Bankinn í neðsta Víti

 

Ég hef um margra ára skeið haldið úti námskeiðum um trúarbragðasögu og klassísk forn fræði. Á liðnu vori var meðal annars saman kominn góður hópur fólks sem ég leiddi í gegnum Divina Comedia, Hinn guðdómlega gamanleik, eftir Dante.

Eins og flestir ef til vill vita fjallar Hinn guðdómlegi gamanleikur Dantes um ferð hans í gegnum helvíti, hreinsunareldinn og himnaríki og til Guðs. Eins og gefur að skilja ber margt fyrir augu og sumar lýsingarnar all svaðalegar. Ferð Dante í Hinum guðdómlega gamanleik hefst á skírdagskvöld árið 1300 og lýkur miðvikudag eftir páska. Hann ferðast gegnum 9 hringa vítis, 9 hringa hreinsunareldsins og loks 9 himna himnaríkis. Leiðsögumennirnir eru tveir, hið forna rómverska skáld Virgill leiðir hann gegnum helvíti og hreinsunareldinn, en kona að nafni Beatrice, tákn hinnar fullkomnu konu, er fararstjóri í himnaríki.

Hvað um það.

Á námskeiðinu fylgdi ég slóð Dantes og hófst ferðin, eins og för hans, í forgörðum Vítis. Ég lýsti aðstæðum í frásögninni, sem verða æ hrikalegri er neðar dregur. Þegar komið var í neðsta Víti í frásögninni, á hinn versta stað, spurði ég eins og góður kennari nemendur mína: „Og hvað haldið þið nú að sé að finna á botni Helvítis“? Þá rétti eldri maður upp hönd og svaraði rólega: „Það hlýtur að vera banki”. Allur salurinn hló, en enginn mótmælti, og í raun fannst mönnum þetta vera næsta sjálfsagt.

Í kjölfarið hófst mikið spjall um bankana. Margir vitnuðu um meðferð bankana á venjulegu fólki á undanförnum árum. Ýmsir kunnu sögur af því hvernig bankarnir höfðu snúið við þeim bakinu í erfiðum aðstæðum í kjölfar hrunsins, svikið þá og platað, haft af þeim eða ástvinum þeirra aleiguna og ekki sýnt neina miskunn eða skilning en látið hagsmuni bankans ganga fyrir öllu.

Á þessu hefði ekki orðið nein breyting þó nú væri uppsveifla í landinu. Vitnuðu menn sem sagt um hvernig bankarnir höfðu brugðist fólk sem treysti þeim fyrir aleigu sinni.

Hvernig þeir hefðu breytt lífi margra fjölskyldna í víti. Og héldu áfram að ofsækja sömu fjölskyldurnar nú 10 árum eftir hrunið - sem þeir kölluðu yfir þjóðina og þær sömu fjölskyldur og þeir hafa eyðilagt.

En sömuleiðis voru menn á einu máli um dugleysi stjórnvalda sem gerðu ekkert til að rétta hag þeirra sem bankarnir hafa knésett.

Það væri því vel við hæfi að hafa banka þarna á botninum enda yfirskrift Vítis: „Gjörið yður engar vonir“.

En hvern er að finna þarna á botni Vítis samkvæmt honum Dante?

Þar er Lúsífer sjálfur, djöfullinn, sem situr hálfur í frosti með mestu svikara sögunnar sinn í hvoru munnvikinu, Júdas öðrumegin er sveik Jesú, og Brútus hinumegin, er stakk stjúpföður sinn Júlíus Sesar niður, þegar Júlíus leitaði skjóls hjá honum undan morðingjum sínum.

Annað heiti á Lúsífer er Mammon. Sem einnig er samheiti fyrir peningavaldið sem eyrir engum.

Öll nöfnin þýða það sama, sá eða það afl sem sundrar með illindum og svikum. 

Um Mammon segir Jesús í Matteusarguðspjalli, í Fjallræðunni:

"Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvor hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn.

Þér getið ekki þjónað Guði og Mammon".

Enda rak hann bankamennina úr musterinu

 


Sjóður til verndunar viltra dýra - Íslenski dýraverndunarsjóðurinn

Hvers vegna heitir sjóðurinn ekki Sjóður til verndunar viltra dýra - eða Íslenski dýraverndunarsjóðurinn?

Íslendingar standa að þessum sjóði

Þarf allt að vera á ensku?

Næsti sjóður gæti þá heitið The Icelandic Language Fond! Til verndunar máli sem er að deyja í höndum barna sinna.


mbl.is Slá skjaldborg um íslenska náttúru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skráning hafin á hjónanámskeið í janúar



Í janúar á komandi ári verður boðið upp á þriggja kvölda námskeið undir heitinu "Jákvætt námskeið um hjónaband og sambúð". Um er að ræða hjóna og sambúðarnámskeið eins og nafnið bendir til.

Þetta verður tuttugasti og fyrsti veturinn sem slík hjónanámskeið eru starfrækt.

Þó námskeiðið hafi verið í grunninn hið sama öll þessi ár, þá er hvert námskeið einstakt, enda breytist bæði tíðarandinn og þau verkefni sem pör eru að glíma við.

Að venju var góð þátttaka á námskeiðunum á liðnu ári og fullsetinn bekkurinn.

Markmið námskeiðanna er nú sem fyrr að veita hjónum og sambýlisfólki tækifæri til þess að skoða samband sitt í nýju ljósi, styrkja það og efla og tileinka sér aðferðir sem hjálpa þeim til að öðlast betra líf saman. Hvert par nálgast viðfangsefnið á sínum forsendum.

Efnið er kynnt með fyrirlestrum og í samtölum. Námskeiðin eru öllum opin og henta bæði þeim sem lengi hafa verið í sambúð eða hjónabandi, og hinum er nýlega hafa kynnst.


Skráning er þegar hafin á thorhallur33@gmail.com á námskeið janúarmánaðar. Þar er einnig hægt að fá nánari upplýsingar um námskeiðið


Fátækt á Íslandi um páska



Ég var eiginlega næstum búinn að gleyma því hvernig þetta er.

Að vera prestur á Íslandi rétt fyrir hátíðir. Ég hef starfað í Svíþjóð undanfarin rúmlega þrjú ár og þar er ekki sama rútínan.

Ekki sama ástandið.

Þetta ástand með fólk í neyð sem leitar sér aðstoðar svo hægt sé að halda upp á páska og jól – eða bara gefa börnunum sínum að borða.

Mikil ósköp – ég reiknaði með því fyrir jólin. Enda stóðst það alveg eins og venjulega.

En að nú fyrir páska sé fólk að koma í kirkjuna í örvæntingu sinni – því átti ég ekki vona á.

Þetta er fólk með börn, einstæðir foreldrar, hælisleitendur, flóttamenn, aldraðir, öryrkjar, fólk á bótum. Útlendingar sem hafa ekki fengið greiddar út krónurnar sínar og öllum er sama um. Íslendingar sem eru veikir, eða atvinnulausir, eða fatlaðir.
Y
Jú, barnafólkið hefur fengið einhverja smá úttekt hjá Hjálparstofnunum.

13.000 kr fékk eitt einstætt foreldrið til að halda upp á páskana með börnunum sínum.

Það dugar nú skammt í páskamatinn – eða páskaegginn ef folk vill kaupa svoleiðis lúxus.

En hin fá ekki neitt. Þessi barnlausu.

Allavega.

Guði sé lof fyrir gott folk í öllum áttum sem hjálpar til enn og aftur.

En mikið er ég orðinn þreyttur á þessu – eftir 30 ár í kirkjubransanum uppi á Íslandi – og ekki breytist. Enda ráðamenn á fullu í öðru eins og alþjóð veit.

Ekki laust við að mig langi aftur til Sverige.


Kalifatið og ISIS - Islamic state of Iraq and Syria



ISIS 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

ISIS hefur verið mikið í fréttum undanliðið ár. En hvaða fyrirbæri er þetta?

 

ISIS er stytting á enska heitinu Islamic state of Iraq and Syria og er í stuttu máli flokkur öfgamanna sem hafa lýst yfir stofnun ríkis á íslömskum grunni í Írak og Sýrlandi eins og nafnið bendir til,og segjast hafa endurreist kalífatið forna.

 

Sem kalífat gerir ISIS kröfu til yfirvalds í öllum trúarlegum, stjórnmálalegum og hernaðarlegum málefnum allra múslíma í heiminum. Sömuleiðis krefst ISIS í nafni kalífatsins yfirráðaréttar yfir öllum ríkjum og þjóðum sem lúta stjórnskipun íslam.

 

ISIS flokkurinn eru sunní múslímar sem sækja hugmyndafræði sína til Wahabíta, flokks öfgasinnaðra múslíma frá Saudí–Arabíu. Þeir hafa lagt undir sig stór landsvæði í Írak og Sýrlandi og allir þekkja morðæði þeirra af fréttum.

 

En fyrir hvað stendur þetta allt saman? Hvað þýða þessi orð, sunnítar, kalífat og kalíf? Og hvernig skýra þau öfgana að baki og stöðugan straum ungra múslíma frá Vesturlöndum sem eru tilbúnir að fórna lífinu fyrir þessa öfgahreyfingu?

 

Til að skilja það verðum við að skoða söguna. Ríki múslíma var frá upphafi hugsað sem eitt. Stjórnandi þess eða eftirmaður Múhameðs,kallaðist kalíf og veldi hans kalífat. Þó fór svo að frá upphafi gerðu tveir hópar kröfu til kalífatsins og viðurkenndu ekki hvor annan, sunnítar og shítar.

 

Eftir andlát Múhammeðs árið 632 breiddist veldi múslíma mjög hratt út. Veldi Sassaníta eða Persa í Mesópótamíu og Íran var komið að fótum fram. Gamla Aust-Rómverska ríkið var einnig að missa tökin, þó því tækist að halda lífi allt fram að lokum miðalda og verja þannig Evrópuárásum úr suðri. Það var ekki fyrr en eftir fall Býsantíum árið 1453, eða Miklagarðs eins og forfeður okkar kölluðu borgina við Bosporussund, að Evrópu í alvöru var ógnað af herjum múslíma. Var þá nafni Konstantínópel breytt í Ístanbúl, sem sagan segir að sé dregið af neyðarópi borgarbúa er þeir sáu Tyrki streyma inn í borgina, en það hljómaði svo “eis ten polin” á grísku. Undir Ottómönum í Tyrklandi sátu hersveitir múslíma síðast um Vínarborg ílok 17. aldar. Enn eru margir múslímar búsettir á Balkanskaganum og væri hægt að fjalla í löngu máli um þá hörmungarsögu sem þar hefur átt sér stað síðan á 16. öld.

 

Smátt og smátt eftir því sem aldir liðu leystist íslamska ríkið upp í smærri einingar. Þau landflæmi sem múslímar lögu undir sig voru einfaldlega of stór til þess að nokkurt eitt ríkisvald gæti stjórnað þeim öllum í einu, fyrir daga nútíma samgangna.

 

Upphaflega átti kalífinn sem sagt að vera eftirmaður Múhammeðs í sameinaðri veröld íslam.

 

Kalif er titill sem þýðir í raun “umboðsmaður” og var kalifinn þannig talinn umboðsmaður Múhammeðs í heiminum. Af því að enginn munur var áhinu andlega og hinu veraldlega valdi, var kalífinn bæði stjórnarleiðtogi og trúarleiðtogi. Það gerðist þó fljótt að sérstök stétt trúarleiðtoga tóku yfir stjórnun trúmálanna, en vesírarar fóru með hið veraldlega vald í nafni kalífans.

 

Fyrstu aldirnar eftir lát Múhammeðs deildu menn um hver ætti að vera eftirmaður hans og hvar höfuðstöðvarhins víðfeðma ríkis ættu að liggja. Varð það meðal annars til þess að múslímar klofnuðu í tvær fylkingar, sunníta, er fylgja megin straumi íslam og eru trúirhefðinni, og shía er telja sig fylgja afkomandum Alís að málum, en Ali var tengdasonar Múhammeðs, giftur dóttur hans Fatímu. Töldu áhangendur Alí að hann hefði átt að verða kalíf eftir Múhammeð, en valdstéttin snerist gegn Ali og hann var myrtur árið 661. Sonur Alis og Fatímu, Hussein, var sömuleiðis myrtur árið 680 ásamt allri fjölskyldu sinni og er morðsins minnst ár hvert í Iran,þar sem shía múslímar eru í meirihluta. Shía þýðir einfaldlega “flokkur”.

 

Sunnítar eru í dag um 90 % múslíma. Telja þeir að enginn veraldlegur leiðtogi hafi getað tekið við af Múhammeð. Hann er innsigli spámannanna. Stjórnvöld stjórni hverju sinni í umboðsmaði hans. Shíamúslímar líta aftur á móti á imaminn eða trúarleiðtogann, sem æðsta valdhafa Guðs á jörðinni.

 

Múhammeð á samkvæmt þeim að hafa stofnað vígsluhefð með því að útnefna iman, eða trúarleiðtoga sem eftirmann sinn og eiga imamarnir að leiða samfélagið en ekki kalífarnir. Tepngdasonur spámannsinssem fyrr var nefndur, Ali var fyrsti imaminn. Tóku synir hans síðan við embættinu og synir þeirra eftir þá. Á þessi vígsluhefð að tryggja rétta túlkun Kóransins, trúarbókar múslíma, til hins efsta dags og eru imamarnir taldir gæddir sérstökum andlegum hæfileikum er erfast frá kynslóð til kynslóðar.

 

En imamar eru ekki á hverju strái. Samkvæmt trú shía-múslíma hvarf hinn síðasti imam, eða trúarleiðtogi og dvelur nú á himneskum stað þar til er hann snýr aftur að dæma heiminn í nafni Guðs. Kallast hann hinn 12. imam. Þegar hann snýr aftur verður það undir heitinu Madid. Leiðtogar shía fara með öll völd í umboði hans. Geta þeir bæði í draumi og hugleiðslu verið í sambandi við hann.

 

Um tíma ríktu shía múslímar yfir Egyftalandi en náðu síðar völdum í hinni gömlu Persíu þar sem nú er Íran.

 

Shía múslímar skildu sig sem sagt frámegin línunni eftir daga Múhammeðs þegar deila hófst um hver ætti að taka við af honum sem leiðtogi ummunnar, samfélags múslíma. Þeir fylgdu tengdarsyni Múhammeðs, Alí, að málum , andstætt meirihlutanum súnnítum. Munurinn á þessum tveimur stóru hópum er reyndar ekki aðeins fólginn í því hver eigi að stjórna ríki islams, kalif eða imam, heldur einnig í hlutverki því sem stjórnandinnn gegnir.

 

Telja sunnar kalífan eiga að vernda íslam og hinaíslömsku hefð, en shíar að honum sé gefið guðlegt spádómsvald vald til að túlka hefðina og tala í nafni Guðs.

 

Enda er trúarjátningin ólík. Trúarjátning Sunníta hljóðar svo. „Alla er einn Guð og Múhammeð er spámaður hans“. En játning shía múslíma er „Alla er einn Guð og Múhammeð er spámaður hans og Alí er hjálpari Guðs“.

 

Á 11. og 12. öld var kalífinn orðinn lítið annað en valdalaust tákn fyrir heimsveldi sem í raun var margklofið í andstæðarfylkingar er börðust um völdin. Stjórnarumdæmi kalífans kallaðist kalifat.

 

Árin 632-661 réð kalífatið í Medínu yfir hinum íslamska heimi, en frá 661-750 fór kalifatið í Damaskus á Sýrlandi með öll völd. En stöðugt börðust æðstu menn hins víðfeðma samfélags um völdin. Árið 750 náðu Abbasitar i Bagdað völdum og fluttu miðstöð ríkisins austur þangað. Þeir báru síðan titil kalífans allt til 1258. En þeir voru þó orðnir næsta valdalitlir undir það síðasta og höfðu Seljúkar af tyrkneskum ættum í raun öll völd Abbasítana í hendi sér. Sérstakt kalifat hafði líka verið stofnað á Spáni og í Egyptalandi þannig að enginn eining ríkti um hver ætti að vera umboðsmaður Múhammeðs.

 

Íslam byrjaði að breiðast út um Indland á 13.öld. Á 16. öld lögðu múslímar endanlega undir sig allt Norður-Indland og stofnuðu Mógúlaríkið svokallaða. Réðu þeir síðan yfir meginhluta Indlands allt fram á miðja 19.öld. Í fyrstu voru persnesk áhrif ríkjandi í Mógúlaríkinu og leyfðu Mógúlar indverskum hefðum í menningu og listum einnig að lita ríki sitt og stjórnarfar. Sjást þess enn glögg merki í einni frægustu byggingu Indlands Taj Mahal í Agra. Á 18. öld tók veldi múslíma aftur á móti að hnigna á Indlandi, bæði vegna innbyrðis átaka höfðingja, andstöðu Indverja sem voru í miklum meirihluta og árásarstefnu Breta er sáu sér leik á borði að deila og drottna. Eftir uppreisn múslíma gegn breskum yfirráðum 1857 hvarf ríki múslíma á Indlandi af spjöldum sögunnar. Bretar gersigruðu þar Mógúlanna og komu nýlenduveldi sínu á um allt Indland.

 

Á 18. og 19. öld fór veldi íslam reyndar víða hnignandi, ekki bara á Indlandi og Evrópuríkin lögðu ríki múslíma undir sig hvert af öðru. Þar hafði tæknikunnátta Vesturveldanna betur. Múslímar höfðu staðið í stað í þróun vopna og tæknikunnáttu. Þeir máttu sín því lítils gegn ofurefli Evrópubúa.

 

Síðasti kalífinn var kalíf Tyrkjaveldis. Hann var settur af í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar þegar Kemal Ataturk stofnaði Tyrkland nútímans.

 

En það er sem sagt þetta kalífat sem ISIS vill endurvekja og sem öfgamenn fylkja sér nú í kringum. Og þar með gera þeir kröfu til heimsyfirráða – hvað sem það kostar.


Ertu með til Jerúsalem árið 2016?

 

Á komandi hausti mun ég fara sem leiðsögumaður til Jerúsalem á vegum ferðaskrifstofunnar Vita. Nú í upphafi árs leitar hugurinn því þangað og hlakka ég mikið til. Í Jerúsalem sameinast fortíð og nútíð, tími og eilífð og verða eitt fremur en á nokkrum öðrum stað á jörðinni. Saga borgarinnar nær aftur í gráa forneskju. Hún var upphaflega reist fyrir þúsundum ára af þjóðum sem enginn kann skil á í dag. Á hverju götuhorni má greina nið aldanna. Milljónir pílagríma hafa lagt allt undir í tímans rás til að sækja Jerúsalem heim, eina helgustu borg þriggja heimstrúarbragða, gyðingdóms, kristni og íslam. Hjarta Jerúsalem er gamla borgin innan múranna, sem skiptist í borgarhverfi gyðinga, armena, kristinna og múslíma. Þar má finna Grátmúrinn, Grafarkirkjuna, Via Dolarosa og Al Aqsa moskuna á Musterishæðinni auk margra annarra helgistaða. Á fornum kortum var Jerúsalem staðsett í miðju heimsins. Um hana hefur verið barist oftar en flestar borgir. Hebrear, Fönikíumenn, Hellenar, Egyptar, Babýlóníumenn, Assýringar, Rómverjar, Býsantíumenn, Arabar, Mongólar, Krossfarar, Ottómanar, Bretar, Frakkar og ótal fleiri hafa tekist á um hina helgu múra borgarinnar. Enn er deilt um borgina. Um leið er Jerúsalem tákn vonar og friðar og betri heims, tákn sem sameinar mannkyn um æðri gildi. Hér má finna stórkostleg söfn, sýnagógur, kirkjur, moskur og aðrar frægar byggingar fortíðarinnar. En hér knýr líka nútíminn dyra með nýlistasöfnum, tónlist, mörkuðum og spennandi matargerðarlist. Að sækja Jerúsalem heim er einstök upplifun sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

 


Kyrrðar og fyrirbænarstund í Breiðholtskirkju á Þorláksmessu kl.12.00

 

Svo segir í sögu heilags Þorláks Þórhallssonar, að biskup andaðist “einni nátt fyrir jólaaftan, sextigi vetra gamall”. Þetta gerðist árið ll93, en sex árum síðar var Þorláksmessa á vetri, hinn 23. desember, lögtekin á Alþingi.

Í tæpar átta aldir hafa Þorláksmessa og jól fylgst að á Íslandi. Í kaþólskum sið sungu menn Þorlákstíðir á messudegi biskupsins sæla. Á öllum tímum nær eftirvænting Íslendinga vegna helgra jóla hámarki á Þorláksmessu.

Mikið gengur á þennan síðasta dag fyrir jól. En mörgum er dagurinn líka erfiður af ýmsum ástæðum. Ástvinamissir, einsemd, sjúkdómar og annar missir á árinu er mörgum þungbær.

En öllum er líka gott að fá kyrrð og frið í miðri jólaösinni - jólafrið.

Því þykir okkur í Breiðholtskirkju við hæfi að bjóða til kyrrðar og fyrirbænarstund í Breiðholtskirkju á Þorláksmessu - svo hægt sé að stilla hugan við fallega tónlist og bæn.

Hefst stundin kl.12.00. Fyrirbænastund er í kirkjunni alla miðvikudaga kl.12.00 með hádegisverð á eftir. Að þessu sinni látum við okkur nægja kaffi og hressingu áður en haldið er út í jólaundirbúninginn á ný. Um leið verður tekið við söfnunarbaukaum Hjálparstarfs kirkjunnar.


Uppskrift að gleðilegum jólum

 

 

 

 Breiðholtskirkja vetur

Hver er eiginlega leyndardómurinn á bak við gleðileg jól?

Við því er auðvitað ekkert eitt rétt svar, eins og hver og einn veit.

Maður skyldi reyndar ætla að það væri fullt af sérfræðingum um þetta málefni úti í samfélaginu, því að vikurnar fyrir jól hafa fjölmiðlarnir varla undan að bera í okkur “upplýsingar” um það frá hinum og þessum aðilum úti í bæ, hvernig við eigum að ná gleðinni í hús um jólin. Og auglýsingarnar sem fylla póstkassana hjá okkur gera það sama. Yfirleitt er gleði jólanna samkvæmt auglýsingunum talin felast í því að kaupa eitthvað dót eða mat eða föt, hvort sem við höfum nú efni á því eða ekki.

En, það er nú samt eins og eitthvað vanti á jólagleðina hjá mörgum..........

Þess vegna langar mig til þess að benda þér á allt aðra leið. Hún felst í því sem ég kalla “uppskrift að gleðilegum jólum”. Ég hef búið hana til upp úr hinum og þessum samtölum sem ég hef átt við fólk út um borg og bý á undanförnum árum. En þó margir hafi komið með ábendingarnar hér að því hvað flest í jólagleðinni, þá eru samt flestir ótrúlega mikið á sama máli um þessa uppskrift, bæði hvað þarf í hana og hvernig eigi að matreiða hana til þess að úr verði gómsætur og vellukkaður "réttur". Ef þér og þínum líst vel á hana mæli ég með því að þið skellið ykkur í “baksturinn” þegar kemur að jólum á þessu ári. Forsendan fyrir því að uppskriftin heppnist vel er reyndar sú að allir sem ætla að halda jól saman komi með hráefnið í kökuna. Það verða auðvitað líka allir að taki þátt í því að baka hana, leggja sitt að mörkum.

 

 

En hér kemur þá uppskriftin að gleðilegum jólum;

 

2 bollar af ást.

2 bollar af trausti milli ástvina.

4 bollar af tíma, næði og ró.

4 bolli umhyggja fyrir þeim okkar sem eru einmana, sorgmædd og sjúk

4 dl. húmor til að brosa að óréttlæti og spillingu samfélagsins okkar

175 g mjúk vinátta tölum saman um það sem skiptir máli

1 1/2 dl. fyrirgefning

3 stórar matskeiðar af virðingu

2 tsk. gagnkvæmur skilningur á því hvernig öðrum líður

2 tsk jákveðni Stór slatti af hrósi, sérstaklega ef við höfum ekki hrósað hvort öðru lengi

 

 

AÐFERÐ:

Hrærið öllu varlega saman í góðri skál.

Skálin er það umhverfi sem þið hafið búið ykkur og það rými sem þið gefið hvort öðru í lífinu. Ætlið ykkur góðan tíma því annars er hætta á að eitthvað af þurrefnunum gleymist eða hlaupi í kekki.

Farið varlega með að bæta áfengi í uppskriftina. Best er að sleppa því alveg. Bakist í vinalegu umhverfi og eins lengi og þurfa þykir.

Hægt er að krydda og skreyta kökuna allt eftir smekk . Það breytir ekki sjálfri kökunni, en útkoman verður skemmtilegri og persónulegri. Ekki skaðar krem með tilbreytingu að eigin vali. Munið að tala saman um baksturinn, því annars brennur allt við í ofninum.

Berist fram í tíma og ótíma við jólaljós Jesú Krists, og með bros á vör.

Gleðileg jól Sr.Þórhallur Heimisson


Tuttugu lögregluþjónar um miðja nótt?

Það sem vekur furðu margra í dag er mótsögnin á milli yfirlýsingar yfirvalda og atburða næturinnar.

Ef fjölskyldurnar höfðu sjálfar óskað eftir flutningi og samþykkt öll rök Útlendingastofnunar - hvers vegna þurfti þá 20 lögregluþjóna til að flytja tvö lítil börn, 3 ára og 5 ára, þar af eitt alvarleg veikt, og foreldra þeirra, til Keflavíkur?

Hefði ekki nægt að hringja í leigubíl fyrir fólkið til að skutla þeim suður eftir?  

Hvað var lögreglan að gera þarna í nóttinni?

Við þurfum að fá svar við því.


mbl.is Óskuðu sjálf eftir flutningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Þórhallur Heimisson

Höfundur

Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson

Höfundur er sóknarprestur í Breiðholtskirkju og hefur stundað hjóna og fjölskylduráðgjöf um árabil. Hann hefur einnig stundað framhaldsnám í trúarbragðafræði 

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ISIS
  • image
  • image
  • Breiðholtskirkja vetur
  • 12308174 10206547354895816 7660961963820362976 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband