald. Því oft er það einhver óljós spenningur sem er kveikjan að framhjáhaldinu, spenningur sem aftur breytist í samviskubit og vanlíðan hjá mörgum eftir að framhjáhaldið hefur átt sér stað. Á ýmsum tímabilum lífsins þramma margir í gegnum sprengjusvæði hvað þetta varðar, meðvitað og ómeðvitað. Freistingarnar leynast víða. Og margir framkvæma þá þvert á fyrri heit. Framhjáhald er eitt það versta sem komið getur fyrir samband og leiðir margt illt af sér. Það ætti enginn að hafa framhjáhald í flimtingum. Framhjáhald hefur eyðilagt allt of mikið bæði fyrir einstaklingum og heilu fjölskyldunum til þess.
Stundum halda menn því fram að hliðarspor í hjónabandinu sé nú bara ágætt og til þess fólgið að hleypa nýjum eldi í kulnaðar glæður. Aðrir segja að það sé jafnvel hollt og til marks um sjálfstæði parsins í sambandinu og umburðarlyndi. En þau pör sem hafa upplifað framhjáhald í sínu eigin sambandi myndu ekki lýsa því svona fjálglega. Framhjáhald er rótin að gagnkvæmri vantrú, afbrýðisemi og biturleika. Þegar traustið er rofið eiga flestir erfitt með að vinna sig út úr ástandinu sem skapast. Að halda áfram í sambandinu krefst gríðarlegrar vinnu.

 


María og Eyjólfur

„Við verðum að fá að tala við einhvern“ sagði María. „Við erum búin að tala og tala um þetta og ég þoli þetta ekki lengur“. Þau eru í kringum fertugt hjónin og segjast og eiga þrjú börn. Ég spyr Eyjólf hvað hefði komið fyrir. Fram til þessa hefur hann þagað, en nú er eins og að hann vakni. Eyjólfur segir frá því í mestu rósemi að hann hefði verið í viðskiptaferð á vegum fyrirtækisins sem hann starfar fyrir, og í þeirri ferð hefði hann haldið framhjá. Það hafi verið gleðskapur í hópnum að loknum vinnudegi og eitt hafi leitt af öðru. Ein konan í hópnum sem hann hafði unnið með lengi og þekkti vel og svo hann………….., ja, þetta bara gekk svona. Þetta hafi verið ein nótt og hann hafi ekkert meint með þessu, þetta bara gerðist. Samt hafði þetta ekki verið neitt slys, hann vissi alveg hvað hann var að gera, og samstarfskonan líka. Þegar hann kom heim aftur, hefði hann ekki getað sagt Maríu strax frá því sem hafði gerst. Hann vissi ekki þá hvað hann ætti að gera, hefði gefið sér góðan tíma til að hugsa málið. En svo gat hann ekki þagað um þetta lengur og þá sagði henni „leyndarmálið“. Þó að Eyjólfur segi rólega frá í fyrstu, þá á hann greinilega erfitt með að tala um það sem gerðist.
María segist hafa fengið lost þegar hún heyrði hvað hafði gerst. „Ég var miður mín, fannst ég hafa verið svikin og leið eins og einhver hefði traðkað á mér með skítugum skónum. Mér finnst ég einhvervegin vera skítug, og Eyjólfur líka, sérstaklega hann! Ég get ekki snert hann. Ég er ofsalega reið, ofsalega sár”. Svo byrjar hún að gráta á nýjan leik.

 


Framhaldið

Þetta samtal okkar varð síðan upphafið að mánaðarlöngu ferli, þar sem við hittumst reglulega, ég, María og Eyjólfur, til þess að ræða málin og finna flöt fyrir þau að halda áfram í sínu hjónabandi. Það vildu þau bæði, þrátt fyrir allt. Þó var María ekki alltaf jafn viss með það og sveiflaðist frá löngun til að sættast yfir í hatur á manni sínum. Eyjólfur vildi meina að hann hefði gert hreint fyrir sínum dyrum og taldi best „byrja upp á nýtt“ eins og hann orðaði það. Hann vildi alls ekki skilnað. En þar var María eins og fyrr segir oft á öðru máli þó svo að hún hefði samþykkt að koma og ræða við ráðgjafa.
Viðbrögð hennar voru mjög sterk og svo fór að hún sá eiginlega engan tilgang í því að búa áfram með Eyjólfii. Framhjáhaldið hafði líka gerst einmitt á því tímabili þegar henni hafði fundist sér liði betur en um langt skeið þar á undan. Það varð til þess að magna vonbrigðin og svikin í hennar huga. María sagði í þessum samtölum að hún væri í raun örvæntingarfull, fyndist allt lífið vera hrunið. Hún upplifði sig sem fórnarlamb! Hún sagði að í hvert sinn sem Eyjólfur færi að heiman, fylltist hún af angist, afbrýðisemi og svartsýni sem tæki frá henni allan þrótt og alla lífsgleði. Hún var líka reið yfir því að þetta skildi koma svona hart niður á henni, að sér liði svona illa. Var það ekki Eyjólfur sem hafði svikið hana? Átti hann þá ekki að þjást meira en hún? Hann var bara leiður yfir því að hún tæki þessu svona illa og að hún vildi stöðugt vera að tala um þetta aftur og aftur, að hún vildi fá að vita nákvæmlega hvað hefði gerst, hvernig allt hefði verið, hvernig þau „hefðu gert það”, hvort hann elskaði þessa mellu o.s.frv. .

Þetta tal Eyjólfs þoldi María aftur á móti ekki að heyra. Hvers vegna gat hann ekki skilið hana? Og svo fannst henni Eyjólfur ekki sjá nógu mikið eftir því sem hann hafði gert. Hann var vissulega fullur iðrunar upp að vissu marki, en hélt fast við að hann tæki fulla ábyrgð á því sem hefði gerst. Hann var sem sagt leiður yfir því að það sem hann hafði gert skyldi koma svona niður á hjónabandi þeirra Maríu. En framhjáhaldið var ekkert slys eins og hann hafði líka sagt mér. Hann vildi það sjálfur þegar það gerðist. Það gat María ekki fyrirgefið honum og tók þennan punkt upp aftur og aftur. Í svona aðstæðum mætti ætla að flestir einfaldlega skildu, að engin von væri fyrir sambandið. En María og Eyjólfur ákváðu samt að reyna áfram í ákveðinn tíma. Þess vegna höfðu þau reyndar leitað sér ráðgjafar til að byrja með, þó svo að Maríu fyndist eitt um hjónabandið eina stundina og annað þá næstu. Eyjólfur grátbað Maríu um að treysta sér en það var til of mikils mælst á þessu stigi sagði hún. Hann gerði sér loksins grein fyrir því að hann hefði stofnað öllu lífi þeirra í voða.

María og Eyjólfur eru ekkert einstök. Þeirra fjölskylda gekk í gegnum erfiðleika sem margar fjölskyldur þekkja og hafa reynt. En hvað veldur því að slíkt gerist? Hér eru nokkrar óvísindalegar vangaveltur um ástæður framhjáhalds sem hver og einn lesandi getur íhugað með sjálfum sér.

 

Væntingar

Öll berum við ákveðnar væntingar til hjónabands og sambúðar. Við væntum þess t.d. að í hjónabandinu okkar munum við eignast maka sem elskar okkur og sýnir okkur vináttu. Við vonumst eftir tryggð og trúnaði í sambandinu okkar og eftir fullnægjandi kynlífi. En lífið verður sjaldan eins og væntingarnar sem við gerum okkur til þess. Og iðulega er það svo að þó að við komum inn í samband með okkar drauma og vonir, þá þekkjum við ekki til væntinga og drauma maka okkar.

 

Hversdagurinn

Ástarbriminn og spenningurinn sem við fundum fyrir í upphafi sambúðarinnar eða þegar við fyrst urðum ástfanginn minnkar með tímanum. Vaninn og grámygla hversdagsins fyllir dagana og næturnar með. Og flestir hafa í nægu að snúast. Börnin, vinnan, áhugamálin og heimilishaldið tekur allan tímann frá okkur og lítill tími er aflögu fyrir ástarsambandið. Þannig líður flestum á vissum tímabilum lífsins. En við getum vanist flestu og reynt að lifa af þessi erfiðu tímabil sem allir ganga í gegnum, meira að segja þó að það þýði að draumar okkar rætist ekki eins og við hefðum þó viljað. Þannig lifa margir lífi sínu, áfallalaust að mestu, við kaffiþamb og sjónvarpsafþreyingu. Kynlífið er slappt þegar best lætur en ekkert þess á milli. Hrynjandi hversdagsins gefur okkur öryggiskennd og tilgang með lífinu og það er okkur og börnunum okkar mikilvægt.

En eitthvað vantar…………..

 

Spenna í lífinu

Bæði konur og karlar geta meðvitað og ómeðvitað óskað sér innst inni annarrar tilveru en þeirrar sem hér var dregin upp. Hversdagslífið nægir ekki. Þau vilja lifa fjölbreyttara lífi, vilja hafa spennu og eftirvæntingu í tilverunni og spyrja sig efalasut oft yfir uppvaskinu, í röðinni í bankanum eða þegar börnin halda fyrir þeim vöku með gráti: „Var þetta allt og sumt sem lífið hafði upp á að bjóða?“
Lífsgildi mælast ekki aðeins í peningum heldur einnig í hamingju sambúðar. Hamingjuleitin er drifkraftur lífsins. Áhrif frá fjölmiðlum og auglýsingum ýta undir óánægjuna og trúnna á að til sé eilíf hamingja og eilífur ástarbrimi. Margir gefast upp á því að finna það sem þeir eru að leita að í því sambandi sem þeir eru í. Þeir upplifa þar aðeins bæði tilbreytingarleysi, einmanaleika og skort á skilningi leita því uppi annan félaga. Og þar með er framhjáhaldið staðreynd. Þráin eftir hlýju og spennu hrekur mann burt frá þeim sem ætti að vera manni næstur. Þannig hefur samfélag við vinnufélaga af gagnstæðu kyni orðið mörgum hjónaböndum ógnun, sérstaklega þar sem haldin eru makalaus vinnustaðapartý og veislur. Vinnufélaginn er alltaf hress og spennandi og gerir ekki þær kröfur sem heimilið gerir. Framhjáhald verður síðan að veruleika án þess að viðkomandi endilega hafi ætlað sér það. Eða hvað?

Það eru aftur til þeir sem í samtölum við hjónaráðgjafa segja að þeir hafi fyrst uppgötvað hvað það var sem þeir söknuðu í sambúð sinni þegar þeir héldu framhjá. Þess vegna eru þeir í raun hissa á eigin framkomu. Um leið kenna þau maka sínum um hvernig komið er , alla vega að hluta til og segja : „Ég hef ekki fengið það út úr sambandi mínu við maka minn sem ég vildi. Þess vegna tók ég þetta hliðarspor.“

 

Þörfin fyrir að vera einhvers metinn

Hjónaband og sambúð getur orðið svo hversdagslegt fyrirbæri að makarnir fara að líta á hvort annað eins og hluta af innréttingunni. Allir hafa þörf fyrir að vera einhvers virði, að vera einhvers metnir, að eftir þeim sé tekið. Að hitta einhvern annan en makanna sem hefur áhuga fyrir manni og hefur e.t.v. sömu áhugamál, getur verið spennandi og kitlandi. Þá getur maður líka talað um vandamálin heimafyrir án skuldbindinga, orðað það sem maður leggur ekki í að segja við maka sinn. Ef úr verður ástarsamband við þennan þriðja aðila, þá er makinn bara orðinn að enn stærra vandamáli, því þá bætist pukur og samviskubit við vandamálin sem voru fyrir í sambúðinni. Og þá er stutt í skilnaðinn og upplausn gömlu fjölskyldunnar.

Sú trú að makinn eigi að uppfylla alla drauma og vonir manns eyðileggur mörg sambönd. Margir segja aldrei frá væntingum sínum í sambúðinni en loka sig bara inni í skel þegar þessar óorðuðu væntingar uppfyllast ekki. Og þar með er parið læst í tilveru sem er ófullnægjandi fyrir báða aðila. Hvorugur þorir að orða hugsanir sínar af ótta við upplausn og deilur. Í staðinn leita menn út fyrir sambúðina í þeirri vissu að þar sé grasið grænna. Og það á við bæði í rúminu og á öðrum sviðum.

 

Er ég enn ungur/ung?

Þau eru ekki svo fá samböndin sem lenda í erfiðleikum vegna framhjáhalds þegar komið er fram á „miðjan aldur“. Þá er eins og vakni einhver þörf hjá sumum fyrir að fá staðfestingu á því að maður sé nú enn ungur og gjaldgengur. Þetta hefur verið kallað „grái fiðringurinn“ í gríni. Margir eiga erfitt með að sætta sig við að hrukkunum fjölgar, hárunum á höfðinu fækkar eða þau grána og bílhringir taka að hlaðast upp á vissum stöðum líkamans. Þetta á við um bæði konur og karla. Æskudýrkun samtímans ýtir undir þessa sjálfsmyndarkreppu hins miðaladra. Allir eiga að vera ungir, fallegir og eftirsóknarverðir. Auglýsingar skapa þá mynd af raunveruleikanum að verðleiki einstaklingsins miðist við útlit.

Ef síðan yngri karl eða kona gefur hinum miðaldra undir fótinn styrkist sá hinn sami í þeirri trú að „maður sé nú enn gjaldgengur“, einhvers virði. Það eru ófáir sem vilja sanna sjálfan sig með því að taka hliðarspor í hjónabandinu. En oftast kemur fljótlega í ljós að það er erfitt að lifa í einhverri ímynd sem ekki er maður sjálfur. Margir hafa þannig glatað blæði maka sínum og sjálfum sér þegar glansmyndin og nýjabrumið fer af sambandinu við ástkonu eða ástmann. Þá rennur upp það ljós að aldur segir ekki allt og útliðið ekki heldur og að makinn fyrrverandi var það sem í raun og veru gaf lífinu gildi. Því enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

 

Ótti við að bindast

Ýmsir upplifa hjónaband og sambúð sem bindingu er þeir telja að útiloki sig frá bjartari hliðum tilverunnar. Þessir hinir sömu óttast að verða háðir maka sínum og þar með auðsæranlegir og ósjálfstæðir. Að gefa sig þannig ástinni á vald veldur kvíða gagnvart afleiðingunum. Kannski hafa þeir áður farið illa út úr ástarsambandi. Svo eru líka þeir einstaklingar sem vilja ráða sér sjálfir í einu og öllu og hafa ekki áhuga á að gefa af sér í sambandinu. Þeir vilja aðeins njóta, fá eitthvað fyrir sinn snúð en vilja ekkert leggja að mörkum á móti. Samt hafa þeir ekki styrk til þess að taka frumkvæðið og slíta sambúðinni eða hjónabandinu. Hvað sem veldur, þá nota þeir þriðja aðila til þess að svíkja heit sín og brjótast þannig út úr sambandi sem þeir vilja ekki lengur vera þátttakendur í. Framhjáhaldið verður þá einskonar tæki, aðferð til að losa sig við maka sinn, fjölskyldu og skuldbindingar. Það versta sem þessir aðilar vita er sú staða sem kemur upp, þegar makinn þrátt fyrir allt vill „reyna áfram“.

Það er reyndar ekki hægt að vera í ástarsambandi og búa saman sem par án þess að verða háður maka sínum á einhvern hátt. Og það er reyndar alls ekki neikvætt, heldur getur það þvert á móti verið af hinu góða. Að elska er að gefa sig öðrum á vald. Þar með verður maður líka auðsæranlegur. Að elska er að treysta öðrum fyrir tilfinningum sínum. Það er ekki hægt að elska með skilyrðum.

En málin eru sjaldan eins einföld og sú mynd sem hér hefur verið dreginn upp af þeim sem ekki vill binda sig. Margir sem hafa haldið fram hjá maka sínum, bera þá reynslu með sér í gegnum tilveruna sem þunga byrði. Vonbrigðin með sjálfan sig og samviskubit gagnvart makanum verður að sári sem seint grær. Og framhjáhaldið verður sjaldan til þess að einfalda hlutina heldur þvert á móti magnar það upp þann vanda sem fyrir var. Og nú er auk þess kominn nýr aðili, jafnvel ný fjölskylda til sögunnar, þ.e. sá sem haldið var framhjá með og öll hans mál.

 

Að lokum

Trúnaður er grundvallaratriði í hverri sambúð og hverju hjónaband eins og í öðrum samskiptum í lífinu. Ef við gerum okkur grein fyrir því, þá getur það gefið okkur tækifæri til að upplifa ríkt og heitt ástarsamband með þeim sem við höfum kosið að tilheyra og lifa lífinu með. Þannig getur ástin styrkst og staðist erfiðleikana sem enginn sleppur við. Og þá getum við auðveldlega staðist allar freistingar þegar þriðji aðili kitlar hégómagirndina. Þá fáum við líka kraft til þess að láta okkar eigin ákvarðanir ráða vali okkar í lífinu, líka ef við erum að því komin að missa stjórnina. Því þá veljum við að halda fast í það sem við eigum. Og við gerum það fyrir okkur sjálf, fyrir maka okkar og fyrir fjölskyldu okkar.


9 leiðir að bættu kynlífi

Bætiefni geta verið góð og gild en gera lítið ein og sér fyrir ást og kynlíf.

Hér fylgja nokkrar leiðir sem hægt er að fara til að auka ánægjuna og vellíðan í kynlífinu. Engin þeirra er algild en þú / þið sem lesið þetta getið ef til vill fundið eitthvað hér sem styrkir ykkar samband, ást og kynlíf.

1.Ræktaðu ástarsamband þitt við maka þinn á öllum sviðum, þannig að vinátta ykkar geti vaxið og gagnkvæm umhyggja ykkar aukist.

Í traustum samböndum er kynlífið ofið inn í öll samskiptin sem eiga sér stað. Ef sambandið er gott og vinátta og skilningur ríkir, eru líkurnar miklar á því að kynlífið sé fullnægjandi fyrir báða aðila. Ef sambandið er slæmt, fullt af togstreitu og spennu, þá verður kynlífið það líka. Kynlífið byrjar ekki í kynfærunum, heldur í höfðinu.

2.Einbeittu þér að því að auka og dýpka innileikann í sambandi ykkar og þá mun innileikinn í kynlífinu líka aukast.

Þetta er tilbrigði við það sem nefnt var hér að ofan.

3.Gerðu hreint fyrir þínum dyrum reglulega. Talið um tilfinningar ykkar, gerið upp óleyst deilumál, spennu, særandi hugsanir og orð.

Þetta á sérstaklega við ef þið hafið sært hvort annað og kynlífið er farið að líða af þeim sökum. Að þegja þunnu hljóði yfir tilfinningum sínum og bæla niður reiði og spennu er einn helsti orsakavaldurinn fyrir erfiðleikum í kynlífi. Í stað þess að tala um hlutina er kynlífinu beitt í refsingarskyni. Það verður að leysa úr vandamálum líka þeim sem tengjast mismunandi þörfum í kynlífinu.

4. Gerðu allt sem í þínu valdi stendur til þess að samband ykkar byggist á réttlæti og jöfnuði og að tækifæri ykkar til vaxtar séu hin sömu.

Ef þú gerir þetta mun nálægð ykkar í kynlífinu aukast sem á öðrum sviðum. Ekkert samband er eins fullnægjandi og samband tveggja jafningja. Jafningjar berjast ekki um völdin í sambandinu, þeir fara ekki í stríðsleik né reyna að koma hinum aðilanum á kné.

5. Leyfðu barninu í þér að leika sér sem oftast.

Ein besta leiðin fyrir par sem upplifir spennu og erfiðleika í kynlífinu er að hlæja saman. Hláturinn losar um öll bönd og húmorinn mýkir samskiptin. Tökum ekki hvort annað of hátíðlega. Kynlíf er besti leikur sem hægt er að hugsa sér. Leikum okkur í kynlífinu. Í heilbrigðu kynlífi leyfum við barninu innra með okkur að fá frí frá annríki hversdagsins og spennutreyjunni sem fullorðinsgríman setur á okkur.

6. Nýttu þér aðferðir kynlífsmeðferðar og kynlífsfræðinnar ef vandamálin í kynlífinu eru orðin djúpstæð.

Oft endurspeglar dvínandi áhugi á kynlífi dýpri sálfræðileg vandamál í sambandinu eða hjá einstaklingunum. Vandinn getur átt sér djúpar rætur. Hann getur líka stafað af bældu uppeldi, brengluðum skoðunum, kvíða eða öðru því sem hemur gleði kynlífsins. Hjá meðferðaraðilum tekst mörgum að losna undan þessari byrði.

7. Leyfðu líkama þínum að njóta sín í kynlífinu.

Ekki vera hrædd við að prófa eitthvað nýtt í kynlífinu, svo fremi þið séuð bæði sátt við það og með á nótunum. Kannið líkama ykkar og hvað það er sem veitir ykkur báðum mestan unað.

8. Uppgötvaðu rómantíkina í sambandinu þínu, einmitt eins og það er núna.

Góðu fréttirnar frá rannsóknum kynlífsfræðinga að undanförnu eru að það er aldrei of seint að njóta kynlífsins. “Use it and you won´t lose it” eða notaðu það og þú missir það ekki, er gott ráð sem bandarískir kynlífsfræðingar gefa. Þetta á reyndar við um allt sem að líkamanum og andanum snýr, líka ástina og rómantíkina. Margir halda að kynlíf og rómantík sé bara eitthvað fyrir unga fólkið.

Þetta er mikill misskilningur. Þroski og gagnkvæm ást, umhyggja og nánd eykur vellíðan kynlífsins eftir því sem árin færast yfir og parið kynnist betur. Það er sérstök rómantík fólgin í því að líta saman yfir farinn veg og uppgötva allt það sem maður hefur átt í meðlæti og mótlæti.

9. Hugsaðu betur um líkama þinn og kynlífið mun án efa fara batnandi.

Að halda líkamanum hraustum með æfingum, hollri hreyfingu og góðu mataræði er ein af forsendunum fyrir því að kynlífið sé gott. Þetta á sérstaklega við þegar komið er á 50. aldurinn og þar yfir. Reykingar og óhófleg áfengisneysla að ekki sé talað um önnur eiturlyf draga úr kynlöngun og kynhvöt og geta gert líkamann óhæfan til þess að stunda kynlíf.

 


mbl.is Ráð til að auka kynhvöt og löngun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

70 ár frá frelsun Auschwitz 27. janúar 2015

 

image

 


Þann 27. janúar á þessu ári eru 70 ár liðin síðan sovéskar hersveitir frelsuðu eftirlifandi fanga úr útrýmingarbúðum Þjóðverja í Auschwitz.

Nafnið Auschwitz er þýsk þýðing á pólska nafninu Oswiechim, en Oswiechim er bær sem liggur um það bil í 70 kílómetra fjarlægð frá Kraká, hinni fornu höfuðborg Póllands. Þegar Þjóðverjar hernámu vestur hluta Póllands árið 1939, breyttu þeir öllum staðarnöfnum úr pólsku yfir í þýsku og þannig er nafnið komið til.

Á engum stað í heiminum hafa jafn margir verið myrtir eins og í Auschwitz.

Eftir að hafa hernumið Pólland reistu Þjóðverjar útrýmingarbúðirnar í Auschwitz til að geyma þar pólska pólitíska fanga, en síðar voru fluttir þangað Gyðingar, Rúmenar, samkynhneigðir og aðrir sem Þjóðverjar töldu óæðri.

Auschwitz er í raun kerfi útrýmingarbúða sem Þjóðverjar ráku allt frá hernámi Póllands 1939 eins og fyrr segir og fram til 27. janúar 1945. Hið þýska heiti búðanna er Konzentrationslager Auschwitz og í raun er um kerfi búða að ræða. Þar var að finna upprunalegu búðirnar, sjálft Auschwitz, Auschwitz II –Birkenau, Auschwitz III – Monowitz og 45 aðrar minni búðir.

Byrjað var að myrða fanga í Auschwitz í september 1941 og Auschwitz II –Birkenau varð síðan miðstöð “Lokalausnar Gyðingavandans” eins og Þjóðverjar kölluðu fjöldamorðin á Gyðingum sem þeir skipulögðu og framkvæmdu af þýskri nákvæmni. Frá árinu 1942 byrjuðu lestir að rúlla til Auschwitz frá öllum hersetnum löndum Þjóðverja í Evrópu, þar sem fangar voru myrtir á kerfisbundinn og iðnvæddan máta með Zyklon B gasi. Talið er að Þjóðverjar undir stjórn Nasista hafi myrt um 1.1. milljón fanga í Auschwitz. 90% þeirra voru Gyðingar þannig að einn af hverjum 6 gyðingum sem Þjóðverjar myrtu lét lífið þar. Sem aftur segir okkur að Þjóðverjum tókst að myrða rúmlega 6 milljónir Gyðinga.

Aðrir sem létu lífið í Auschwitz voru meðal annars um 150.000 Pólverjar, 23.000 Rómanir, 15.000 sovéskir stríðsfangar, 400 Votta Jehóva, fjölmargir samkynhneigðir, fatlaðir, geðsjúkir og auk þess tugir þúsunda af margskonar þjóðerni sem voru fluttir þangað. Margir þeirra sem ekki voru myrtir í gasklefunum dóu úr hungri, þrælkun, sjúkdómum, sem fórnarlömb læknisfræðilegra tilrauna – eða voru drepnir til gamans af þýskum fangavörðum. Lýsingar fanga sem lifðu af endurspegla sadisma Þjóðverja. Fangar voru skotnir, hengdir upp á krókum þar til þeir dóu, troðið í loftlaus rými þar til þeir köfnuðu eða einfaldlega látnir svelta eða frjósa í hel. Hugmyndaflugi fangavarðanna voru engin takmörk sett. Og líkbrennslan gekk dag og nótt.

Útrýmingarherferðin gegn Gyðingum og öðrum sem Þjóðverjar töldu ekki þess virði að fá að lifa, hófst árið 1933 þegar Adolf Hitler var kosinn, tökum eftir því, kosinn til valda í Þýskalandi. Henni lauk árið 1945 með sigri Bandamanna. Til að ná þessu markmiði sínu reistu Þjóðverjar, landar Lúters og Brahms og Bachs og annarra menningarvita, útrýmingarbúðir víða um Evrópu og beittu öllu tækniviti og þekkingu eins mesta iðnveldis heims, til að morðin mættu ganga sem hraðast.

Lífið í útrýmingarbúðunum var hryllingur. Föngunum var þrælað út og þeir sveltir. Pyntingar voru daglegt brauð. Læknar og vísindamenn stunduðu tilraunir á föngunum. Og þýskir fangaverðir murkuðu lífið úr fólki sér til gamans. Þjóðverjar reistu sex stórar útrýmingarbúðir, Chelmno, Belzec, Sobibor, Treblinka, Auschwitz sem hér er minnst og Majdanek. Þangað var fólk sem sagt flutt í gripavögnum frá öllum hornum Evrópu. Þegar komið var í búðirnar var fólki skipað í tvær raðir. Börn og konur í annarri og karlar í hinni. Læknar skoðuðu síðan fólkið og ákváðu hverjir áttu að deyja strax og hverjir áttu að fá að þræla til dauða. Þeim sem áttu að deyja var skipað að afklæðast og fara í sturtu. En sturtuklefarnir voru gasklefar þar sem fólkið var úðað með gasi og myrt.

Þjóðverjum og bandamönnum þeirra tókst að myrða um 11.000.000 í útrýmingarbúðunum fram að ósigri Nasista 1945.

1.100.000 þeirra voru börn.

Þegar “best lét” náðu Þjóðverjar að myrða 10.000 fanga á dag og brenna, bara í Auschwitz –Birkenau búðunum.

Um 7000 manns “störfuðu” í Auschwitz, flestir í SS sveitunum, Schutzstaffel. Lengi vel neituðu Bandamenn að trúa frásögum af útrýmingarbúðunum – þær voru einfaldlega of hræðilegar til að geta verið sannar. Enda var engin áhersla lögð á að stöðva fluttninga fólks í búðirnar með því að sprengja upp lestarteina eða einfaldlega búðirnar sjálfar. Eða kannski var áhuginn ekki fyrir hendi? Hver veit, um það er enn deilt. Og því héldu morðin áfram allt þar til er Sovétmenn ruddu burt morðsveitum Þjóðverja. Rétt áður en búðirnar féllu í hendur þeirra þann 27. Janúar 1945 voru flestir eftirlifandi fangar reknir í dauðagöngu.

Nú þegar 70 ár eru liðin frá frelsun síðustu fanganna í Auschwits minnumst við fórnarlambanna.

Um leið er rétt að velta fyrir sér hvernig menntuð og iðnvædd menningarþjóð eins og Þjóðverjar gátu framkvæmt öll þessi voðaverk og beitt til þess allri sinni þekkingu? Hvernig gátu læknarnir tekið þátt í morðum og pyntingum? Hvernig gátu venjulegir menn murkað lífið úr konum og börnum sér til gamans?

Síðast en ekki síst er vert að velta fyrir sér á tímum vaxandi kynþátthaturs og Gyðingahaturs í Evrópu, hryðjuverka og átaka menningarheima, hvernig við getum komið í veg fyrir að nokkuð þessu líkt gerist aftur?


Hjónaslökun á hjónanámskeiði 5. janúar 2015.

Þann 5. janúar næstkomandi mun ég bjóða upp á Hjóna og sambúðarnámskeið á höfuðborgarsvæðinu.

Námskeiðið verður með svipuðum hætti og undanfarin mörg ár. Sem fyrr verður lögð höfuð áhersla á að styrkja og efla sambúðina og benda á leiðir til lausna fyrir pör sem eru í vanda. 

Á námskeiðinu vinnur hvert par út frá sínum aðstæðum og enginn þarf að tjá sig frekar en hann vill við aðra.

Námskeiðið endar með kennslu í hjónaslökun - en slökun er einmitt eitt af því sem mörg pör skortir í sínum samskiptum.

Eftir námskeiðið hafa pörin með heim 7 vikna verkefni til heimanáms. Sjálft námskeiðið tekur eina fjóra tíma og skiptist í sjálfskoðun, verefnavinnu, samtöl, fyrirlestra og hjónaslökun.

Hægt er að skrá sig á námskeiðið á thorhallur33@gmail.com

 

 

 

 


Íslam ellefti hluti: Eftir daga spámannsins

     Þróunin eftir daga Múhameðs.

         Ríki múslíma var frá upphafi hugsað sem eitt. Eftir andlát Múhameðs breiddist veldi múslíma mjög hratt út. Aðferðin var ætíð sú sama er ný ríki voru innlimuð. Heimamenn fengu að annast innheimtu skatta og fjármál en arabar stjórnsýsluna. Gamla Aust-Rómverska ríkið var að missa tökin , þó því tækist að halda lífi allt fram að lokum miðalda og verja þannig Evrópu árásum úr suðri. Það var ekki fyrr en eftir fall Bysantíum eða Miklagarðs eins og forfeður okkar kölluðu borgina við Bosporussund,  að Evrópu í alvöru var ógnað af herjum múslíma.Smátt og smátt eftir því sem aldir liðu leystist  íslamska ríkið, umman, upp í smærri einingar. Þau landflæmi sem múslímar lögu undir sig voru einfaldlega of stór til þess að nokkurt eitt ríkisvald gæti stjórnað þeim öllum í einu ,fyrir daga nútíma samgangna. Upphaflega átti kalífinn að vera eftirmaður Múhameðs í sameinaðri veröld íslam. .i.Kalif ;er titill sem þýðir í raun “umboðsmaður” og var Kalifinn þannig umboðsmaður Múhameðs í heiminum.  Af því að enginn munur var á hinu andlega og hinu veraldlega valdi ,var kalifinn  bæði stjórnarleiðtogi og .i.Iman;, eða trúarleiðtogi. Það gerðist þó fljótt að sérstök stétt trúarleiðtoga, Imana, tóku yfir stjórnun trúmálanna, en  .i.vesírarar; fóru með hið veraldlega vald í nafni kalífans.

          Á 11. og 12. öld var kalífinn því orðinn lítið annað en valdalaust tákn fyrir heimsveldi sem í raun var margklofið í andstæðar fylkingar er börðust um völdin.  Stjórnarumdæmi kalifans kallaðist kalifat. Árin 632-661 réð kalífatið í Medínu yfir hinum íslamska heimi, en frá 661-750 fór kalifatið í Damaskus á Sýrlandi með öll völd. En stöðugt börðust æðstu menn hins víðfeðma samfélags um völdin. Árið 750 náðu .i.Abbasitar; i Bagdað völdum og fluttu miðstöð ríkisins austur þangað. Þeir báru síðan titil kalifans allt til 1258 .  En þeir voru þó orðnir næsta valdalitlir undir það síðasta og höfðu Seljúkar af tyrkneskum ættum í raun öll völd Abbasítana í hendi sér. Sérstakt kalifat hafði líka verið stofnað á Spáni og í Egyptalandi þannig að enginn eining ríkti um hver ætti að vera umboðsmaður Múhameðs.

         Á þessum öldum reis ný menning við Miðjarðarhaf, menning er síðar átti eftir að teygja sig allt til Filipseyja í austri. Íslam bar sigurorð af hinni kristnu/grísku/rómversku menningu sem ríkt hafði við Miðjarðarhafið um aldir. Arabískan tók við af latínu og grísku sem verslunar og menningarmál og viðskiptin færðust í austur -vestur stefnuna, í stað norður -suðurs. Evrópa einangraðist og braust ekki út úr einangruninni fyrr en með landafundunum miklu á 16. öld. Sumir sagnfræðingar vilja halda því fram að Evrópa hafi orðið til í baráttunni við Íslam, enda eru ekki nema um 1000 km. sem aðgreina framsókn múslíma við .i.Potier; í Frakklandi þar sem þeir voru stöðvaðir árið 732 og það lengsta sem Tyrkir komust við Vínarborg á 17.öld.

         Á þessu nýja menningarsvæði blómstraði hámenning sem hvergi átti sinn líka á miðöldum og þó víðar væri leitað í sögunni. Miðstöðvar hinnar nýju menningar íslam var að finna í Bagdað í Persíu, í Kairó í Egyptalandi og í .i.Cordova; á Spáni.  Í Cordovu , sem margir íslendingar þekkja, stofnuðu Umajadar nýtt Kalífat á dögum Abd al-Rahman á 10. öldinni og þar reis hin nýja menning hvað hæst. Engar aðrar borgir í Vestur-Evrópu komust með tærnar þar sem Cordova hafði hælana. Á meðan hin kristna Evrópa lá í dvala miðaldamyrkursins, blómstraði hámenning á Cordovu þar sem nýjar hugmyndir spruttu fram, bækur voru skrifaðar, byggingar reistar og listaverk sköpuð sem eiga sér fáar hliðstæður í heiminum. Aðeins Konstantínópel og Bagdad státuðu af svipaðri menningarsköpun. Í Cordovu voru 37 bókasöfn fyrir utan háskólabókasafnið þar sem geymdar voru 400.000 bækur. Þar voru líka ótölulegur fjöldi bókaverslana, 800 skólar á vegum ríkisins, 600 moskur, 150 spítalar, 900 opinber böð, 130.000 hús og hálf milljón íbúa. Á sama tíma og íbúar parísar og Lundúna gengu um myrkar, illa þefjandi forargötur, voru götur Cordóvu hellulagðar og upplýstar. Landbúnaður og tæknikunnáttu tóku líka miklum framförum og 1000 skipa floti hélt uppi tengslum þvert yfir Miðjarðarhafið. Bæði drengir og stúlkur fengu skólagöngu þar sem kennt var í íslömskum fræðum, stjörnufræði, stærðfræði, heimspeki og læknisfræði. Lykillinn að velgengni Cordovu var frjálslyndi í trúarskoðunum. Kristnir og gyðingar fengu óáreittir að stunda trú sína og kristin og gyðingleg fræði. Einn frægasti heimspekingur gyðinga .i.Ibn Maymun;, eða Maimonodes, bjó einmitt í Cordovu en hann lést árið 1204.

         Þessi glæsta hámenning Cordovu hrundi til grunna þegar “reconquista”  eða endurvinningar þeirra Ísabellu og Ferdinands spánarkonungs og drottningar hófust á 16. öldinni. Eftir að þau lögðu undir sig ríki múslíma á Spáni, voru gyðingar og arabar gerðir brottrækir þaðan og átrúnaður þeirra bannaður. Spænski rannsókanrrétturinn sá svo um að útrýma því sem eftir stóð og þeim hinum kristnu sem höfðu vikið af réttri leið. En þó að flestar byggingar Cordovu hafi verið jafnaðar við jörðu og bókasöfn hennar brennd, þá lifir hin forna menning Kalifatsins á Spáni enn góðu lífi í tungumáli okkar og Evrópumanna og sýnir það e.t.v. best hin miklu áhrif þessarar borgar . Frá Cordovu eru komin orð eins og albatros, banani, blússa, lútur, monsun, múskat, kamel,kaffi, gírafi, gítar, natron, hrís, sóffi, síróp, fíll, almanak, kanill og mörg , mörg fleiri.

 

 


Íslam - tíundi hluti: Kenningin

Súlurnar fimm.    

1. Það er frumskylda múslíma að biðja fimm sinnum á dag í átt til hins helga Kaba steins í Mekka. Fyrst vildi Múhameð að fylgendur hans sneru sér til Jerúsalem í bæn, en breytti því til að undirstrika sjálfstæði átrúnaðarins gagnvart kristnum og gyðingum.

 

2. Sérhver múslím á að fasta í hinum helga mánuði Ramadan frá sólarupprás til sólseturs.

 

3. Og hann á að reyna að komast til Mekku í pílagrímsferð alla vega einu sinni á æfinni.

 

Fyrst bauð Múhameð reyndar fylgendum sínum að fasta að hætti gyðinga, en hætti því eftir að slóg í brýnu milli þeirra og hans, þegar gyðingar hæddu hann með því að hann þekkti ekki kenningu þeirra nægilega vel.

        

4. Múslím á að gefa sig heils hugar að trúnni og hafa yfir trúarjátninguna opinberlega í votta viðurvist en hún hljóðar svo :"Enginn Guð er til nema Guð og Múhameð er spámaður hans".

 

5. Allir áttu að gefa ölmusu, "zakat", og með ölmusunni átti þjóðfélagið að ala önn fyrir fátækum.

 

Þessar fimm skyldur eru kallaðar "súlur íslam", þ.e. fastan, pílgrímsferðin, játningin, ölmusan og bænin. Má segja að þær séu í stuttu máli kjarni átrúnaðarins.

         Sumir vilja reyndar bæta við sjöttu "súlunni", hinu heilaga stríði eða jihad. Samkvæmt því skifta múslímar heiminum í tvær fylkingar, heim íslam "Dar al-Islam", og heim stríðsins "Dar al-Harb". Samkvæmt Kóraninum ber öllum múslímum skylda til að berjast gegn fjölgyðistrúnni í hverri mynd, og einnig fyrir því að hinir kristnu og gyðingar sýni undirgefni með því að borga skatt. En þeim er stunda fjölgyðistrú á að útrýma. Skýrir það hatrömm trúarbragðastríð í Asíu allt til þessa dags þar sem eingyðistrú íslam mætir fjölgyðistrú hindúa. Sérstaklega er Kóraninn á móti þeim er engu trúa, guðleysingjum hverskonar, hvort sem það nú á dögum  eru efahyggjumenn, kommúnistar eða búddistar, en búddistar trúa  ekki á neinn guð og því "engu" segir eingyðistrúarmaðurinn. Þess vegna voru Sovétríkin ekki bara afla myrkursins í augum Regans forseta á sínum tíma, heldur ekki síður múslíma sem álitu kommúnistastjórnina í Moskvu sæti Djöfulsins.

        

     Guð.

Hinn sanni Guð er  einn, alvaldur, alnálægur og ræður öllu. Enginn og ekkert er honum jafnt. Öll fjölgyðistrú og allt trúleysi er því andstyggilegt athæfi í augum múslíma. Guð stjórnar jörðinni í gegnum skapaða menn, fulltrúa sína, og jörðin var sköpuð mönnunum til góðs. Guð ákveður örlög sérhvers manns. Að lokum mun dómsdagur renna þegar veröldin dæmist af Guði. Þá munu undur og tákn sjást, Jesús mun snúa aftur eins og sá spámaður sem hann er og eldurinn mun smala fólki að sæti hins hinsta dómara. Guð er hið endanlega, handan alls sem er. Guð er að eðli til annað en veröldin og verður aldrei hluti hennar. Því telja múslímar kenningu kristinna manna um holdtekningu Guðs í Jesú sem lesa má  um í jólaguðspjallinu, villutrú. Ekki er hægt að skilgreina eðli Guðs því eðli hans er ekki til í veröldinni. Nöfn Guðs eru mörg og birtast í Kóraninum. Samkvæmt hefðinni eru þau 99 talsins og fela þau ein í sér skýringu á hinu óskýranlega eðli hans

 

     Spámaðurinn.

Kóraninn gengur út frá því að næst á eftir kenningunni um eðli Guðs komi kenningin um spámanninn. Guð hefur gert hæfileikann til spámennsku að kjarna hins mannlega eðlis. Hann hefur sent 144.000 spámenn til allra þjóða heimsins og allir hafa fengið að heyra um Kóraninn. Er það reyndar sami fjöldi og .i.vottar Jehóva ;kenna að muni frelsast á dómsdegi, en það er önnur saga. Guð útvelur spámenn sína og þeir eru af ýmsum toga. Sumir flytja litlar fréttir fyrir lítið fólk í daglegum aðstæðum, aðrir eru boðberar hins mikla sannleika trúarinnar. Þeirra fremstur er spámaðurinn Múhameð. Opinberun spámannsins er skilin sem boðskapur er hann fær beint frá himnum fyrir tilstilli engla. Þar koma menn hvergi nærri. Múhameð er hinn hinsti spámaður Guðs því boðskapur hans og vilji birtist endanlegur í Kóraninum. Enginn spámaður mun birtast eftir hann.

 

     Englar.

Í Kóraninum er mikið talað um engla. Englar hafa þar margþættu hlutverki að gegna. þeir eru sendiboðar Guðs og flytja mönnum opinberun hans. Þeir koma líka til jarðarinnar og taka  við sálum mannanna á dauðastundu. Mikill fjöldi engla er til í hinni himnesku hirð. Englarnir eru fulltrúar hins góða. Hið illa í heiminum kristallast í Djöflinum, .i.Al-Iblis;, sem var eitt sinn engill, en gerði uppreisn gegn Guði og var varpað til jarðar eins og reyndar segir frá í spádómsbók Jesaja í Gamla Testamentinu. Auk englanna eru til .i.jinn; sem eru andleg máttarvöld í heiminum en eru skör lægra settur en englar. Englar eru himneskir þjónar Allah.

        

 

     Maðurinn og hlutverk hans.

Maðurinn, karl og kona, standa andspænis Guði sem þjónar hans í heiminum. Guð skapaði fyrsta manninn, Adam, úr leir og blés honum lífsandann. Guð sagði síðan manninum nafn allra hluta. Maðurinn er þannig ekki skapaður í Guðs mynd eins og kristin trú kennir, og maðurinn er ekki samverkamaður Guðs sem í Biblíunni. Í sköpunarsögu Biblíunnar lætur Guð aftur á móti manninn gefa öllum dýrum nafn. Þetta, hver það er sem gefur öllu í tilverunni nafn, er mikilvægara en virðist svona við fyrstu sýn. Sá sem gaf nafn í hinum semitíska heimi (araba og gyðinga) hafði vald yfir því er hann nefndi. Samkvæmt Kóraninum er það Guð sem nefnir og hefur valdið yfir öllu í heiminum. Samkvæmt Biblíunni er það maðurninn sem nefnir hlutina og fær þannig vald yfir hinni sköpuðu veröld. Kóraninn undirstrikar þennan mun með því að segja að maðurinn sé í réttu sambandi við Guð sinn þegar hann verkar sem þræll Guðs í heiminum “.i.abd -Allah;”. Að vera sannur maður er að vera sannur þræll Guðs.  Kóraninn og íslömsk hefð kenna að karl og kona eigi að uppfylla hvort annað í samfélaginu sem þrælar Guðs í heiminum. Þeim er þannig ætlað hvort sitt hlutverk og þau eiga ekki að vera í samkeppni um sömu þjóðfélagsstöðu og ábyrgð. Hlutverk konunnar er að varðveita og annast fjölskylduna og heimilið, ala upp börnin og búa þeim góðan stað heima. Karlmaðurinn á aftur á móti að vinna og uppfylla efnahagslegar þarfir fjölskyldunnar. Hann á að “skaffa” svo notuð sé góð íslensk líking. Það þýðir ekki að konan eigi ekki líka að vinna fyrir heimilinu, en þó undir stjórn karlmannsins.  Kynlífið er heilagt þó að hjónavígsla sem slík sé ekki heilög athöfn heldur sáttmáli tveggja fjölskyldna. Fjölkvæni er leyfilegt undir vissum kringumstæðum ef allir aðilar eru sammála og ef komið er fram af fullum lagalegum rétti gagnvart öllum konunum sem hlut eiga að máli. Þar er fordæmi spámannsins mikils virði en hann átti margar konur. Allt kynlíf sem ekki fellur að hinu hefðbundna hlutverki fjölskyldunnar og karls og konu, er bannað. Því fylgja strangar refsingar að brjóta þau bönn. Hórdómur eða framhjáhald,  samkynhneigð og allt lauslæti er dauðasök. Þó þarf vætti fjögurra karlmanna að brotinu til að brot teljist sannað. Vætti kvenna er ógilt. Áherslan á mismunandi hlutverk kynjanna er undirstrikuð með aðgreiningu þeirra á opinberum vettvangi og með því að konur bera blæju. Þó blæjan sé ekki nefnd í Kóraninum, þá er hennar getið í sunnunni, eða bók hefðanna. Íslam krefst þess að konur séu hógværlega klæddar og að þær hylji “skartgripi” sína  öðrum en eiginmanni sínum. Skartgripir kvenna eru líkami þeirra og hár.

        

     Lög og reglur.

 Samfélagið er það sem öllu skiptir og lög þess. Sá sem brýtur á einhvern hátt gegn samfélagi ummunnar, hinu íslamska samfélagi í heiminum, er í vondum málum. Refsing allah vofir yfir honum og refsiákvæði hins æfaforna lögmáls er segir “auga fyrir auga og tönn fyrir tönn”. Múhameð vildi sameina alla araba undir vald hins eina lögmáls. Lögmálið er algilt og allir eru jafnir fyrir því eins og það birtist í Kóraninum. Auðvitað hafa valdamenn í aldanna rás reynt að koma sér undan þessari hörðu jafngildisreglu. En yfir þeim hefur þá vofað dómur allah á hinum efsta degi. Og hvort sem menn nú fylgja lögmálum hans eður ei, þá eru allir í hendi hans, því allah hinn alvaldi hefur úthlutað öllum sín örlög og undan þeim kemst enginn. Allar hugmyndir um aðskilnað ríkis og átrúnaðar eru því fjarstæða í hugum múslíma. Það er bara til eitt samfélag og það lýtur lögmáli Allah.

Moskan, helgistaður múslíma, er kjarni alls samfélagsins, bæði hins andlega og veraldlega. Orðið “Moska” þýðir staðurinn þar sem menn leggjast flatir. Þar safnast menn til bæna og þar fengu menn á fyrri tíð úthlutað dagskipunum frá hinu veraldlega valdi, sem jafnframt hafði umsjón með hinu andlega. Fræg er sagan af einum af kalífunum í Bagdað sem í lok föstudagsbænarinnar leit yfir söfnuðinn og sagði “hér standa nokkrir hausar upp úr hópnum sem bráðum munu fjúka og blóðið mun streyma um skegg ykkar og háls”. Og það varð raunin, því úti beið aftökusveit eftir andskotum kalifans sem höfðu tekið þátt í bænahaldinu með honum

          Íslam þýðir undirgefni undir Allah og lögmál hans eins og ég sagði frá í síðasta þætti. En sjálft orðið "íslam" felur í raun í sér mun dýpri merkingu en kemur fram í þýðingunni "undirgefni. Sú dýpri merking skýrir vel hvað felst í hugmyndinni um hið algilda lögmál Allah í heiminum. Arabíska ritmálið byggir á samhljóðum eins og hebreskan. Öll orð sem gerð eru úr sömu samhljóðunum eru skyld eða samstofna og fela í sér tengda merkingu.  Samhljóðarnir í "íslam" eru S, L og M, hinir sömu og í hugtakinu Salem, sem aftur merkir friður, eining og kyrrð. Salem er sá friður sem mun ríkja þegar Allah hefur tekið völdin í heiminum og dæmt andstæðinga sína á degi dómsins. "Friður sé með þér" er heilsan Araba er þeir hittast, ósk um að samhljómur megi ríkja hjá þeim er þeir mæta á lífsins leið. Íslam merkir þannig einnig "samhljómur og friður". Það leiðir því af sjálfu sér að eins og Guð er einn og ræður öllu, þannig er íslam hugtak sem nær til alls samfélags manna. Og hið sama gildir um þann sem er múslím. Orðið múslím hefur sama stofn og íslam og salem. Múslím er  sá sem lifir í samhljóman við tilveruna eins og Allah hefur sagt fyrir um að hún eigi að vera.        

Þannig eiga allir að sýna hver öðrum vinsemd, sérstaklega eiginmenn eiginkonum sínum. Ill meðferð á konum sundrar fjölskyldunni og þar með samhljómi samfélagsins. Öll neysla fíkniefna er bönnuð, því fíkniefni brjóta niður eininguna og friðinn. Karlmenn mega eiga allt að fjórum konum og konur eru verndaðar samkvæmt lögunum þó öðru vilji gegna í raun. Valdsmenn hafa iðulega tekið sér margfalt fleiri konur og hneppt þær í þrældóm, en það er ekki samkvæmt boðum kóransins. Spámaðurinn Múhameð var sjálfur álitinn fyrirmynd í siðferðismálum og stjórnskipan. En eftir því sem tímar liðu og stjórnarrekstur hverskonar varð flóknari í hinu víðfeðma íslamska veldi, urðu menn að leita frekari leiða til þess að túlka lög Kóransins.

Þannig urðu til fjórar greinar, eða "rætur", þess lagasafns sem í dag er undirstaðan undir þjóðfélgsskipan íslamskra ríkja.

Fyrsta rótin er að sjálfsögðu Kóraninn .

Önnur rótin er hefðin, eða “al-sunnah” ,það hvernig menn hafa túlkað Kóraninn áður. Sérstaklega er mikilvæg túlkun fyrstu fjögurra kalífana sem tóku við af Múhameð. Þeir höfðu allir umgengist hann og heyrt hann mæla og því er tekið meira mark á þeim en öðrum. Að sjálfsögðu skiptir túlkun Múhameðs á lögmálinu miklu máli, og hitt ekki síður hvernig spámaðurinn lifði lífi sínu og sýndi öðrum fordæmi. Allt er þetta hluti sunnunnar, hefðarinnar.

Þriðja rótin er samanburðurinn, þar sem menn reyna að dæma ný ágreiningsmál sem upp koma með því að bera þau saman við dæmi Kóransins og sunnunnar.

Í fjórða lagi er svo samdóma álit ummunar eða íslamska samfélagsins sem sker út  um hvað eru hin réttu lög. Þannig spanna ræturnar fjórar öll svið þjóðlífsins, fjölskyldurétt, einkarétt, refsirétt, hjúskaparrétt, og opinbera stjórnsýslu. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þórhallur Heimisson

Höfundur

Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson

Höfundur er sóknarprestur í Breiðholtskirkju og hefur stundað hjóna og fjölskylduráðgjöf um árabil. Hann hefur einnig stundað framhaldsnám í trúarbragðafræði 

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ISIS
  • image
  • image
  • Breiðholtskirkja vetur
  • 12308174 10206547354895816 7660961963820362976 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband